27.11.1973
Sameinað þing: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

58. mál, bygging sögualdarbæjar

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef ásamt 4 öðrum hv. þm. Sunnl. flutt till. þá, sem hér má sjá á þskj. 62.

Árið 1966 kaus Alþ. n. til þess að undirbúa og standa fyrir þjóðhátíð 1974 í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Gert er ráð fyrir að sérstök hátíðarhöld verði í héruðum landsins auk sameiginlegra hátíðarhalda. Á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 1874 voru mikil hátíðarhöld. Konungur gaf Íslendingum nýja stjórnarskrá, sem kveikti vonir í hugum manna um betri tíma og bætt stjórnarfar. Stjórnarskráin frá 1874 er að verulegu leyti sú sama og Íslendingar búa nú við. Árið 1944 voru gerðar nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni vegna stofnunar lýðveldisins. Stjórnarskráin er nú í endurskoðun hjá þingkjörinni nefnd.

Á 100 árum hafa miklar breytingar orðið í þjóðlífinu á flestum sviðum. Eigi að síður má ætla, að stjórnarskráin muni standa af sér sviptivinda og breytingar og verða í verulegum atriðum óbreytt fyrir komandi ár. Stjórnarskráin er hvort tveggja í senn hornsteinn í þjóðfélagsbyggingunni og leiðarvísir fyrir alla, sem landið erfa í nútíð og framtíð. Endurskoðun á stjórnarskránni þarf að vanda vel og gera því aðeins breytingar, að þær séu nauðsynlegar og til bóta. Ýmsir hafa talið, að endurskoðun stjórnarskrárinnar hefði átt að ljúka nægilega fljótt til þess að geta hlotið samþykki á þjóðhátíðarárinu. Öllum er nú ljóst, að það getur ekki orðið, og verður ekki fjölyrt frekar um það mál að sinni.

Þjóðhátíðarnefnd 1974 hefur unnið mikið starf og gert till. um framkvæmd hátíðarhaldanna. Hafa ýmsar till. verið fram bornar um, hvernig helst mætti minnast afmælisins á verðugan og eftirminnilegan hátt. Flestir munu segja, að 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar beri að minnast með hátíð á Þingvöllum. Í fyrstu var talað um tveggja til þriggja daga hátíðarhald á Þingvöllum, en nú er fengið samkomulag um eins dags hátíð. Virðist það vera fullnægjandi, þar sem héraðshátíðir eru einnig fyrirhugaðar.

Þjóðhátíðarnefnd 1974 lagði hugmyndir sínar fyrir Alþ. 1967. Voru þær ræddar á Alþ. það ár. Í þáltill., sem byggð var á till. þjóðhátíðarnefndar, voru 3 atriði sérstaklega tekin til meðferðar. Það var bygging þjóðarbókhlöðu, útgáfa Íslandssögu og bygging sögualdarbæjar. Í framsöguræðu fyrir þeirri till. 17. apríl 1967 lýsti Bjarni Benediktsson fylgi sínu við sögualdarbæ og sagði við það tækifæri:

„Það er mjög fróðlegt fyrir okkur alla t. d. að koma í Þjórsárdal og sjá þá byggð, sem þar hefur verið grafin upp, og það ætti að vera auðvelt, miðað við þær rústir, sem menn hafa þar, og aðrar upplýsingar að gera sannsögulega eftirlíkingu sem yrði til þess að færa alla þessa atburði okkur nær.“

Till. var vísað til fjvn. N. afgreiddi málið og tók sérstaklega fram, að hún væri fylgjandi till. um byggingu sögualdarbæjar. Þál. var samþ. þannig í heild, að till. þjóðhátíðarnefndar 1974 skuli bornar undir ríkisstj., áður en framkvæmdir hefjist.

