27.11.1973
Sameinað þing: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

31. mál, lækkun tekjuskatts á einstaklingum

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Í þessari tillögu felst það, að Alþingi marki nýja stefnu í íslenskum skattamálum og feli ríkisstjórninni að skipa nefnd manna til þess að semja frumvarp á grundvelli þeirrar meginstefnu, sem mörkuð er í þáltill. Kjarni hinnar nýju stefnu er sá, að horfið skuli frá því, að meginþorri einstaklinga greiði tekjuskatt til ríkisins af tekjum sínum, heldur greiði gjöld sín til hins opinbera í staðinn í formi óbeins skatts, virðisaukaskatts. Þeim, sem hafa mjög háar tekjur, er þó ætlað að greiða áfram stighækkandi tekjuskatt, og sömuleiðis er ráð fyrir því gert, að áfram verði greiddur stighækkandi tekjuskattur af hagnaði af atvinnurekstri. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir sérstakri tekjuöflun, sem verja á til að hækka tekjur þeirra, sem lægstar tekjur hafa og ætla má að greiða mundu meira vegna hækkunar söluskatts og breytingar hans í virðisaukaskatt en þeir hefðu greitt í tekjuskatt.

Meginástæða þess, að þingflokkur Alþfl. setur nú fram tillögur um gagngerar breytingar á skattamálum ríkisins og felast í þessari tillögu, er sú, að komið er út í ógöngur á sviði íslenskra skattamála. Byrði beinna skatta er orðin óbærilega þung, einkum og sér í lagi eftir þá breytingu, sem núv. ríkisstj, beitti sér fyrir skömmu eftir valdatöku sina. Fólk með venjulegar launatekjur greiðir skatta til hins opinbera af tekjum sínum samkvæmt hæsta skattstiga, eins og um hátekjufólk væri að ræða. Álagningarkerfið er orðið óeðlilega flókið og veitir skilyrði til margháttaðra undanbragða undan skattgreiðslu, bæði löglegra og ólöglegra. Sú staðreynd blasir við hverju mannsbarni, að margir skattgreiðendur greiða ekki þann skatt af tekjum sínum, sem þeim ber, og er þetta nú eitt mesta þjóðfélagsranglæti, sem viðgengst á Íslandi. Hlutfall tekjuskatts af tekjum er orðið svo hátt, að almennir launþegar eru farnir að greiða frá þriðjungi og allt að helmingi tekna sinna í beina skatta, ef tekjurnar fara fram úr lágu lágmarki. Slík óhóflega skattheimta er orðin fjötur á framtakssemi og vinnuvilja og undirrót þess, að menn leggi sig ekki fram eins og þeir vildu í raun og veru, láta undir höfuð leggjast að inna af hendi störf, sem þeir í sjálfu sér hafa áhuga á og væru fúsir til þess að vinna, af því að launin fyrir þau verða óeðlilega lág vegna þess, hve mikill hluti þeirra hverfur í beina skatta til opinberra aðila. Það ranglæti, sem ríkjandi er orðið í skattamálum, og ófremdarástandið í þeim efnum er þannig beinlínis orðinn hemill á heilbrigðan og eðlilegan vöxt þjóðartekna. Þegar þannig er komið, er nauðsyn gagngerra breytinga. Í þessari tillögu kemur fram, hvernig þingflokkur Alþfl. vill, að þær breytingar verði.

Áður en ég lýsi þeirri stefnu, sem þingflokkur Alþfl. markar í þessari tillögu, ætla ég að nefna nokkur dæmi um það, hvers vegna við teljum núverandi tekjuskattskerfi óeðlilegt og ranglátt.

Frá því að fyrst var tekið að innheimta tekjuskatt, hefur það yfirleitt verið talið eðlilegt, að greiðsla tekjuskatts skyldi ekki hefjast, fyrr en tekjur hefðu náð vissu marki eða m. ö. o., að visst tekjulágmark skyldi vera tekjuskattsfrjálst. Á grundvelli gildandi tekjuskattslaga er hægt að gera sér grein fyrir því, hvert þetta tekjulágmark muni verða í ár, þ. e. a. s. hversu háar tekjur menn megi hafa í ár án þess að greiða tekjuskatt, þar eð tilkynnt hefur verið í fjárlagafrumvarpi hver verða muni skattvísitalan á næsta ári, en hún hefur verið ákveðin 154 miðuð við 128 í ár. Ríkissjóður mun því aðeins sleppa barnlausum hjónum við greiðslu tekjuskatts, að nettótekjur þeirra séu innan við 338 800 kr. Sem betur fer eru þau barnlausu hjón ekki mörg, sem hafa lægri tekjur en þetta, svo að segja má, að ríkið láti yfirleitt barnlaus hjón greiða sér tekjuskatt. Ef hjónin eiga þrjú börn, sleppir ríkið þeim því aðeins við tekjuskattsgreiðslu, að tekjur þeirra séu innan við 477.400 kr. Séu tekjur slíkrar fjölskyldu hærri, greiðir hún tekjuskatt af tekjum sínum.

