28.11.1973
Neðri deild: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

107. mál, lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um þetta frv. Efni þess er að heimila ríkisstj. að taka erlent lán að fjárhæð 1400 millj. kr. eða jafnvirði þess í erlendri mynt. Af lánsfjárhæðinni, segir í 2. gr., frv., skulu 800 millj., kr. endurlánaðar Framkvæmdasjóði Íslands í samræmi við framkvæmdaáætlun en að öðru leyti skal henni ráðstafað samkv. gildandi lagaheimildum. N. aflaði sér upplýsinga um það, að hér er annars vegar um að ræða ýmis verkefni, sem samkv. framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1973 var ráðgert að fjármagna með erlendu lánsfé, samtals að upphæð 273 millj. kr., eins og getið er um í nál. Að öðru leyti er þessu fjármagni varið til togarakaupa samkv. áður gefnum heimildum. Hér var því ekki um neinar nýjar lánsheimildir að ræða, þegar brbl. voru gefin út 18. sept. í sumar.

N. varð sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ.

Þá er þess að geta, að n. bárust tilmæli og síðar bréf frá fjmrn., en í þessu bréfi segir, að samkv. erindi, sem borist hafi frá samgrn., þurfi að fá heimild Alþ. til þess að taka 7 millj. dollara lán hjá Alþjóðabankanum til hafnarframkvæmda í Grindavík, Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði. Áformað er að ganga frá lántöku þessari um n. k. mánaðamót, fáist lántökuheimild, segir enn fremur í bréfi fjmrn.

N. ræddi þetta atriði allítarlega. Hún kvaddi m. a. til viðtals við sig Davíð Ólafsson seðlabankastjóra, Halldór E. Sigurðsson fjmrh., Björn Jónsson samgrh. og Brynjólf Ingólfsson ráðuneytisstjóra í samgrn. Þeir gáfu n. ýmsar upplýsingar um einstök atriði málsins og um ýmis efni því tengd.

Það kom fram í n., að sumir nm. töldu, að eðlilegra hefði verið að flytja sérstakt frv. um þessa lántökuheimild, en skeyta hana ekki við staðfestingu brbl. á þann hátt, sem hér er lagt til. En til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins varð niðurstaða n. sú, eins og ég áðan sagði, að hún mælir með frv., og formaður n. flytur brtt., sem hefur verið útbýtt, á þskj. 158, í samræmi við óskir fjmrn. um viðbótarlántökuheimild, eins og fram kemur á þskj. Um þetta atriði hafa nm. hins vegar óbundnar hendur.

Eins og hv. þdm. er kunnugt að sjálfsögðu, gaf Alþjóðabankinn kost í því í sumar að veita hagkvæm lán til hafnarframkvæmda hér á landi vegna Vestmannaeyjagossins, en aðeins vegna þess. Seðlabankastjóri upplýsti í n., að það hefði verið skýrt tekið fram af bankans hálfu, að hann lánaði eingöngu undir þessum kringumstæðum til hafnargerða hér, og þetta lán er veitt til ákveðinna hafnarframkvæmda, en ákvarðanir um það, hvað gera skyldi, voru teknar í sumar, eftir að n. frá Alþjóðabankanum hafði verið hér á ferð, og þær ákvarðanir eru að sjálfsögðu teknar af ríkisstj. í samráði við lánveitanda. Þessar ákvarðanir voru eins og ég áður sagði, teknar í sumar. Er fyrirhugað, að lánið skiptist þannig á þá þrjá staði, sem til greina koma, sbr. brtt., að til Þorlákshafnar gangi 366 millj. kr., til Grindavíkur 234 millj. og til Hafnar í Hornafirði 14.5 millj. kr.

Ég held, að ég hafi ekki þessa framsögu lengri. Það hefur verið óskað eftir að hraða afgreiðslu málsins, þar sem það tekur alltaf nokkurn tíma, frá því að Alþ. hefur afgreitt það, þangað til endanlega og formlega er hægt að ganga frá lántökunni. En áður hef ég lýst því, hver er raunverulega afgreiðsla nefndarinnar.