25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

344. mál, endurskoðun skattalaga

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin, en ég er litlu nær. Það, sem ég vil benda á í þessu sambandi, er einkanlega það, hvort ekki sé unnt að aðgreina staðgreiðslukerfið í tvo hluta, a. m. k. við upptekt kerfisins, þ. e. a. s. annars vegar staðgreiðslukerfi launþega og hins vegar fyrirtækja. Ég hygg, að það megi flýta málinu verulega, ef launþegar verða teknir fyrst fyrir, enda hygg ég, að brýnasta þörfin sé einmitt hjá launþegunum. En þessu tvennu hefur oft verið haldið saman, og þess vegna hefur allt málið dregist. Ég vil benda á, að einmitt þetta er mjög brýnt fyrir það fólk, sem þiggur laun úr launaumslögum, og þegar kemur á síðara hluta ársins, þá er kannske hið opinbera svo gráðugt í launaumslögin, að eftir er aðeins kvittun launa. Þetta er atriði, sem veldur því, að launþegar fá andúð á hinu opinbera, og þetta er andfélagslegt fyrirbæri, þegar svona er staðið að, og þess vegna er mjög brýnt að reyna að leysa þennan vanda. Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. muni heita aðstöðu sinni til þess að gera stórar úrbætur í þessu efni sem fyrst.