22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Eysteinn Jónsson):

Ég vil biðja hv. þm. að hafa góða samvinnu um þetta, því að það er öllum fyrir bestu að reyna að koma umr. utan dagskrár skaplega fyrir og skaplegar en hér hefur verið tíska, og ég vænti góðrar samvinnu um það. Það er engin ástæða til þess eða rök fyrir því, að umr., sem ekki er gert ráð fyrir í þingsköpum, hafi rétt umfram þær umr. um fsp., sem hafa ákveðinn rétt í þingsköpunum sjálfum. Það er óvenja, sem hefur tíðkast og verður að breytast, og ég vona, að hv. þm. sjái það. Það eru 5 menn á mælendaskrá, svo að það mun ekki af veita, að menn haldi sig við skynsamlega reglu.