27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

106. mál, símamál á Suðurnesjum

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Fsp. hv. 5. þm. Reykn. er um það, hvort hafi verið gerðar einhverjar ráðstafanir til að bæta símakerfið á Suðurnesjum, einkum með tilliti til landssímaafgreiðslu til Reykjavíkur út á land.

Ég hef leitað upplýsinga pósts- og símamálastjórnarinnar varðandi þessa fsp., og eru svör hennar á þessa leið:

„Með tilvísun til fsp. á þskj. 127 um ráðstafanir til að bæta símakerfið á Suðurnesjum, skal hér með upplýst eftirfarandi:

1. Í okt. s. l. var bætt við tveim raflínum milli Keflavíkur og Reykjavíkur og enn fremur bætt við 4 raflínum milli Grindavíkur og Keflavíkur. Eru þar með fullnýttir þeir möguleikar, sem nú eru fyrir hendi í Keflavík og Reykjavík, að því er snertir sjálfvirku langlínustöðvarnar. Stækkun þessarar stöðvar verður fyrirsjáanlega ekki komin í notkun fyrr en í byrjun ársins 1975.

2. Vegna línuskorts í sjálfvirka kerfinu hefur verið ráðgert að tengja handvirka skiptiborðið í Keflavík í samband við venjuleg númer í Reykjavík og þar með létta á sjálfvirku línunum. Enn fremur er hugsanlegt að veita einstökum símnotendum hliðstæða aðstöðu.

3. Verið er að stækka sjálfvirku símstöðina í Keflavík um 1000 númer, og mun því verki verða lokið í byrjun næsta árs.

4. Símakerfið í Grindavík hefur vaxið svo ört, að nauðsynlegt er að panta nýja stöð. Tilboð í þessa stöð hefur nýlega borist og er að upphæð 13 millj. kr. fob., en tollar og söluskattur nema 7 millj. kr. Afgreiðslutími er 13 mánuðir.

5. Efnið, sem losnar í Grindavík, verður notað til stækkunar á símstöðinni í Sandgerði og öðrum stöðvum á þessu svæði.

6. Hinn mikli skortur á langlínum alls staðar í landinu stafar af of naumum fjárhag og niðurskurði í framkvæmdum miðað við tillögur stofnunarinnar.“

Við þetta svar hef ég að svo komnu ekki miklu að bæta. Ég get vísað hv. þm. í gögn, sem honum ættu að vera tiltæk sem einum af nm. í hv. fjvn., þar sem fyrir liggja till. samgrn. og póst- og símamálastjórnarinnar um framkvæmdir á næsta ári, og vil ég vona, að þau mál fái það jákvæða afgreiðslu í hv. fjvn. og á hv. Alþ. og verulegt átak verði gert í þessum efnum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að það er mikill línuskortur í landinu, og ég veit, að það er ekkert ofsagt um það, sem hv. þm. sagði um ástandið á Suðurnesjum. En þannig er það víða um landið og stafar, eins og póst- og símamálastjórnin tekur fram, af því, að ekki hafa verið leyfðar þær fjárfestingar, sem nauðsynlegar hafa verið. Sjálfur þekki ég það, að tekið getur allt að 1½ klst. að ná sambandi frá Akureyri til Reykjavíkur, og kannske má nefna hliðstæð dæmi á Suðurnesjum.

En ég vil fullyrða, að gert verður það, sem í valdi samgrn. og póst- og símamálastjórnarinnar stendur, til að bæta þetta ástand, en það hlýtur þó alltaf að takmarkast af þeirri fjárhagslega getu, sem fjárveitingavaldið markar fjárfestingu og framkvæmdum hjá stofnuninni.