27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

373. mál, olíuleit í hafsbotni umhverfis Ísland

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að það mætti koma fram í sambandi við þessa fsp. í fyrsta lagi, hvað líði landgrunnsrannsóknum þeim, sem Alþ. hefur veitt sérstaka fjárveitingu til og farið hafa fram undir umsjón Rannsóknaráðs ríkisins, en þeim er lokið að því leyti, að það er búið að fara yfir allt landgrunnið með þeim tækjum, sem við höfum til ráðstöfunar. Það er verið að vinna úr þeim upplýsingum, en þegar er ljóst, að þar er ekkert, sem bendir til. að olíu sé að finna á landgrunninu sjálfu. Og að sjálfsögðu eru það einnig mikilvægar upplýsingar. Ég vil einnig geta þess, að hinir rússnesku vísindamenn hafa verið í nánu sambandi við Rannsóknaráð, og við höfum fengið upplýsingar um þennan fund þeirra oftar en einu sinni, bæði í fyrra og aftur nú. Við höfum fengið kort af því svæði, þar sem þeir hafa fundið þessi lög, og eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., hefur þeim verið skrifað, og það er væntanleg skýrsla frá þeim mjög fljótlega. Hins vegar er þetta á svo miklu dýpi og gengur að öllum líkindum undir þá hellu, sem einkennir okkar landgrunn, að með núverandi tækni eru að mínu mati ákaflega litlar líkur til. að þetta verði nýtt í náinni framtíð.