27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

99. mál, ráðstafanir til að fyrirbyggja raforkuskort á Vestfjörðum

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson spyr, hvaða ráðstafanir séu ráðgerðar til þess að koma í veg fyrir rafmagnsskort á Vestfjörðum í vetur. Samkv. vitneskju, sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa látið mér í té, er afl í vatnsorkuverum á Vestfjörðum samtals 3960 kw., og afl í dísilorkuverum 3037 kw., eða samtals 6997 kw. Vatnsaflsstöðvarnar eru í þremur orkuverum, en varmaaflsstöðvarnar í 8 orkuverum, sem dreifð eru um svæðið. Mesta álag á Vestfjörðum veturinn 1972–1973 var 5600–5700 kw., og er áætlað, að mesta álag 1973–1974 verði rúmlega 6000 kw. Vélaafl umfram áætlaða mestu aflþörf á vetri komanda er því 700–800 kw. Verður því ekki séð, að um aflsskort verði að ræða á Vestfjörðum í vetur, nema til komi meiri háttar bilanir á orkuverum eða aðalorkuflutningslínum. Það virðist því ekki ástæða til að gera neinar sérstakar ráðstafanir innan Vestfjarðasvæðisins fyrir þennan vetur. Hins vegar er ljóst, að nauðsynlegt er að gera ráð fyrir auknu afli veturinn 1974–1975, og í því sambandi hafa Rafmagnsveitur ríkisins í fjárfestingartillögu sinni lagt til, að keypt verði 600 kw., dísilvél til Vestfjarða, og ef af því verður, mundi sú vél væntanlega geta komið í notkun fyrir mitt ár 1974. Þá hafa Rafmagnsveiturnar gert ráðstafanir til að eignast a. m. k. eina færanlega dísilrafstöð til þess að verða betur viðbúnar, þegar bilanir á línum eða orkuverum ber að höndum. Enn fremur hafa nýlega verið fest kaup á færanlegri gastúrbínu, 1150 kw., í sama skyni, en í vetur verður henni valinn staður á samtengisvæðinu á Austfjörðum vegna væntanlegrar loðnuvertíðar og meðan beðið er eftir Lagarfossvirkjun.

Svo sem þingheimi er kunnugt, er nú unnið að mikilli stækkun Mjólkárstöðvarinnar í Arnarfirði. Er gert ráð fyrir því, að sú stækkun, sem nemur 5.6 megawöttum, verði tekin í notkun á árinu 1975, og verður þá vel séð fyrir raforkuöflun um Vestfirði í bráð.