Þá er á hinn bóginn rétt að athuga, hvenær tekjuskattsgreiðendur lenda í hæsta tekjuskattsstiga.

Hæsti tekjuskattur til ríkisins er 44.44% af tekjuskattsskyldum tekjum. Enn fremur verður yfirleitt að greiða 11% tekjuútsvar til sveitarfélags, eða samtals 55.44% af tekjuskattsskyldum tekjum. Hverjar skyldu tekjurnar þurfa að verða í ár, til þess að menn lendi í þessum 55.44% skattsstiga af tekjum sínum? Barnlaus hjón, sem í ár hafa 454.300 kr. í tekjuskattsskyldar tekjur, greiða þessi 55.44% af því, sem þar er umfram. Meðalnettótekjur barnlausra hjóna í ár eru taldar munu nema mun hærri upphæð en þessari. Það þýðir, að venjulegir launþegar munu lenda í hæsta tekjuskattsstiga og greiða yfir 55% af sérhverri viðbótarkrónu, sem þeir afla sér í tekjur umfram tekjumark, sem er verulega undir meðaltekjum barnlausra hjóna. Ef hjónin eiga þrjú börn, lenda þau í hæsta skattsstiga og greiða 55.44% af tekjum sínum, ef þau hafa hærri tekjur en 592.900 kr.

Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, þarf engan að undra, þótt kvartað sé undan þungri skattbyrði og staðhæft sé, að hún sé orðin hemill á vinnuvilja og vöxt þjóðarframleiðslu.

Ég gat þess áðan, að barnlaus hjón byrjuðu að greiða tekjuskatt af nettótekjum, ef tekjurnar næmu 338.800 kr. Ef tekjurnar hækka um rúmar 100 þús. kr., þ. e. a. s. komast upp í 454.300 kr. eru barnlausu hjónin komin í hámark skattstiga og farin að borga 55.44% af því, sem þar er umfram. Er ekki augljóst, hvílík fjarstæða slíkt er? Ég sagði einnig áðan, að hjón með þrjú börn byrjuðu að greiða tekjuskatt, er þau hafa 477.400 kr. í tekjur. Tekjur þessarar fjölskyldu mega ekki heldur vaxa nema um rúmlega 100 þús. kr. eða upp í 592.900 kr. Þá er fjölskyldan komin í hámarkstekjuskatt af tekjum sínum og farin að greiða 55.44% af því, sem þar er umfram. Slíkt skattkerfi fær augljóslega með engu móti staðist, því verður að breyta. Þess skal getið, að tölur þessar eru miðaðar við skattvísitöluna 154.

Gallar mjög víðtæks og flókins tekjuskattskerfis með mjög háum skattstigum eru ekki aðeins orðið vandamál á Íslandi, heldur einnig í nálægum löndum. Hvarvetna í nágrannalöndum er um að ræða mjög víðtæka og sívaxandi gagnrýni á slíka skattheimtu. Þegar svo er komið, að um eða yfir helmingur viðbótartekna fer til greiðslu tekjuskatta til opinberra aðila, þá hlýtur það að hafa áhrif á allt viðhorf manna til tekjuöflunar. Það hlýtur einnig að hafa grundvallarþýðingu við hvers konar kjarasamninga. Gildi kauphækkunar fyrir launþega fer auðvitað eftir því, hversu mikið af kauphækkuninni hverfur sjálfkrafa til hins opinbera sem aukinn tekjuskattur og hækkað útsvar. Ef venjulegur launþegi er farinn að greiða meira en helming tekjuauka í skatta til opinberra aðila, fær hann ekki nema helming þeirrar kauphækkunar, sem hann semur um við vinnuveitanda sinn. Þess vegna beinist athygli launþegasamtaka í sívaxandi mæli að skattamálum. Raungildi kjarabóta fer eftir því, um hvers konar tekjuskattsheimtu er að ræða.

