27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

99. mál, ráðstafanir til að fyrirbyggja raforkuskort á Vestfjörðum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að draga í efa réttmæti þeirrar niðurstöðu, sem hæstv. ráðh. gerði hér grein fyrir af hálfu yfirstjórnar Rafmagnsveitna ríkisins varðandi aflskort á Vestfjörðum. Ég held, að það þurfi engar bilanir að eiga sér stað, til þess að raforkuskortur á þeim stað sé staðreynd. Það er þegar vöntun þar á rafmagni, hefur verið um nokkurn tíma og fer að sjálfsögðu mjög vaxandi, þannig að ég held, að það sé full ástæða til þess, að það komi hér fram, að það er mjög í efa dregið, a. m. k. af minni hálfu, að þessar niðurstöður yfirstjórnar Rafmagnsveitna ríkisins fái við rök að styðjast, að því er það varðar, að það sé ekki raforkuskortur á Vestfjörðum. Ég vil þess vegna beina því sérstaklega til hæstv. ráðh., að hann kanni þetta frekar og gangi úr skugga um, hvort þessar fullyrðingar yfirstjórnar Rafmagnsveitnanna hafa við rök að styðjast.