27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

374. mál, ferðamál

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki aðstaða til að ræða þetta mál núna, en hins vegar ætti hún að gefast sæmilega í sambandi við það frv. um ferðamál, sem ríkisstj. hefur lagt fram og liggur nú fyrir hv. Ed. En ég vil strax taka það fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að ég lít ekki á þessa undirbúningsskýrslu hins bandaríska fyrirtækis sem neina heildaráætlun um ferðamál á Íslandi, allra síst heildaráætlun, sem stjórnvöld hafi lagt blessun sína yfir. Vafalaust mun mönnum þykja sem ýmislegt sé þar við að athuga og jafnvel litið á málið dálítið frá einni hlið. Það er þó ekki fullkomlega rétt hjá hv. 1. þm. Austf., að þessi áætlun sé eingöngu fyrir erlenda ferðamenn. Að nokkru leyti er það í áætluninni, að gert er ráð fyrir mikilli fjárfestingu hér í Reykjavík, einmitt vegna þess, að það er gert ráð fyrir, að það þurfi innlenda markaðinn til þess að standa undir þeirri fjárfestingu, sem um er að ræða, eins og t. d. varðandi skíðasvæði og annað því um líkt, og bent er á, að væri það annars staðar á landinu, þá þyrfti það að verða á heimsmælikvarða í samkeppni við bestu skíðaaðstöðu, sem þekkist, og þar er af miklu og góðu að taka, og svipað er að segja um heilsuræktina. Engu að síður er það mín skoðun, að það beri að skoða málið alveg sérstaklega út frá þessu sjónarmiði, út frá byggðasjónarmiði, og ég tel vafalaust, að það verði gert, þegar þessar skýrslur hafa verið fullgerðar og hægt er að hafa þær allar og fullgerðar til hliðsjónar við þá heildaráætlun, sem við hljótum að gera og hv. 1. þm. Austf. ræddi um.

Það er sem sagt kannske höfuðgagnrýnin á það, sem fyrir liggur frá þessu bandaríska fyrirtæki, eins og ég sagði, að fjárfestingin sé of mikil í Reykjavík. En þetta er að sumu leyti eðlilegt, ekki síst þegar hagkvæmnisástæður eru skoðaðar, þó að þær beri auðvitað engan veginn einar að vera ráðandi. Sannleikurinn er sá, að í okkar ferðamálum er mergurinn málsins sá, að ekki er nægilegt gistirými og aðstöðurými hér á Reykjavíkursvæðinu, en það vill nú svo til, að okkar samgöngum við erlendar þjóðir er þannig háttað, að útlendir ferðamenn, sem koma hingað, koma hér á Reykjavíkursvæðið og fara héðan, og hér verður þess vegna að vera einhver aðstaða í einhvern stuttan tíma, a. m. k. 1–2 nætur, fyrir hvern þann erlendan ferðamann, sem til landsins kemur og dvelst hér eitthvað að marki. En að sjálfsögðu, þegar heildarskýrsla frá Sameinuðu þjóðunum liggur fyrir, tel ég fyrst vera tíma kominn til þess að nota hana sem hjálpargagn við heildaráætlun um ferðamál á Íslandi.