22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er mikið rætt um Framkvæmdastofnunina og hennar afgreiðslu á þessu máli. Ég vil aðeins láta það koma fram, þar sem varamenn í stjórn stofnunarinnar hafa nú vitnað í þessum umr., að þá sé nú komin röðin að aðalmönnum að vitna einnig. Ég vil minna á, að í 29. gr. l. um Framkvæmdastofnun ríkisins er hlutverk Byggðasjóðs að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðalögum og koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði.

Framlög eða lán til skipabygginga hafa farið svo óðfluga hækkandi, að stjórn Byggðasjóðs sá sig til neydda að breyta þessum sjálfvirku reglum um síðustu áramót. Þróunin hefur verið sú, að allt það fé, sem Byggðasjóður hefur yfir að ráða, fer til skipabygginga og skipakaupa. Þess vegna segi ég fyrir mitt leyti, að ég vil endurskoða enn þessa áætlun, og ég get tekið fyllilega undir með hv. 2. þm. Vesturl., að ég vil endurskoða um leið lán til skuttogara. Við eigum að sinna víðtækum störfum, sem stjórnum Byggðasjóði, og við eigum ekki að láta allt fara í einn þátt mála, og ég vil vekja athygli manna á því, að þegar sótt er um leyfi til byggingar eða kaupa á innfluttum skipum, þá geti þeir ekki litið á það sem sjálfvirka reglu, að Byggðasjóður láni til slíkra skipakaupa. Hitt er svo annað mál, að ef ríkisstj. vill beita sér fyrir því að brúa þetta bil og telur, að það sé eðlilegt, að Byggðasjóður afgreiði lánið og komi með fjármagn til þess, þá skal ég samþykkja það með ljúfu geði.

Ég vil líka taka fram til þess að sýna hv. þm. fram á, að ráðstöfunarfé Byggðasjóðs fer ört minnkandi, en ekki vaxandi, að ef við lítum á fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, og ef ekki verður komið til móts við óskir þeirra, sem að byggðamálum helst vinna, þá verður a. m. k. 40% rýrnun á framkvæmdamætti fyrir þetta lánsfé Byggðasjóðs vegna hinna öru breytinga, sem eru á verðgildi peninga. Við vitum, að byggingarkostnaðurinn hefur hækkað um 33% frá 1. nóv. í fyrra til 1. nóv. s. l. Þetta gerir það að verkum, að með óbreyttri krónutölu, eins og gert er ráð fyrir, að framlög til Byggðasjóðs verði, þá er um verulegan samdrátt að ræða. Og hvað segja þá allir þeir, sem vinna að öðrum atvinnugreinum, ef stjórn Byggðasjóðs ætlar að ráðstafa eingöngu til skipabygginga eða skipakaupa öllu því fé, sem hún hefur yfir að ráða?