27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

106. mál, símamál á Suðurnesjum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir upplýsingarnar. Eins og hann drap á, hafði þetta borist að hluta til fjvn., og vandamálið er jafnan hið sama, það er að fá nægilegt fjármagn, svo að hægt sé að fullnægja eftirspurn. En einmitt á Suðurnesjum og raunar líka í Mosfellssveit hefur skapast óvenjulega mikil eftirspurn eftir nýjum númerum vegna áhrifanna frá Vestmannaeyjagosinu og mikilla íbúðarbygginga, og m. a. bara í Mosfellssveit eru yfir 300 íbúðir, sem reiknað er með, að verði teknar í notkun á næsta ári, og mun það kerfi, sem þar er, gersamlega springa. Það tekur 13 mánuði að útvega stöðinni í Grindavík ný tæki, þannig að það þarf langan aðdraganda að þessu og nauðsynlegt er að gera víðtæka áætlun um þörfina og hvar þörfin er mest.

Ég vil undirstrika það, sem kom fram í orðum hæstv. ráðh., að þetta mál er þannig vaxið, vegna erfiðleikanna að ná víða á landinu sambandi við Reykjavík, að það er nauðsynlegt að taka hér stórt á og leysa úr þeim vandræðum, sem koma fram víða á landinu. En þau hafa verið sérstaklega mikil á Suðurnesjum í mörg ár.