Af þeim þremur atriðum, sem voru í umræddri þáltill., liggur fyrir sérstaklega skýr og jákvæð afstaða Alþ. til byggingar á eftirlíkingu sögualdarbæjar. Þau atriði, sem Alþ. hefur ekki tekið jafnákveðna afstöðu til, þjóðarbókhlaða og heildarútgáfa Íslandssögu, hefur verið ákveðið að láta koma til framkvæmda og verða tengd 1100 ára afmælinu. Ekki er vitað annað en að full samstaða sé um þá ákvörðun. Þjóðarbókhlaðan verður ekki byggð á einu ári, en hún er eigi að síður tengd afmælinu með ákvörðun um byggingu hússins, og byrjað er að veita fé til framkvæmdanna. Sama gildir um sögualdarbæinn. Hann verður ekki byggður á árinu 1974, til þess þarf lengri tíma.

Í till. til þál. á þskj. 62, sem við fimm þm. Sunnl. flytjum, er gert ráð fyrir að skipta fjárveitingu til byggingar sögualdarbæjar á 3 ár. Er gert ráð fyrir, að fyrsta greiðsla af þremur verði tekin á fjárl. fyrir árið 1974. Við flm. erum til viðtals um að skipta fjárveitingunni á 5 ár, ef það þykir nauðsynlegt. Ef Alþ. hefur ákveðið að veita fé í þessu skyni, ætti að vera mögulegt að útvega fjármagn til þess að ljúka framkvæmdunum á 2–3 árum.

Í till. okkar flm. er gert ráð fyrir því, að bærinn verði byggður í Þjórsárdal. Áhugi er mikill fyrir því, að sögualdarbærinn verði reistur á Skeljastöðum, í næsta nágrenni Stangar. Þjóðhátíðarnefnd Árnessýslu hefur látið málið til sín taka, eins og sjá má á bréfi til þjóðhátíðarnefndar 1974, sem prentað er með till. á þskj. 62.

„Á fundi sínum á Selfossi laugardaginn 21. okt. 1972 samþykkti þjóðhátíðarnefnd Árnessýslu að taka að sér byggingu sögualdarbæjar í Þjórsárdal. N. býðst til að annast alla framkvæmd verksins og ábyrgjast greiðslu allt að 6 millj. kr. af áætluðum kostnaði. Jafnframt tekur n. að sér að annast gæslu og umsjón með þessum mannvirkjum að verulegu leyti eftir nánara samkomulagi.“

Ekki verður annað sagt en að þjóðhátíðarnefnd Árnessýslu bjóði fram aðstoð á rausnarlegan og myndarlegan hátt. Með því að þiggja boð þjóðhátíðarnefndar Árnessýslu verður málið miklu auðveldara í framkvæmd. Stofnframlagið, allt að 6 millj. kr., er drjúgur hluti af heildarkostnaðinum. Til viðbótar er gæsla og umsjón með mannvirkjunum, sem boðist er til að annast að verulegu leyti.

Norðmenn munu hafa boðið tæknilega aðstoð við að koma upp sögualdarbæ á Íslandi, en þeir eru reyndir í slíkum framkvæmdum. Er haft eftir Norðmanni, sem hér var á ferð fyrir tveimur árum, að Íslendingar mættu ekki draga það lengur að reisa eftirlíkingu af bæ frá landnáms- eða söguöld. Norðmennirnir virðast ekki vera í vafa um, hvernig byggt var á þeim tíma. Byggingarstillinn hefur verið svipaður hér og í Noregi, eins og að líkum lætur. Líklegt má telja, að líkan Harðar Ágústssonar að sögualdarbænum sé sannsögulegt í aðalatriðum. Þjórsárdalur fór undir ösku og vikur í Heklugosi árið 1104. Merkilegar rústir af bæjarhúsum og peningahúsum hafa verið grafnar upp í Þjórsárdal. Fer vel á því að reisa sögualdarbæinn þar, sem áður var blómleg byggð og þar sem fornar mannvirkjaleifar gefa glögga innsýn til húsagerðar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.

Áætlun liggur fyrir um byggingarkostnað sögualdarbæjar. Upphafleg áætlun var gerð 1. ágúst 1972, og nam kostnaðaráætlunin 12 millj. kr. Áætlunin er í samræmi við till. Harðar Ágústssonar skólastjóra, sem byggðar eru á rannsóknum á bæjarhúsum frá söguöld. Áætlun um byggingarkostað bæjarins er endurskoðuð af verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens 1. ágúst s. l., og var þá gert ráð fyrir, að kostnaður við framkvæmdirnar næmi 15 millj. kr. Gera má ráð fyrir, að kostnaður verði eitthvað meiri, ef framkvæmdum yrði ekki lokið fyrr en á árinu 1975 eða 1976. Ekki er aðeins um byggingu hússins að ræða, heldur einnig vegagerð til bæjarins og allan frágang umhverfis og fullkomna hreinlætisaðstöðu.

