22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

36. mál, fiskeldi í sjó

Flm. (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Á þskj. 37 hef ég ásamt þremur öðrum hv. þm. leyft mér að flytja till. til þál. um fiskeldi í sjó. Till. sama eðlis flutti ég ásamt hv. þm. á síðasta þingi, en hún hlaut þá ekki afgreiðslu. Tillögugerðin er nákvæmlega hin sama, en grg. að nokkru breytt, fyrir því að þm. snerust gegn þessu máli eða alla vega notuðu það sem tylliástæðu til að svæfa þetta mál, að þar var nokkuð orðfært um eldi lax í söltu vatni eða sjó, og töldu, að með þeirri tillögugerð væri verið að skerða hlut landbúnaðar. Röksemdafærslan var á þá leið, að þar sem laxeldi heyrði undir verksvið Veiðimálastofnunarinnar og Veiðimálastofnunin heyrði undir landbrn., þá mætti af því marka, að verið væri að skerða hlut landbúnaðarins með því að gera till um, að Fiskifélagi Íslands yrði veittur nauðsynlegur fjárhagslegur stuðningur til þess að hafa forgöngu í þessu stórmikilvæga máli, sem fiskeldi í sjó eða söltu vatni er.

Nú er þessi vankantur, sem menn á málinu fundu, sniðinn af, og vænti ég þess nú, að þessi till. sé með þeim hætti, að allir hv. þm. geti sameinast um samþykkt hennar.

Það fer ekki milli mála, enda er þeim það kunnugt, sem áhuga hafa á málinu, að í þeim löndum, — sér í lagi í þeim löndum, sem fiskveiðar stunda, hefur verið lögð stóraukin áhersla á fiskeldi hvers konar. Þar til má nefna nágrannaþjóðir okkar, eins og Norðmenn og Breta, Kanadamenn, Sovétmenn og alveg sér í lagi Japani. Þó er það svo, að upplýsingar um framgang þessara mála hjá þessum þjóðum eru af allskornum skammti. Hingað til hefur málið að vísu verið á tilraunastigi, en allt um það hygg ég, að það hafi ekki verið laust fyrir hjá Japönum að fá upplýsingar, hvernig að þessum málum væri staðið. Það er vafalaust, að auknar rannsóknir í þessu efni og tilraunir mundu veita okkur að öllum líkindum mjög mikilsverðar upplýsingar um lífið í sjónum almennt, t. a. m. fiskigöngur og annað, sem að sjávarlífi og sjávargróðri lýtur. Ég verð að lýsa þeim vonbrigðum mínum, að mér finnst, að í þessu máli hafi verið talað fyrir of daufum eyrum. En ég ætla nú að vænta þess, að á því verði breyting.

Um nokkurra ára bil hefur Fiskifélag Íslands beitt sér fyrir rannsóknum í þessu skyni og haft að hluta í sinni þjónustu sérmenntaðan mann á þessu sviði. En mjög hefur það allt verið af vanefnum og þessu máli allt of lítill gaumur gefinn. Þeir, sem áhuga hafa haft í þessu efni, hafa ekki fengið nálægt því þann stuðning, sem vert væri.

Það er skoðun þeirra, sem gleggst vita og vit hafa á, að hér á landi séu margvíslegir möguleikar til eldis fiska í sjó, að við strendur landsins víða, um Austfirði, Vestfirði, Vesturland og víðar, séu ákjósanleg skilyrði til fiskeldis. Á þessu hafa engar grundvallarrannsóknir farið fram. Ég vil nefna sem dæmi, að Kanadamenn hafa í tilraunum sínum komist að raun um, að flýta má mjög, jafnvel tífalda vaxtarhraða fisks með því að hita sjóinn upp eða salta vatnið, sem ræktunin fer fram í, og þetta gera þeir með olíu eða hafa gert.

Nú búum við þannig hér í þessu landi, að mjög víða eru ákjósanleg skilyrði til þess, að hitagjafi bjóðist á mjög ákjósanlegum stöðum fyrir fiskeldi. Vil ég þar tilnefna t. d. Reykjanesskagann allan og svo t. d. í Axarfirði og miklu víðar. Jarðhitarannsóknum okkar hefur enn eigi skilað svo fram á veg, að menn geti fullyrt um það, hvar jarðhiti til þessara nota og annarra kunni að finnast enn víðar en upplýsingar liggja fyrir um í dag.

Þessum rannsóknum á aðstöðunni og ákjósanlegum stöðum í landinu til þess arna þarf að hraða, og mér skilst af kunnugleikamönnum, að það sé tiltölulega lítið verk að kortleggja þá staði, sem þættu vera ákjósanlegastir í þessu efni. En til þess arna hefur ekkert fjármagn verið veitt og allt óunnið í þessum sökum. Reynsla annarra þjóða, að svo miklu leyti sem upplýsingar liggja fyrir í málinu, bendir ótvírætt til, að stórkostlegum árangri megi ná á þessu sviði. Bretum hefur t. d. tekist nú hin síðustu árin að ná umtalsverðum árangri í ræktun sólkola og sandhverfu. Af skrifum, sem ég hef nýlega séð, má marka, að þeir binda mjög miklar vonir við þetta. Nýlega sá ég í tímariti, að Japanir hafa hafið ræktun í rúmsjó með sérstökum stálbúrum, sem þeir fjarstýra þannig, að þegar rysjótt veður er og öldugangur, sem gæti tortímt tilraunabúrunum eða fiskabúrunum, þá sökkva þeir þeim niður á allt að 30 metra dýpi og stjórna með radíósendingum.