Þegar stighækkandi tekjuskattur var upphaflega lögfestur, hér og annars staðar, var hann eitt helsta tækið, sem fyrir hendi var til þess að jafna tekjur. Fólki með lágar tekjur var ekki ætlað að greiða tekjuskatt, fólki með miðlungstekjur var ætlað að greiða hóflegan tekjuskatt, en fólki með háar tekjur hærra hlutfall af tekjum sínum og síðan hækkandi hlutfall, eftir því sem tekjurnar hækkuðu. Hér á landi og raunar víðar er svo komið, að svo að segja allir greiða tekjuskatt, jafnvel gamalt fólk og öryrkjar. Fólk með miðlungstekjur greiðir nú ekki hóflegan tekjuskatt í samanburði við hlutfallslega háan tekjuskatt hátekjumanna. Hér greiðir venjulegur launamaður sama hlutfall af viðbótartekjum sínum og hátekjumaðurinn. Venjulegur launamaður greiðir hér tekjuskatta samkv. skattstiga, sem upphaflega var hugsaður sem skattstigi á hæstu tekjum.

Því fer víðs fjarri, að stighækkandi tekjuskattskerfi hafi nú þýðingu til tekjuöflunar að nokkru marki. Á undanförnum áratugum hafa komið til skjalanna önnur tæki, sem hafa miklu meiri þýðingu í því sambandi, þ. e. a. s. hafa miklu meiri tekjuöflunaráhrif, og ber þar fyrst og fremst að nefna almannatryggingarnar, en einnig ýmsa ókeypis eða ódýra þjónustu af hálfu hins opinbera á fjölmörgum sviðum, einkum á sviði heilbrigðismála og skólamála. Í þessu sambandi má enn fremur nefna margs konar niðurgreiðslur á neysluvörum almennings.

Álagning stighækkandi tekjuskatts hefur tvímælalaust miklu minni áhrif til tekjujöfnunar hér á landi en almannatryggingakerfið, ókeypis menntunarskilyrði og niðurgreiðslur. Á hinn bóginn er tekjuskattskerfið orðið lamandi afl í þjóðfélaginu, auk þess sem það er ranglátt, þar eð reynslan hefur sýnt, að fjölmargir aðilar koma sér undan að greiða þá skatta, sem þeim ber samkvæmt kerfinu, bæði með því að hagnýta heimildir laganna til frádráttar, svo sem vaxtafrádráttar með vafasömum hætti og með beinum undandrætti tekna, þannig að þeir, sem telja rétt fram tekjur sínar, greiða í rauninni skatta fyrir hina, sem ekki gera það.

Aðalatriði þess nýja tekjuskattskerfis, sem tillaga þessi fjallar um, er eð launþegar skuli ekki greiða tekjuskatt af almennum launatekjum. Auðvitað er það álitamál, hvað telja eigi almennar launatekjur. Niðurstaða þingflokks Alþfl. varð sú að leggja til, að miðað yrði við, að hjón með 750 þús. kr. tekjur á árinu 1973 greiði engan tekjuskatt. Þessi fjárhæð á síðan að sjálfsögðu að breytast í hlutfalli við framfærslubyrði. Til launþega ætlumst við til, að séu einnig taldir þeir einstaklingar, sem hafa tekjur sínar af eigin atvinnurekstri, er fyrst og fremst byggist á vinnuframlagi þeirra sjálfra, svo sem sjómenn, er stunda eigin atvinnurekstur, bændur, bifreiðastjórar o. s. frv. Þegar tekjur launþega fara fram úr þessu marki, 750 þús. kr., er gert ráð fyrir því, að af þeim verði greiddur stighækkandi tekjuskattur, sem þó skal aldrei nema hærra hlutfalli af tekjum en á sér stað samkvæmt gildandi lögum. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því, að af öllum atvinnurekstri, hvort sem hann er stundaður af einstaklingum, sameignarfélögum, hlutafélögum, samvinnufélögum eða opinberum aðilum, skuli greiddur tekjuskattur eftir sömu reglum og nú gilda.

