25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

341. mál, bætur til bænda vegna vegagerðar

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Skv. vegalögum eiga bændur rétt á fullum bótum fyrir jarðrask og troðning, sem nýir vegir valda á jörðum þeirra. En það vill stundum standa á því heldur en ekki, að Vegagerðin greiði þessar bætur. Margir bændur hafa orðið að ráðast í mikinn kostnað vegna girðinga, eftir að nýir vegir hafa verið lagðir um jarðir þeirra, og fyrir ýmislegt tjón af völdum nýrra vega eiga þeir inni miklar fjárhæðir hjá Vegagerðinni. Þær fjárhæðir geta numið hundruðum þúsunda. Ég heyrði t. d. fyrir skömmu um bónda, sem taldi sig eiga inni hvorki meira né minna en 500 þús. hjá Vegagerðinni af þessum ástæðum eða sem svarar þriggja daga kostnaði af stórlaxaveiði í Norðurá.

Það væri fróðlegt að vita hversu miklu þær nema samtals, þessar skuldir Vegagerðarinnar við bændur, og þess vegna hef ég leyft mér að beina til hæstv. samgrh. þessari fsp. á þskj. 10: „Hve mikið er ógreitt af bótum til bænda vegna girðingakostnaðar og ýmiss konar jarðrasks, sem orsakast hefur af framkvæmdum Vegagerðar ríkisins?“ Það væri líka fróðlegt að vita, hvort hæstv. samgrh hyggst ekki gera gangskör að því, að Vegagerðin greiði bændum þessar skuldir, og bæta þar með fyrir vanrækslu fyrirrennara sinna. Ég tel fyrir mína parta, að honum sé vel trúandi til þess, þeim dugnaðarmanni.