Á s. l. sumri mun ríkisstj. hafa rætt um byggingu sögualdarbæjar, en tilkynnt þjóðhátíðarnefnd, að hún væri horfin frá fyrirhuguðum hugmyndum um byggingu sögualdarbæjar. Hugsanlegt er, að ríkisstj. hafi ekki reiknað með tilboði þjóðhátíðarnefndar Árnessýslu á þeirri stundu, þegar ákveðið var að hætta við byggingu bæjarins. Í öðru lagi má ætla, að ríkisstj. hafi reiknað með því, að byggingarframlagið yrði að taka að mestu leyti á fjárlögum næsta árs, ef í framkvæmdirnar væri ráðist.

Alþ. hefur ekki hafnað því að fylgja þeirri stefnu, sem mörkuð var 1967, þegar fjvn. mælti sérstaklega með byggingu sögualdarbæjar, sbr. nál. á þskj. 555 á því ári. Ástæða er til að ætla að afstaða Alþ. til málsins sé enn óbreytt. Það er verðugt verkefni að reisa sögualdarbæ í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar.

Fjöldi manna, innlendir og erlendir, munu leggja leið sína í Þjórsárdal til þess að skoða sögualdarbæinn og fornar minjar, sem grafnar hafa verið upp þar undan þykku vikurlagi. Það hefur holl uppeldisáhrif og vekur áhuga á fræðslu um þjóðleg málefni að koma á sögustaði og skyggnast inn í fortíðina. Sögualdarbærinn gæti vakið áhuga margra á því, sem þjóðlegt er og rammíslenskt. Talið er, að yngri kynslóðin þekki minna til Íslendingasagna heldur en þeir, sem eldri eru. Sögualdarbærinn gæti vakið áhuga ungu kynslóðarinnar fyrir því að kynna sér Íslendingasögurnar og sögu Íslands allt frá landnámstíð.

Þáltill. okkar þm. Sunnl. er flutt til þess að greiða fyrir því, að sögualdarbærinn verði reistur í tilefni þjóðhátíðarársins. Ástæða er til þess að minna á tilboð þjóðhátíðarnefndar Árnessýslu, sem áður er að vikið. Einnig ber að hafa í huga, að byggingu sögualdarbæjar er unnt að tengja við 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, þótt húsið verði ekki reist á næsta ári. Það, sem máli skiptir er, að tekin verði ákvörðun um, að bærinn verði byggður á tilteknum tíma, og byrjað verði að veita fé á fjárl. til framkvæmdanna. Það er samkomulagsatriði, hvort ríkisframlagið verður greitt á þremur árum eða 5 árum. Ég efast ekkert um, að ríkisstj. er hlynnt því, að sögualdarbær verði byggður þrátt fyrir ákvörðun þá, sem hún tók s. l. sumar. Ég treysti því, að hæstv. forsrh. og aðrir ráðh. verði ekki á móti þeirri till. til þál., sem hér er um að ræða. Flm. vænta þess einnig, að till. fái mikið fylgi meðal hv. alþm.

Með till. er bent á auðveldustu leiðina til þess að koma góðu máli fram með því að dreifa framlagi ríkissjóðs á nokkur ár. Með till. þessari er skorað á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að tekin verði í fjárl. fyrir árið 1974 fjárhæð til greiðslu á 1/3 hluta af heildarframlagi ríkissjóðs vegna kostnaðar við byggingu sögualdarbæjar í Þjórsárdal. Segja má, að þetta mætti gera án þessarar þáltill. En það er vitað mál, að það er auðveldara og betra að koma málinu fram, ef hæstv. ríkisstj. vill hverfa frá ákvörðun sinni frá s. l. sumri og fylgja málinu hér í hv. Alþ.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði vísað til hv. fjvn.