27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

372. mál, nýbygging Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af fyrir sig er það ekki nema ánægjulegt fyrir mig, að hv. 5. þm. Norðurl. e. skuli telja það heppilegra að spyrja mig en aðra ráðherra, jafnvel þótt um efni sé að ræða, sem snýr ekki að mér. Ég verð að segja eins og er, að vafalaust hefur þessi fsp. verið send í ráðuneytið, en mér var hún ekki ljós, fyrr en ég sá hana á borðinu hér áðan. Hins vegar vil ég segja nokkur orð um það, sem spurt er um á þskj. 130 Þar segir svo:

„1) Hvers vegna hefur fjmrn. ekki veitt endanlegt framkvæmdaleyfi til nýbyggingar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri fyrr í haust, svo sem heimaaðilar hafa óskað eftir og heilbr.-rn. hefur lagt til?“

Eins og kom fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., kom þetta mál í hendur byggingardeildar Innkaupastofnunar ríkisins í ágústmánuði s. l. Ég held, að það þurfi engan að undra, þó það taki þá menn, sem þar vinna, einhvern tíma að vinna verk, sem er gert ráð fyrir, að muni kosta á annan milljarð. Ég get ekki séð, að neinn aðili þurfi að vera hissa á því, þó að það taki 1–2 mánuði að vinna á þann veg. Mér var kunnugt um það, að þeir í byggingardeildinni unnu af fullu kappi að því að reyna að undirbúa þetta mál, þannig að hægt væri að hefja jarðvinnslu í sambandi við 100 ára afmæli sjúkrahússins, og það var gert. Ýmislegt er þar norður frá, sem á eftir að vinna að undirbúningi, áður en fullur framkvæmdahraði getur átt sér stað.

Þá spyr hv. þm.: „Verður veitt nægilegt fjármagn á fjárl. næsta árs til þess að standa við framkvæmdaáætlun heilbrrn. á því ári?“

Ef fjmrn. ætti að samþ. allar till., sem koma frá rn. yfirleitt, þá yrði ekki um að ræða fjárlög upp á 27 milljarða, heldur sennilega 54. Ég held þess vegna, að hv. þm. verði að gera sér grein fyrir því, að auðvitað leggja öll rn. málin fyrir eins og þau liggja fyrir, en þau gera hins vegar ekki ráð fyrir því, að þau verði framkvæmd með þeim hraða, sem þar er gert ráð fyrir. Ég get hins vegar fullyrt, að svo mikið fjármagn verður til þessa máls á næsta ári og næstu árum, að um eðlilegan uppbyggingarhraða verður að ræða. Hitt er það, hvort það verða 200–300 millj. til þess að vinna úr við þetta sjúkrahús á ári. Dreg ég í efa, að Akureyringum væri nokkur greiði gerður með að ætlast til þess, að það sé unnið fyrir yfir 200 millj. kr. við sjúkrahúsið á einu ári. Held ég, að það sé ekki raunhæft og ekki heppilegt.

Ég þori ekki að slá því föstu, hvenær þetta verk verður búið, en ég held, að a. m. k. ef sá andi svífur yfir vötnum í framkvæmdahraða og yfirleitt í framkvæmdum á næstu árum, eins og gerir hjá núv. ríkisstj., þá verði haldið áfram uppbyggingu þessa sjúkrahúss, þangað til því verki verður lokið, og það verður gert með skynsamlegum hraða.