Í þessu sambandi vill þingflokkur Alþfl. einnig minna á fyrri tillögur sínar um breytingar á reglum um greiðslu tekjuskatts og útsvars hjóna. Tillögur okkar eru þær, að allar konur verði sjálfstæðir skattgreiðendur, hvort sem þær eru giftar eða ógiftar, og hvort sem þær afla sér eigin tekna eða ekki með vinnu utan heimilis, enda sé þá því hjóna, sem vinnur einvörðungu heimilisstörf, ætlaður hluti af tekjum hins samkvæmt nánar ákveðnum reglum. Við gerum okkur ljóst, að hér er um mjög viðamikið og vandasamt mál að ræða. Þess vegna ætlumst við ekki til, að þessar breytingar á skattalögum komi til framkvæmda á næsta ári, þar eð okkur er ljóst, að talsverðan tíma þurfi til þess að undirbúa þær. Þess vegna gerir tillagan ráð fyrir því, að þessar breytingar komi ekki til framkvæmda fyrr en við álagningu tekjuskatts á árinu 1975.

Augljóst er, að jafnstórfelld lækkun á tekjuskatti til ríkisins og hér er gert ráð fyrir mun hafa í för með sér verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Í gildandi fjárlögum er gert ráð fyrir því, að að einstaklingar greiði 4.1 milljarð kr. í tekjuskatt. Sú lækkun tekjuskatts, sem gert er ráð fyrir í tillögunni, mundi samkvæmt áætlunum, sem gerðar hafa verið lækka þessa eða hliðstæða tekjuskattsinnheimtu um 2/3 hluta, þannig að tekjutap ríkissjóðs mundi verða 2.5–3 milljarðar kr. miðað við fjárlög þessa árs. Þennan tekjumissi þarf að sjálfsögðu að bæta ríkissjóði. Tillögur um tekjuskattslækkun, sem ekki gerðu ráð fyrir því að bæta ríkissjóði tekjutapið, mætti með réttu nefna sýndartillögur. Slíkar tillögur gerir þingflokkur Alþfl. ekki. Þess vegnu er í till. einnig um það fjallað, hvernig ætlast sé til, að ríkissjóði sé bættur tekjumissirinn.

Aðalatriðið í því sambandi er, að gerð verði tillaga um, að sú hækkun söluskatts, sem runnið hefur í Viðlagasjóð, skuli haldast, en hún nemur sem kunnugt er 2% og ætti að falla niður 1. mars n. k. að óbreyttum lögum. Ef söluskattinum, sem rennur nú í Viðlagasjóð yrði haldið og söluskatturinn hækkaður um 2–3 stig umfram það, sem hann er nú, yrði ríkissjóði bættur sá tekjumissir, sem hann yrði fyrir vegna lækkunar tekjuskattsins. Jafnframt er bent á það að kanna möguleika á, að söluskattur sé ekki innheimtur af brýnustu nauðsynjum, en hins vegar viðbótarsöluskattur af óhófsvörum. Þá verður gerð tillaga um, að á næsta ári skuli unnið að því að breyta núgildandi söluskatti í virðisaukaskatt, hliðstæðan þeim, sem nú er innheimtur í stað söluskatts á Norðurlöndum og ýmsum löndum Vestur-Evrópu og talinn er réttlátari og innheimtast betur en söluskattur. Gerum ráð fyrir því, að unnt sé að koma þessu í framkvæmd fyrir ársbyrjun 1975.

Að sjálfsögðu má margt um það segja, hvor skatttegundin sé réttlátari og heppilegri, tekjuskattar annars vegar eða virðisaukaskattur hins vegar. Slíkan samanburð hér á landi má þó ekki miða við, að allir greiði hlutfallslega jafnháan söluskatt af neyslu sinni annars vegar og hins vegar, að tekjuskattur sé enginn af lágum tekjum, hóflegur af miðlungstekjum, en hár af háum tekjum. Tekjuskattskerfið hér er orðið þannig, að launþegar með miðlungstekjur eru komnir í hæsta skattstiga og greiða yfir helming viðbótartekna af tekjum sínum eins og hinir tekjuhæstu. Kostir óbeinna skatta eins og söluskatts eru þeir, að þá ræður skattgreiðandinn meiru um það sjálfur, hversu mikið hann greiðir, með því að ákveða, hvað og hversu mikið hann kaupir umfram nauðþurftir. Söluskattur verkar ekki lamandi á vinnuvilja eða framtakssemi. Fremur mætti segja, að hann hvetji til sparnaðar. Þá má nefna, að framkvæmd tekjuskattsinnheimtu er mjög dýr og miklu dýrari en innheimta söluskatts. Hér er kostnaður við tekjuskattsheimtu mjög mikill. Verulegur kostnaður mundi sparast við niðurfellingu þeirrar tekjuskattsheimtu, sem gert er ráð fyrir í tillögunni, en enginn teljandi kostnaður væri því samfara að hækka hundraðstöluhlutfall söluskatts.

