22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

Umræður utan dagskrár

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þessi mál ber nú alleinkennilega að, satt að segja, og það er auðvitað engin leið til þess að gera hér grein fyrir öllu því, sem Byggðasjóður og Framkvæmdastofnunin hafa með höndum. En ég ætla að nota þennan örstutta tíma til þess að gera örlitla grein fyrir afstöðu minni til þessa máls sem stjórnarmaður í stjórn Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóðs.

Ég stóð að því á fundinum, sem mun hafa verið haldinn 6. nóv., að framkvæmdaráðinu yrði veitt heimild til þess að afgreiða þessar lánsbeiðnir með 5% lánsheimild, og gerði það vegna þess, að ég taldi það eðlilegt eins og þá hafði verið unnið að þessu máli. Hins vegar gerist það svo á milli fundanna, að það tekst ekki að koma þessu lánadæmi saman, og þessarar heimildar var ekki neytt af hálfu framkvæmdaráðsins. Þessi mál bar þá aftur á góma á síðasta fundi, sem haldinn var síðasta þriðjudag, að ég held 20. þ. m., og þá voru þessi mál rædd allmikið. Það kom í ljós, sem raunar var vitað áður, að stjórnarmenn hafa verulegar áhyggjur af því, hvernig fer um ráðstöfunarfé Byggðasjóðsins. Það var þannig fyrsta starfsár Byggðasjóðs, eins og hér hefur komið fram, að af 480 millj. kr. heildarútlánum fóru 337 millj. til skipkaupa. Mönnum þykir þetta of mikið og hafa áhuga á því, að þetta megi breytast. Þess vegna kom fram sú till. á síðasta fundi af hálfu formanns stjórnarinnar, sem er hv. þm. Ragnar Arnalds, 4. þm. Norðurl. v., um það, að þessi heimild til lána út á loðnuskipin skyldi ekki vera 5%, heldur 2%. Afstaða mín á fundinum var sú, að mér fannst ekki rétt að fara að taka neina skjóta ákvörðun um þetta, sem e. t. v. yrði síðar kölluð vanhugsuð, þannig að ég lagði það til á fundinum og bar upp sérstaka till. um það, sem felld var þó, að þessu máli yrði frestað til frekari skoðunar. En því miður var sú till. ekki samþ., heldur var samþ. till. frá formanni í þessa veru, að lánað skyldi 2%. Að samþykkt þessarar till. stóðu, ef ég man rétt, 4 af stjórnarmönnum, en líklega 3 á móti. Og þeir, sem á móti voru ásamt mér, voru Guttormur Óskarsson, sem er varafulltrúi Steingríms Hermannssonar í stjórninni og sat þennan fund, og Benedikt Gröndal að ég ætla. (Gripið fram í: Hann sat hjá.) Það má vera, en aftur á móti þeir, sem stóðu að þessari samþykkt, voru hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, og hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, Halldór S. Magnússon og hv. þm. Ragnar Arnalds.