27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

374. mál, ferðamál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég held, að hv. þm. og hæstv. ráðh. hafi misskilið mig. Ég sagði, að þessi áætlun sem bandaríska fyrirtækið hefur gert, væri fyrst og fremst miðuð við erlenda ferðamenn og ráðstafanir til að fá þá til landsins, og ég held, að það geti ekki orðið um það deilt. Hitt sagði ég aldrei, að þessar framkvæmdir, sem þar eru ráðgerðar, gætu ekki komið Íslendingum til nota einnig. En ég held, að það fari ekkert á milli mála, að grundvöllurinn að henni er þessi.

Frá mínu sjónarmiði liggur mest á að gera heildaráætlun um þessi mál, en ekki hitt, að vinna svo mjög úr þeim hugmyndum, sem þarna eru, fyrr en menn þá eru á því, að þær eigi að koma fljótlega til, en það gæti orðið um eitthvað af þeim. Mest liggur á því að gera heildaráætlun og láta sitja fyrir framkvæmdir víðs vegar um landið í sambandi við ferðamálefnin. Það er sannfæring mín, að þær þyrftu að sitja fyrir, opna beri landið meira en gert hefur verið, búa beri betur í haginn fyrir ferðamenn víðs vegar um landið, og þá getur þetta líka orðið mjög þýðingarmikið mál í sambandi við framkvæmd skynsamlegrar byggðastefnu.

Ég álít, að það eigi ekki að fara með þessi mál fyrir alþjóðafjármálastofnanir, fyrr en við vitum sjálfir, hvað við viljum láta sitja fyrir. Annars eigum við það á hættu, að þær hafi of mikil áhrif á það, hvað hér verður látið sitja fyrir, og þess eru mjög mörg dæmi, að þannig hefur einmitt farið, ef menn fara of snemma á stúfana að hinar og aðrar fjármálastofnanir erlendar segja: Ég skal lána í þetta, en ekki í hitt o. s. frv. — Ég held, að það sé betra, að menn viti, hvað þeir vilja, áður en farið er að leggja fyrir slíkar stofnanir beiðnir um lán. Það er mín reynsla, og það mun sýna sig, að það er skynsamlegt.