Það er hins vegar að sjálfsögðu rétt, að breyting tekjuskatts í söluskatt hefur ólík áhrif á rauntekjur launþega eftir því, hvernig tekjum þeirra og tekjunotkun er háttað. Sumar fjölskyldur spara meira vegna lækkunar tekjuskattsins en sem nemur auknum útgjöldum vegna hækkunar söluskattsins, en aðrar verða fyrir meiri útgjöldum vegna aukningar söluskattsins en nemur sparnaði vegna lækkunar tekjuskattsins. Er þetta auðvitað fyrst og fremst komið undir hæð teknanna og ráðstöfun þeirra. Greiðsla söluskatts fer að sjálfsögðu eftir eyðslu skattgreiðandans, en greiðsla tekjuskatts eftir tekjum hans. Gera má því ráð fyrir, að breyting á skattgreiðslu frá tekjuskatti í söluskatt valdi aukinni skattgreiðslu launþega með mjög lága tekjur. Þess vegna er í tillögunni gert ráð fyrir því, að komið verði á fót sérstökum sjóði, sem Tryggingastofnun ríkisins ráðstafi til þess að auka tekjur slíkra launþega. Í tillögunni er gert ráð fyrir því, að árlegar tekjur slíks sjóðs yrðu, miðað við núverandi ástand, um 600 milljónir kr. á ári. Þeirra tekna er gert ráð fyrir að afla á þann hátt, að í stað þeirrar 30% hækkunar á eignarskatti, .sem ákveðið var, að renna skyldi í Viðlagasjóð, skuli koma 50% hækkun. Þá er gerð tillaga um, að ákvæði Viðlagasjóðslaganna um 35% álag á gjaldstofna aðstöðugjalds og 10% álag á landsútsvar skuli haldast, en þessi álög eiga að falla niður að óbreyttum lögum.

Okkur er ljóst, að þessi sjóður muni ekki nægja til þess að tryggja, að hópar launþega verði ekki fyrir auknum útgjöldum vegna skattkerfisbreytingarinnar. En í því sambandi bendum við á, að fyrir dyrum stendur gerð nýrra launasamninga. Við teljum, að í þeim launasamningum ætti það að vera meginatriði að tryggja þess háttar hlutfallslega launahækkun þessara launþegahópa, er jafni metin vegna skattakerfisbreytingarinnar, auk þess sem eðlilegt kann að vera talið, að hækka tekjur þeirra miðað við þá, sem hærri laun hafa, vegna almennra tekjujöfnunarsjónarmiða. Fellur þessi stefna þáltill. alveg saman við þau sjónarmið í launamálum, sem verkalýðshreyfingin hefur mótað og kunngert.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að breytingar á beinum sköttum hafa ekki áhrif á vísitölu framfærslukostnaðar, en breytingar á söluskatti hafa það hins vegar. Þess vegna er ekki óeðlilegt, að ýmsir spyrji, hvort við höfum ekki áhyggjur af því, að slík hækkun söluskatts sem hér er gert ráð fyrir að komi í stað lækkunar tekjuskatts, hafi verðbólguaukandi áhrif. Því er til að svara, að við teljum tengslin milli breytinga á sköttum, hvort sem um breytingu á tekjusköttum eða söluskatti er að ræða, og framfærslukostnaðarvísitölunnar vera sérstakt vandamál, sem í sjálfu sér sé óskylt því, hvort ríkið eigi fremur að afla sér nauðsynlegra tekna með tekjuskatti eða söluskatti. Tengsl opinberrar tekjuöflunar og framfærslukostnaðarvísitölu eru mál, sem lengi hafa verið til umræðu og eru enn. Þau eru eitt þeirra mála og engan veginn hið þýðingarminnsta, sem til umræðu eru í kjarasamningunum, sem yfir standa milli launþega og vinnuveitenda. Það er mál, sem ræða á sérstaklega og leysa á sérstaklega, óháð því, hvernig rétt og réttlátt sé talið, að ríkið afli sér nauðsynlegra tekna. Hér er um að ræða þátt í því vandamáli, hvernig takast skuli á við verðbólguna. Þingflokkur Alþfl. telur eðlilegast og æskilegast, að samtök launþega og atvinnurekenda freisti þess að ná samkomulagi um skynsamlega skipan þessara mála.

