27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

373. mál, olíuleit í hafsbotni umhverfis Ísland

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. þm. Stefán Gunnlaugsson spyr í fyrsta lagi, hvers konar rannsóknir og leit eftir olíu í jarðlögum og hafsbotni úti fyrir ströndum Íslands hafi farið fram á undanförnum árum og hvaða aðilar hafi að því staðið.“

Árið 1970 og 1971 spurðust nokkrir aðilar fyrir um það, hvort ríkisstj. Íslands mundi leyfa leit að olíu og gasi á hafsbotninum á landgrunni Íslands. Í febr. 1971 veittu íslensk stjórnvöld Shell-olíufélaginu í Hollandi leyfi til takmarkaðrar rannsóknar á landgrunninu með því skilyrði, að niðurstöður yrðu sendar íslenskum stjórnvöldum og að íslenskur vísindamaður væri um borð í skipinu, meðan á rannsókn stæði, og fylgdist með öllu. Niðurstöður urðu þær, að ekki fundust nein þau setlög, sem gætu gefið vísbendingu um olíu eða gas.

Á árunum 1971–1972 fóru fram á vegum landgrunnsnefndar margháttaðar rannsóknir og mælingar á íslenska landgrunninu í samvinnu við bandaríska landmælingastofnun. Niðurstöður voru á sömu leið, þ. e. að ekki væru á sjálfu landgrunninu nein þau setlög, sem hefðu ollu og gas að geyma. En þegar hér er rætt um landgrunn, er átt við hina gömlu skilgreiningu þess.

Í öðru lagi spyr hv. þm., hvort nú liggi fyrir umsóknir eða fsp. frá erlendum aðilum um leyfi til olíuleitar í hafsbotni umhverfis Ísland, og ef svo sé, þá frá hverjum. Um þetta er það að segja, eð um mánaðamótin ágúst-sept. s. l. var statt hér í Reykjavíkurhöfn sovéska rannsóknarskipið Kurasjoff. Við það tækifæri hélt formaður rannsóknarleiðangursins blaðamannafund um borð í skipi sinu. Greindi hann frá því, að leiðangursmenn teldu sig hafa fundið mjög þykk setlög norðaustur af Íslandi. Voru að þeirra áliti mjög mikil líkindi á því, að setlög þessi hefðu að geyma olíu og gas. Svæði það, sem leiðangurinn rannsakaði, lá á 67° n. br. og 9.4° v.l. Töldu vísindamennirnir, að á þessu svæði væru setlög, sem væru allt að 3 km að þykkt, og væru veruleg líkindi fyrir því, að olíu og gas væri að finna á svæði, sem takmarkaðist frá 66° 40´n. br. að 67° 20´ og frá 8° v. l. að 11°. Á því svæði, sem vísindamennirnir rannsökuðu helst, töldu þeir sig hafa fundið gastegundina bútan í sýnishorni af botni, en það benti til þess, að þar væri jarðgas að finna.

Þessar niðurstöður komu mönnum hérlendis nokkuð á óvart. Að vísu var vitað, að í setlagakvosinni milli Íslands og Jan Mayens væri um þykk setlög að ræða, en ekki var talið, að þau væru nema um 1000 metra þykk. Svæði það, sem hér um ræðir, er rúma 200 km eða um 110 sjómílur norðaustur af Langanesi, og þar er dýpið 800–900 metrar.

Eftir að skýrslur um þennan fund voru birtar í fjölmiðlum, bæði hérlendis og erlendis, beindist athygli áhugamanna á þessu sviði mjög að Íslandi. Formlegar umsóknir um olíuleit á hafsbotninum umhverfis landið hafa engar borist enn sem komið er. Hins vegar hafa ýmsir aðilar beint fsp. hingað og raunar komið hingað til þess að fá frekari vitneskju um málið. Þessir aðilar eru tveir frá Bandaríkjunum, tveir frá Noregi, einn frá Bretlandi og tveir frá Kanada. Svo virðist sem þessi fyrirtæki hafi mestan áhuga á frumathugunum fremur en beinum aðgerðum vegna vinnslu, enda er dýpi á þessu svæði það mikið, að líklegt er talið, að með núv. tækniþekkingu muni ekki gerlegt að vinna olíu á þessum slóðum. Það kann hins vegar að breytast mjög skjótt, eins og ástatt er nú í orkumálum í heiminum.

Í þriðja lagi spyr hv. þm., hvort teknar hafi verið ákvarðanir um frekari olíuleit eða veitingu leyfa til slíkrar leitar eða rannsókna við Ísland, og ef svo sé, hvers eðlis þær ákvarðanir séu. Ríkisstj. hefur hvorki tekið neinar ákvarðanir um frekari olíuleit né veitingu leyfa til slíkrar leitar og hefur ekki enn markað stefnu í þessum málum, m. a. vegna þess, að skýrsla frá sovéska leiðangrinum hefur ekki borist enn þá, en búist er við henni innan skamms. Hér gæti verið um mál að ræða, sem yrðu erfið viðfangs, og vegna þess að Norðmenn hafa þegar aflað sér mikillar reynslu á þessu sviði, orðaði ég það við norska iðnrh. á fundi iðnrh. Norðurlanda í Stokkhólmi 25. okt. s. l., hvort ríkisstj. Íslands mætti snúa sér til norsku ríkisstj. um aðstoð í þessum málum. Var þeirri málaleitan mjög vel tekið, og nú hefur rn. þegar skrifað norska iðnrn. um þessi mál og farið formlega fram á það að fá hingað til lands tvo sérfræðinga frá norsku olíuskrifstofunni til skrafs og ráðagerða við viðkomandi aðila hérlendis.

Þess er því ekki að vænta, að teknar verði neinar frekari ákvarðanir um olíuleit eða veitingu leyfa til leitar eða rannsókna hérlendis í nánustu framtíð. Þessi mál þurfa öll gaumgæfilegrar athugunar við, og þar munum við tvímælalaust, eins og ég gat um áðan, geta haft sérstakt gagn af reynslu Norðmanna. Sagði iðnrh. þeirra mér, að hann teldi, að Norðmenn hefðu samið af sér í viðskiptum við erlenda auðhringi með því að afsala sér meirihlutayfirráðum yfir verulegum hlutum olíusvæðanna við Noreg. Kvaðst hann þegar í stað geta lagt mér þau ráð að tryggja meirihlutayfirráð Íslendinga og óskoruð völd, ef olía fyndist, en gera engan samning ella. Hér kunna því að blasa við vandamál, sem verða mjög mikilvæg, og það, sem úrslitum ræður, er að marka rétta stefnu þegar í upphafi.