22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

42. mál, notagildi einfasa og þriggja fasa rafmagns

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Það er í mörgu tilliti, sem landsbúar sitja ekki allir við sama borð og njóta ekki hliðstæðrar þjónustu frá hendi þjóðfélagsins. Menntunaraðstaða, heilbrigðisþjónusta, sími, sjónvarp og fleira mætti telja, allt er þetta miklu dýrara og ófullkomnara þeim, sem á landsbyggðinni búa, en hinum, sem í þéttbýlinu eru. Það er þó yfirlýst stefna stjórnarinnar, og líklega má eitthvað um það finna í stefnuskrám allra stjórnmálaflokka, að stefnt skuli að því, að allir þegnar þjóðfélagsins búi við sem jafnasta aðstöðu og jöfnust kjör af hálfu samfélagsins.

Það mál, sem hér er hreyft, er vissulega ekki eitt af þeim stærstu ójafnræðismálum, sem sveitir landsins búa við, borið saman við þéttbýlið. Þar fyrir þarf það ekki að vera smátt í augum þeirra, sem við þetta búa. En það eru langir vegir frá því, að sveitirnar almennt búi við jafngilt rafmagn og þéttbýlið. Það er ekki aðeins, að sveitirnar greiði rafmagnið á hæstu töxtum, þar sem eru taxtar rafmagnsveitna ríkisins. Það rafmagn, sem flestir sveitarbæir fá, er ekki jafngilt til margra nota. Þessu er lýst í grg. með þáltill., sem ég ásamt fleirum hef leyfi mér að flytja á þskj. 43 og fjallar um könnun á notagildi einfasa rafmagns borið saman við 3 fasa rafmagn og um það, að gerð verði áætlun, hvernig megi dreifa 3 fasa rafmagni um sveitir landsins.

Það var tekið upp til þess að flýta fyrir dreifingu rafmagns um landið að leggja það með svonefndum einfasa lögnum. Til að byrja með var það gert á þann hátt, að aðeins voru lagðar 2 strengja raflínur, en síðar og með nýrri tækni tókst að koma rafmagninu með aðeins einum streng, þar sem jörð er notuð til að flytja annan fasann á móti. Þessar lagnir eru miklu ódýrari en hinar. Ætla má, að lína fyrir 3 fasa rafmagn væri nú um þriðjungi dýrari en fyrir einn fasa. Hver kílómetri kostar um 270 þús. kr. á móti um 180 þús. kr., sem einfasa lína kostar. Spennustöðvar fyrir 3 fasa línu munu líka vera um helmingi dýrari.

Ég tel ekki nokkurn vafa á því, að það hafi verið rétt stefnt að taka hér upp dreifingu rafmagns með einfasa linum. Með því móti ætti með sama fjármagni koma rafmagninu til miklu fleiri bæja. Það, sem meint er með þessari till., er einfaldlega, að það óhagræði, sem bændur og annað sveitafólk býr við af þessum sökum, verði kannað og hvað mikið muni kosta að bæta úr því, og í þriðja lagi, að gerð verði áætlun um, hvernig megi koma fullgildu rafmagni um sveitirnar að lokinni þeirri áætlun, sem nú er verið að vinna að í sveitarafvæðingu.

Það er, eins og ég hef sagt, ljóst, að einfasa rafmagn er bændum og iðnaðarmönnum í sveitum eða iðjuverum í sveitum á margan hátt mjög miklu óhagstæðara.

Í fyrsta lagi má benda á verð rafmótoranna. Sem dæmi má nefna það, að 5 hestafla mótor fyrir 3 fasa rafmagn kostar nú um 19 þús. kr., en 39 þús. kr. fyrir einfasa rafmagn. 10 hestafla mótor kostar samsvarandi 29 þús. kr. fyrir 3 fasa, en 53 þús. kr. fyrir einfasa rafmagn. Og 15 hestafla mótor fyrir 3 fasa rafmagn kostar aðeins 37 þús. kr., en ekki er hægt að fá stærri mótora en 13 hestöfl fyrir einfasa, og þeir kosta um 59 þús. kr. Þar sem ekki fást stærri mótorar en þetta, er það algerlega ófullnægjandi fyrir stærri býli, sem hafa t. d. stórar hlöður og þurfa aflmikla súgþurrkunarmótora.

Í þriðja lagi er ending einfasa mótora mjög miklu minni og þeir gefa ekki sama afl með sömu orkunotkun. Þeir eru orkufrekari til þess að skila sama afli.

Í fjórða lagi er ekki hægt að fá einfasa mótora fyrir mörg þau tæki, sem nú tíðkast við búskap, og reyndar fleira, t. d. ýmsan tæknibúnað í gripahús, svo sem rafknúnar viftur, lyftur o. fl., sem nauðsynlegt er við nútíma tæknibúskap.

Ég vil leggja á það sérstaka áherslu, að koma þarf af sveitarafvæðingunni, eins og við köllum það, áður en hafist er handa um að breyta þessum einfasa lögnum í 3 fasa lagnir. En þar sem tveir vírar liggja um sveitir og einfasa rafmagn er, mun þetta vera hægt með tiltölulega auðveldu og nokkru ódýrara móti. Nú, þegar hillir hins vegar undir lúkingu sveitarafvæðingarinnar, er ekki of snemmt, að farið sé að huga að þessu, og því er eðlilegt, að þessi mál verði nú tekin til könnunar og gerð um þau áætlun, eins og þáltill. þessi gerir ráð fyrir.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. atvmn.