27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

373. mál, olíuleit í hafsbotni umhverfis Ísland

Fyrirspyrjandi (Stefán Gunnlaugsson) :

Herra forseti. Olíuskorturinn í heiminum og gífurlegar verðhækkanir á olíu undanfarið eru mörgum mikið áhyggjuefni. Menn velta því nú mikið fyrir sér, hvernig megi leysa þennan vanda, ekki hvað síst hér á Vesturlöndum. Í skrifum um þessi mál hefur komið fram, m. a. í breska vikuritinu „The Economist“ 10. nóv., s. l., að hugsanlegt sé, að Vestur-Evrópuþjóðir kunni að geta leyst olíuskort sinn, ef rétt sé á málum haldið, fyrir árið 1980 og verða óháðar olíuinnflutningi annars staðar frá úr heiminum, þar sem ýmislegt bendi til. að nægjanlegar olíubirgðir séu í iðrum jarðar í hafsbotni úti fyrir ströndum Vestur-Evrópulanda. Í því sambandi er tekið fram, að þessi hafsvæði nái m. a. frá meginlandi Evrópu allt til hafsvæðanna fyrir ströndum Íslands, um þetta sé að vísu engin óyggjandi vissa, eins og sakir standi, en bergmálsdýptarmælingar og bráðabirgðakannanir hafi gefið til kynna, að svo geti verið. Því er fróðlegt að fá upplýsingar um, hvernig olíuleitarmál standa hjá okkur, og hef ég því lagt fram svofelldar fsp. til hæstv. orkurh.:

„Hvers konar rannsóknir og leit eftir olíu í jarðlögum í hafsbotni úti fyrir ströndum Íslands hafa farið fram á undanförnum árum, og hvaða aðilar hafa að því staðið?

Eru nú fyrirliggjandi umsóknir eða fsp. frá erlendum aðilum um leyfi til olíuleitar í hafsbotni umhverfis Ísland, og ef svo er, þá frá hverjum?

Hafa verið teknar ákvarðanir um frekari olíuleit eða veitingu leyfa til slíkrar leitar eða rannsókna við Ísland, og ef svo er, hvers eðlis eru þær ákvarðanir?“