28.11.1973
Efri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

2. mál, húsbyggingar á vegum Viðlagasjóðs

Frsm. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér ræðir um, er lagt fram til staðfestingar á brbl. um húsbyggingar á vegum Viðlagasjóðs eða Vestmannaeyjakaupstaðar. Efni frv. er í stuttu máli að heimila félmrn. að setja reglugerð um nauðsynleg frávik frá ýmsum ákvæðum laga og reglugerða, sem varða byggingarmálefni. Reglugerðin á einungis að eiga við um verksmiðjugerð timburhús, sem flutt voru inn til að mæta húsnæðisþörf Vestmanneyinga. Þessi gerð húsa hefur ekki verið talin að öllu leyti í samræmi við gildandi ákvæði byggingarlöggjafarinnar, og til þess að eigi yrði um ónauðsynlegar tafir að ræða á byggingu þessara húsa, þótti rétt að setja um þetta efni brbl., og var það gert á þessu ári.

Í 2. grein frv. er svo talið upp, hver þau löggjafaratriði eru eða reglugerðar, sem breyta þarf til samræmis.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða frekar um efni frv., en félmn. þessarar hv. d. mælir eindregið með samþykkt frv.