Þær tölur, sem ég hef nefnt um tekjutap ríkissjóðs og nýja tekjuöflun honum til handa og í sjóð þann, sem ég nefndi áðan, eru byggðar á gildandi fjárlögum, fyrir yfirstandandi ár, en ekki frv. ríkisstj. um fjárlög fyrir næsta ár. Fjárlagafrv. fyrir næsta ár er byggt á mati á aðstæðum á því ári og fyrirætlunum ríkisstj. Frv. er nú til meðferðar á Alþ. Það þarfnast gaumgæfilegrar athugunar, sem þingflokkur Alþfl. mun að sjálfsögðu eiga aðild að og vera reiðubúinn til viðræðna um, hvernig bregðast eigi við í þeim fjárlagavandamálum, sem við verður að etja á næsta ári. En við teljum eðlilegt og sjálfsagt, að þeim vandamálum sé haldið aðgreindum frá grundvallarspurningunni um það, með hvaða skattheimtuaðferðum ríkissjóður eigi að fullnægja tekjuþörf sinni.

Þá er í tillögunni tekið sérstaklega fram og lögð sérstök áhersla á, að setja skuli ítarleg ákvæði, er miði að því að koma í veg fyrir röng framtöl til söluskatts og skatta af tekjum og eignum. Undanbrögð undan skatti, bæði söluskatti, tekjuskatti, útsvari og eignarskatti, eru eitt alvarlegasta þjóðfélagsmein á Íslandi og valda gífurlegu félagslegu misrétti. Sérhver hækkun söluskatts eykur auðvitað nauðsyn á auknu eftirliti með því, að allur álagður söluskattur komi til skila. En tillögurnar gera ráð fyrir því, að greiðendum tekjuskatts fækki stórlega. Gefur auga leið, að það ætti að bæta skilyrði til þess að auka eftirlit með framtölum þeirra, sem tiltölulega háar tekjur hafa og stunda atvinnurekstur, og enn fremur bæta aðstöðu til þess að hafa eftirlit með framtölum til söluskatts.

Enn fleiri breytingar á skattheimtu ríkisins en þær, sem þessi tillaga fjallar um, væru æskilegar og nauðsynlegar. Í því sambandi ber sérstaklega að nefna nauðsyn þess að skattleggja tekjur þær, sem menn hljóta við eignasölu vegna sérstakrar verðhækkunar á eignum, sem á rót sína að rekja til opinberra aðgerða eða þjóðfélagsbreytinga, sem ekki réttlæta eignaaukningu eða auknar tekjur einstaklinga. Hér er hins vegar um mjög flókið og vandmeðfarið mál að ræða, sem ekki hefur verið talið rétt að blanda saman við nauðsynlegar breytingar á tekjuskattsheimtunni, sem miklu auðveldara er að setja nýjar lagareglur um.

Að því er varðar tekjuöflun sveitarfélaganna, er hins vegar nauðsynlegt að endurskoða þau lagaákvæði með það fyrir augum að auka frjálsræði þeirra til þess að ákveða, á hvern hátt þau afla sér tekna sinna, og er gert ráð fyrir því í tillögunni. Þó er tekið fram, að þau skuli ekki fá heimild til þess að innheimta söluskatt eða virðisaukaskatt.

Þingmönnum Alþfl. er ljóst, að þær tillögur í skattamálum, sem felast í þessari þáltill., eru mjög viðtækar og lagasetning samkvæmt þeim flókið mál og vandmeðfarið. Þess vegna höfum við valið þann kost að flytja hugmyndir okkar um þessar gagngeru breytingar á íslenskum skattamálum í formi till. til þál., sem kveður á um, að fulltrúum stjórnmálaflokka og sérfróðum mönnum sé falið að kanna tillögurnar og færa þær í búning frumvarpa. Megintilgangur þingflokks Alþfl. er að vekja athygli á nauðsyn gagngerrar breytingar í skattamálum og benda á ákveðna stefnu í þeim efnum. Núverandi skattakerfi er orðið ranglátt, það lamar framkvæmdahug og vinnuvilja og stuðlar að óréttlátri tekjuskiptingu með því að mismuna starfsstéttum og einstaklingum. Þessu kerfi viljum við breyta. Og við segjum í till. hvernig við viljum breyta því. Þingflokkur Alþfl. er þeirrar skoðunar, að umbætur í skattamálum séu nú eitt brýnasta verkefni í íslenskum fjárhagsmálum og að réttlátari skattheimta en nú á sér stað sé ein besta leiðin til þess að bæta kjör launþega og auka réttlæti í íslenskum efnahagsmálum.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að tillögunni verði að lokinni umræðunni vísað til hv. allshn.