Það er hægt að setja á langar tölur um mikilvægi þessa máls, og allt má heita óunnið í þessum efnum hér á landi. Undir því hygg ég, að sé mest komið nú til að byrja með, að við kynnum okkur sem rækilegast þann árangur, sem aðrar þjóðir hafa náð í þessum efnum, og jafnhliða rannsökum, hvar í landinu er heppilegast að hefja slíkar tilraunir. Við megum gera ráð fyrir því, að það muni kosta okkur ár, jafnvel áratugi að ná umtalsverðum árangri, en í þessu efni má ekkert til spara og síst ættum við Íslendingar að liggja á liði okkar. Fyrir utan þá aðstöðu, sem við kunnum að hafa í landinu sjálfu umfram það, sem er í boði hjá öðrum þjóðum, þá búum við enn sem betur fer við að kalla ómengaða náttúru. Sér í lagi hygg ég, að telja verði, að sjórinn við strendur landsins sé litt mengaður, enda þótt í því efni þurfi að hafa allan vara á.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem hér á hinu háa Alþ. er hreyft þessu máli. Ég vil minna á, að árið 1968 var samþ. þáltill., sem gekk mjög í sömu átt og þessi till., sem ég er nú hér að fjalla um. Núv. sendiherra í Kaupmannahöfn, Sigurður Bjarnason, flutti þá og fékk samþykkta tillögu um, að fram færi vísindaleg athugun og tilraunastarfsemi í fiskrækt og uppeldi nytjafiska í einstökum fjörðum og á þeim stöðum við landið, þar sem heppilegast reyndist, og var þar ákveðið að fela það verkefni Hafrannsóknastofnun og Fiskifélagi Íslands. Enda þótt ljóst liggi fyrir, að sjálfsagt megi hafa af því skjótan og mikinn hag að rækta t. d. lax í söltu vatni, liggur alveg ljóst fyrir, að fjölmörg önnur verkefni bíða, bæði með eldi sjávarfiska almennt og ræktun skeldýra. Mikill árangur hefur náðst í ræktun ostru og kræklings, sem, eins og við vitum, eru orðin mikilsverð fæðutegund sums staðar í heiminum og þegar nokkuð verið athugað um það hér og kræklingur nýttur, þótt í mjög litlum mæli sé.

Sannleikurinn er sá, að við erum alltaf að uppgötva nýjar og nýjar auðlindir við strendur landsins, í sjónum og á hafsbotninum. Það er ekki langt síðan hörpudiskur var uppgötvaður sem mikilvæg búgrein hér í landi. Sama má segja um rækjuna. Það er aðeins áratugur eða svo, síðan við uppgötvuðum, að þarna væri um mjög mikilsverðan atvinnuveg að tefla, humar einnig, og enn fleira mætti nefna.

Ég vænti þess nú, að þessi till. okkar fái það fylgi, sem þarf til þess að ná samþykki, og að nú verði ekki lengur haldið að sér höndum, heldur afli beitt til þess að ná árangri í þessum efnum. Við Íslendingar þurfum að geta sýnt það og sannað, að við viljum margt á okkur leggja og öllu til kosta, að lífið í sjónum verði ekki eingöngu verndað, heldur aukið og eflt. Það veit enginn, til hvers þessar tilraunir og rannsóknir kunna að leiða. Jafnvel kunna þær að geta leitt til þess, að við gætum aðstoðað klak þorskfiska okkar. Um það getur enginn sagt í dag. Orð eru til alls fyrst, og það má næstum því segja, að þessum málum hafi svo lítið skilað fram hjá okkur á undanförnum árum, að þau séu enn einvörðungu á umræðustigi.

Úr því að það kann að valda einhverjum hugaræsingi hjá einstaka mönnum, þá ætla ég að ræða það sérstaklega hér, hve gífurlegir möguleikar kunna að vera í boði hjá landbúnaðinum að hafa sem aukabúgrein og jafnvel aðalbúgrein fiskrækt í hinum fjölmörgu vötnum, sem alls staðar eru fyrir hendi í landinu. Þetta er lítt rannsakað mál enn. Við höfum náð umtalsverðum árangri í ræktun lax. En að öðru leyti má segja, að okkur hafi skilað lítt fram á veg.

Ég ætla ekki að setja fram lengri tölu um nauðsyn þessa máls, en ég vænti þess, að þessi till. fái nú nægjanlegt fylgi og öfluglega verði að málinu unnið alveg á næstunni.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. atvmn.