27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

375. mál, landkynningarstarfsemi

Fyrirspyrjandi (Heimir Hannesson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir greinargóð svör. Ég skal ekki ræða starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins á þessu stigi málsins, ég held, að það sé ekki tímabært að fara út í það. Það verður vafalaust gert í sambandi við það lagafrv., sem liggur fyrir þingi um ferðamál. Þó vil ég aðeins vekja athygli á því, að það er lítið samræmi í því að halda uppi lögum um Ferðaskrifstofu ríkisins og ætla henni að standa undir landkynningu og öðrum málefnum án þess að ætla henni nægilegt fé í þeim efnum. Geri ég ráð fyrir, að þau mál eigi eftir að skýrast á næstunni, og mun ekki fara út í það núna.

Ég get hins vegar ekki annað sagt eftir þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. hefur hér veitt, að það sé í meira lagi vafasamur ávinningur og umdeilanleg ráðstöfun á opinberu fé að hafa núna á þremur árum ráðstafað, að því er mér telst til, yfir 12 millj. kr. í starfsemi á vegum norrænna aðila, þar sem ekki er um að ræða neina vöru, sem verið er að selja. Ég held, að það hefði verið nær, að þetta fé hefði runnið til Ferðaskrifstofu ríkisins eða hreinlega til íslensku flugfélaganna, sem hafa háð barða baráttu á þessum sömu mörkuðum. Ég skal við öll möguleg tækifæri lýsa yfir stuðningi mínum við norræna samvinnu og norrænt samstarf, en í þessum málum verða menn að átta sig á því, að við okkar ágætu frændur á Norðurlöndum eigum við í samkeppni í flugmálum og þar með ferðamálum, þann að þar liggja okkar leiðir alls ekki saman. Ég vil þess vegna halda því fram, að þessi opinbera ráðstöfun á svo miklum upphæðum og enn hærri upphæð fyrir árið 1974 sé hrein mistök og mjög óeðlileg eyðsla á opinberu fé.