22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Við þm. höfum ekki áður fengið tækifæri til að skyggnast inn í vinnubrögð þeirrar ágætu og margumræddu stofnunar, og er það kannske vel. En í þessu tilfelli höfum við fengið að gægjast þar aðeins inn fyrir stafinn, og ég tel að ef öll vinnubrögð stofnunarinnar eru með þessum hætti, þá sé þar um einstök vinnubrögð að ræða. Fyrir hálfum mánuði var samþ. að lána þessum aðilum 5%, þar voru að vísu nokkrir varamenn til staðar, en hálfum mánuði síðar er þessari prósentu fírað niður í 2%. Þá getur vaknað sú spurning, hvort varamenn í stjórn stofnunarinnar, þeir hv. þm. Jón Árnason og hv. þm. Sverrir Hermannsson, séu ómerkir og ekki hæfir til starfa. Ég vil lýsa því strax yfir, að það er mitt álit, að þeir séu það ekki.

Það hefur verið sagt, að þessi loðnuskip landi hingað og þangað um landið, stundum erlendis, og það sé ekki verið að ýta undir byggðastefnu með því. Hv. þm. Matthías Bjarnason las hér fallega rollu um það, hve göfugt hlutverk Byggðasjóðs væri í byggðastefnunni, og skuttogararnir hefðu verið keyptir til þess að geta fengið heimahafnir úti um land, í hinni dreifðu byggð. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að togarinn, sem átti að fara til Raufarhafnar, hefur síðan landað í Hafnarfirði, svo að ekki er það byggðastefnusjónarmið.

Tveir af þeim mönnum, sem hafa sótt um að fá að kaupa sér skip, eru úr Vestmannaeyjum. Báðir eru þeir afburðaduglegir formenn og hafa getað lagt sinn hluta inn í banka, eins og krafist er. Og hv. þm. Jón Árnason minntist á aflamanninn á Hellissandi, sem hefur verið aflakóngur á Skarðsvíkinni árum saman. Ég tel, að þarna hafi verið farið aftan að hlutunum og þessu sé sjálfsagt að breyta, ef hægt er.