27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

108. mál, fjármál hafnarsjóða

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Enda þótt mér sýnist, að fsp. á þskj. 130 orki nokkuð tvímælis, hvort eigi að beina henni til mín eða samgrh., þá hef ég orðið við því að svara henni, eins og hún liggur fyrir.

Í fyrsta lagi er spurt: „Hvernig skiptast á milli einstakra hafnarsjóða og kjördæma endurlán fjármagns, sem ríkisstj. tók að láni samkv. 6. gr. fjárlaga 1973, að upphæð 40 millj.?“ Þessu vil ég svara þannig:

Vesturlandskjördæmi: Akraneshöfn 1½ millj., Ólafsvíkurhöfn 0.5 millj., Stykkishólmshöfn 1 millj. Vesturlandskjördæmi 3 millj.

Norðurlandskjördæmi eystra: Dalvík 0.5 millj., Grímsey 11/2 millj., Ólafsfjörður 11/2 millj., Raufarhöfn 0.5 millj., Þórshöfn 3 millj. Norðurlandskjördæmi eystra 7 millj.

Vestfjarðakjördæmi: Bíldudalur 1 millj., Bolungarvík 71/2 millj., Flateyri 1 millj., Hólmavík 0,5 millj., Patreksfjörður 1,5 millj., Súðavík 1 millj., Suðureyri 1,5 millj., Þingeyri 0,5 millj., eða samtals Vestfjarðakjördæmi 141/2 millj.

Austurlandskjördæmi: Neskaupsstaður 4 millj., Vopnafjörður 4 millj. Austurlandskjördæmi 8 millj.

Suðurlandskjördæmi: Eyrarbakki 1.5 millj., Stokkseyri 1 millj. Suðurlandskjördæmi 2.5 millj.

Reykjaneskjördæmi: Sandgerði 11/2 millj. Reykjaneskjördæmi 1.5 millj. kr.

Norðurlandskjördæmi vestra: Hofsós 0.5 millj., Sauðárkrókur 2 millj., Skagaströnd 1 millj. Samtals Norðurlandskjördæmi vestra 3.5 millj. kr.

Þetta er að segja um skiptinguna á lánunum, og svo er spurt áfram: „Með hvaða kjörum og til hve langs tíma, er þetta lán tekið? Lánið er tekið til 15 ára. Endurlán eru afborgunarlaus 2 fyrstu árin, en greiðast síðan á 13 árum með jöfnum afborgunum. Vextir eru 111/2% á ári, en breytilegir. Endurlánað er með sömu kjörum.

Um 3. töluliðinn, að því er varðar, hvort ráðh. telji fullnægjandi að létta greiðslubyrði umræddra hafnarsjóða með slíkum lánum í stað óafturkræfra framlaga, er því til að svara, að það kom greinilega fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að ekki væri mikið fyrir ríkissjóð að bæta á sig 40 millj. kr., eins og venja er til, þegar rætt er um einstök málefni. En ég vil segja það, að ég tel ekki verjandi að veita styrki til þeirra aðila, sem ekki hafa greitt af lánum sínum vegna hafnagerða, á sama tíma, sem sveitarfélög, sem stunda ábyrga fjármálapólitík, hafa greitt af sínum lánum eftir ítrustu getu og hafa staðið í skilum. Ég tel, að með þessu hafi þessum sveitarfélögum verið veitt veruleg aðstoð, og vonandi nægir það þeim til þess að komast yfir örðugan hjalla.

Þá er fjórða atriðið: „Er það rétt, að sumir hafnarsjóðirnir hafi ekki getað tekið þessi lán vegna synjunar á ríkisábyrgð í því skyni?“ Þeirri spurningu, hvort rétt sé, að sumir hafnarsjóðir hafi ekki tekið lánið vegna synjunar ríkisábyrgðar í því skyni, er því til að svara, að lánin eru veitt án ríkisábyrgðar. Heildarlánið er á ábyrgð ríkissjóðs, eins og Hafnabótasjóður er. Það er við þessa aðferð að athuga, að strangt tekið ber Hafnabótasjóði, sem annast þessar lánafyrirgreiðslur, að lána út gegn ríkisábyrgð eingöngu. Hins vegar hefur þessi aðferð verið notuð með hliðsjón af heimild sjóðsins til þess að veita styrki.

Í 5. tölulið er spurt: „Var tekið tillit til lausaskulda?“ — Vil ég svara því til, þar að allur undirbúningur að þessari aðgerð var í höndum samgrn. og undirnefndar fjvn. og mér var ekki kunnugt um vinnubrögðin, en tel, að það hafi verið gert.