28.11.1973
Neðri deild: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

107. mál, lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hafði að vísu beðið um fjarvistarleyfi í dag af þeirri ástæðu, að ég ætlaði mér að sitja setningarfund L. Í. Ú., af því að ég á sæti í stjórn samtakanna. En einn þm. var svo hugulsamur að hringja til mín á þann fund og segja mér að þetta mál hefi verið tekið hér til umr. með afbrigðum, og ég veit auðvitað ástæðuna fyrir því, og forsetar þingsins áttu úr vöndu að ráða að taka tillit til óska þm. eða verða við frekju ráðh. í þessu tilfelli hefur frekja ráðh. ráðið, og þess vegna var þetta mál tekið fyrir hér með afbrigðum.

Nefndin, sem um mál þetta hefur fjallað, fjh.- og viðskn. Nd. fjallaði um frv. um lántökuheimild vega framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973, og um það var enginn ágreiningur í fjh.- og viðskn. að greiða fyrir framgangi þess frv., þó að talið hefði verið réttara, að sundurliðun fylgdi, svo sem er í nál. fjh.- og viðskn. En þegar þetta frv., sem er nánast staðfesting á brbl. um lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar á þessu ári, er komið til 2. umr. og n. og búið að vera þar í nokkra daga, fær form. fjh.- og viðskn. tilmæli um að flytja þá till., sem hann hefur orðið við að flytja, eins og hollir og traustir stjórnarþm. vanalega gera. Hann hefur því flutt till. um það, að á eftir 2. gr. komi ný gr., sem orðist þannig: „Ríkisstj. er einnig heimilt að taka 7 millj. dollara lán hjá Alþjóðabankanum til hafnarframkvæmda í Grindavík, Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði eftir nánari ákvörðun ríkisstj.

Samgrn. skrifaði fjmrn., — en það skal fram tekið fyrir þá, sem ekki þekkja til, og þá á ég ekki við þm., heldur ýmsa aðra, að þessi tvö rn. eru í sama húsi, en á sitt hvorri hæðinni, — en það tókst ekki, þó að samgrn. ætti hlut að máli, að koma þessu erindi áleiðis, eða réttara sagt: það tókst ekki hjá fjmrn. að koma erindinu út úr húsinu fyrr en 27. nóv., að lögð er á það höfuðáhersla, að fjh.- og viðskn. afgreiði þetta mál á stundinni, án þess að nokkur athugun fari fram, eð því að það er að verða ríkur vani hjá ýmsum mönnum, sem setjast í ráðherrastóla, að líta á Alþingi Íslendinga sem mjög simpla afgreiðslustofnun, þar sem hægt er að ganga inn og biðja um ákveðinn hlut, eins og við göngum inn í verzlun og segjumst ætla að fá þetta eða hitt og það er afgreitt yfir búðarborðið samstundis. Þetta hefur hæstv. fjmrh. hugsað sér, og hann hefur komið ár sinni þannig fyrir borð, að það var gert.

Ég var einn af þeim vondu mönnum í þessari n., sem vildu alls ekki gangast inn á það að gleypa við þessari málsmeðferð, um leið og komu fram munnleg tilmæli, þó að þau væru frá þessum hæstv. ráðh. Og ég fór fram á það við formann fjh.- og viðskn. að þessir herrar yrðu kallaðir á fund n. til þess að gefa einhverja skýringar á þessari efnismeðferð málsins. Hann tók af sinni alkunnu prúðmennsku þessa ósk til greina og fór á fund þessara tveggja hæstv. ráðh., og þeir gerðu nú svo lítið að mæta á fundi n. báðir og ræddu við okkur í held ég rúma klst., þar sem við fengum þó leyfi til að bera fram tilteknar aths. út af efnismeðferð þessa máls. Mín skoðun er sú, að þessi till. hafi átt að vera flutt af ráðh. í sérstöku frv. og fylgt úr hlaði hér með venjulegum hætti, en ekki að lauma 7 millj. dollara lántöku inn í frv., sem er í raun og veru óskylt þessu, og afsökunin er sú, að bréfið frá samgrh., sem skrifað er 31. okt., hafi þvælst fyrir í fjmrn. og gleymst. En ég verð að segja, að það eru engir smákarlar, sem gleyma í næstum því mánuð, að þeir eiga von á 7 millj. dollara láni, svo að það er eitthvað tekið af lánum þar, á því skrifborði, sem 7 millj. dollara lán gleymist í næstum því mánuð.

