27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

376. mál, endurskipulagning utanríkisþjónustunnar

Fyrirspyrjandi (Heimir Hannesson):

Herra forseti. Ég held, að þeir, sem áður kunna að hafa efast um gagnsemi utanríkisþjónustunnar, hafi sannfærst um gildi hennar í eitt skipti fyrir öll í þeirri miklu og víðtæku starfsemi og átökum, sem fram hafa farið í sambandi við landhelgismálið, og er vonandi, að ekki þurfi meiri háttar milliríkjadeilur til, að menn átti sig á því og skilji mikilvægi virkrar utanríkisþjónustu fyrir Íslendinga. En það er auðvitað ekki sama, hvernig á málunum er haldið. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans í sambandi við þessi mál og fagna því, að þau mál eru nú að skýrast og líkur eru á því, að nýjar till. komi fram um breytingu þar á.

Í sambandi við hugsanlega endurskipulagningu, vil ég aðeins vekja athygli á örfáum atriðum. Ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að tengja okkar utanríkisþjónustu meira við sölu- og markaðsmál. Við erum fámennir, Íslendingar, og höfum ekki efni á öðru en að hæfir menn reyni að sameina sín störf og sameina störf í þágu þjóðarinnar á sem flestum stöðum og fyrir sem flesta aðila í þágu þjóðarheildarinnar. Vissulega er það þegar gert að nokkru leyti, en sjálfsagt nokkuð mismunandi, hvernig á því er haldið. Þetta þarf að sjálfsögðu að gera í samráði við útflytjendur, og ég fagna því, að hæstv. ráðh. upplýsti, að það væri þegar gert. Það er t. d. spurning, úr því að þessi ferðamál og landkynningarmál voru á dagskrá hér áðan, hvort það væri ekki hugmynd, að sameina þetta að einhverju leyti til þess að spara kostnað. Svíar hafa t. d. gert það. Þeir hafa lagt niður hluta af sínum kynningarskrifstofum og komið verkefni þeirra inn í deildir í sinni utanríkisþjónustu. Hollendingar, Danir og Finnar tengja þetta mjög saman og með góðum árangri.

Ég vil í þessu sambandi minna sérstaklega á, að hjá íslenskum útflytjendum, bæði á sviði iðnaðar og lagmetis, eru verulegir erfiðleikar þessa mánuðina vegna sölutregðu, miðað við það verð, sem verksmiðjurnar þurfa að fá. Þessir erfiðleikar eiga áreiðanlega eftir að koma nánar í ljós. Það væri alveg áreiðanleg gagnlegt, ef utanríkisþjónustan væri á hverjum tíma undir það búin og hefði þannig starfsliði á að skipa, að hún gæti komið þar til hjálpar á slíkum erfiðleika tímum og það helst fyrirvaralítið.

Í framhaldi af þessu vil ég vekja athygli á því, að ég held, að það sé nauðsynlegt að breyta um aðsetursstaði, með tilliti til nýrrar þróunar í heiminum, bæði í sambandi við stjórnmál og markaðsmál. Í Japan er t. d. ört vaxandi markaður fyrir íslenskar útflutningsvörur, svo að ekki sé talað um tengslin við Kína, sem þarf að rækja, bæði stjórnmálalega og viðskiptalega. Utanríkisþjónustan hefur nýlega sent ambassador sinn í fyrsta sinn til Kína. Ég veit ekki, hvort rn. hefur falið honum að kanna markaðsmál. Ef svo hefur ekki verið, þá harma ég það og vona, að það verði gert í næstu ferð.

Ég vil að lokum varpa fram fsp. til ráðh. eða hugmynd, m. a. vegna þess, hversu framtíð þessa lands er yfirleitt tengd þróun og gangi utanríkisviðskipta, hvort ekki kæmi til mála, að einn maður með ambassadorstitil með aðsetri hér í Reykjavík ynni beinlínis að slíkum útflutningsmálum í samráði við útflutningssamtök á hverjum tíma, fyrir utan þau störf, sem hann að öðru leyti kynni að starfa að. Ég held, að að þessu gæti orðið mikið gagn, kannske ekki á skammtímaplani, en með langtímasjónarmið í huga. Ég held, að það sé fyrir löngu kominn tími til þess að sameina okkar raunverulegu hagsmunamál í okkar utanríkisþjónustu. Við höfum þar mikið af mjög góðum og hæfum mönnum, en við þurfum að tengja viðskiptamálin enn nánar við þessa ágætu starfskrafta en fram að þessu hefur verið gert.

Að öðru leyti skal ég ekki segja meira um þetta á þessu stigi málsins.