Mér ofbauð áðan að hlusta á málflutning hæstv. fjmrh., þegar hann leyfði sér að bera fram, að þessi mikla lántaka og 40% framkvæmdakostnaðar innanlands, sem þarf að inna af hendi, yrðu til að flýta fyrir öðrum hafnarframkvæmdum í landinu. Ég man eftir því úr barnaleikriti, að þegar Bastían bæjarfógeti var að rugla í Kardímommubænum, þá sagði Soffía frænka um hann: „En sá ruglukollur“. Það er nú kannske allsendis óviðeigandi að líkja hæstv. fjmrh. við Bastían bæjarfógeta, en ég get ekki að því gert, að þetta kom upp í mínum huga, þegar ég heyrði jafnfjarstæðukennda vitleysu og þarna er höfð í frammi.

Þá er komið að því, hvernig afla á fjár innanlands til þess að standa undir þessum tilteknu þremur framkvæmdum, sem aðallega eru þó tvær framkvæmdir: í Grindavík og í Þorlákshöfn, og svo smásletta í Höfn í Hornafirði. Um það segir í 22. lið heimildar fjárlagafrv., að ríkisstj. sé heimilt að ráðstafa því fé, sem inn kemur í aðalflutningsgjöldum og söluskatti af tilbúnum húsum, sem Viðlagasjóður flytur inn til tímabundinna nota fyrir Vestmanneyinga, til greiðslu á hluta ríkissjóðs í framkvæmdakostnaði við hafnir í Grindavík, Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði, sem er mótframlag á móti láni Alþjóðabankans. Þvílíkur höfðingsskapur, — hús, sem flutt eru inn vegna gossins í Vestmannaeyjum og þeirrar óhamingju, sem því fylgdi. Til þess að nota sér þetta ólán á að gefa eftir tolltekjurnar, en nota þær aftur sem mótframlag ríkisins til framkvæmda í Þorlákshöfn, Grindavík og Höfn í Hornafirði fyrir blessaða, elsku Vestmanneyingana, að því er ríkisstj. telur. Það hefði enginn fjmrh. treyst sér til, — mér er sama hvaða kjarkmaður það væri, sem væri í embætti fjmrh., — treyst sér til annars en að fella niður aðflutningsgjöld af öllum húsum Viðlagasjóðs. Það er hrein blekking og niðurlægjandi fyrir ríkisstj. að leggja þetta til. Það átti auðvitað að leggja til að fella þessi aðflutningsgjöld niður, en ekki að nota sér þessa ástæðu til þess að fjármagna innlendan kostnað fyrir þessar tilteknu þrjár hafnarframkvæmdir. Og þetta er allt saman gert í nafni Vestmanneyinga.

Nú vita menn það, að Vestmanneyingar leggja höfuðáherslu á það að byggja upp sína höfn, og fyrir þann tíma, sem þessi ákvörðun er tekin, er sjáanlegt, að það þarf að leggja fram stórfé til Vestmannaeyja. Og við minnumst orða hins þróttmikla forsrh. vors, þegar hann hrópaði að þjóðinni í vetur: „Vestmannaeyjar skulu rísa.“ Við höfum allir trúað því, að Vestmannaeyjar ættu að rísa, en ekki með þessum hætti, að það ætti að taka af Viðlagasjóði til þess að standa undir þessum þremur framkvæmdum. Þetta finnst mér ekki höfðinglegt frá hendi hæstv. ríkisstjórnar, síður en svo.

Þá kem ég að hinum þætti þessa máls, sem er um aðrar hafnir í landinu. Mín skoðun er sú, að eftir því sem þjóðfélagið fórnar meiri framlögum og tekur fleiri lán til tiltekinna hafna, þá sé það ekki til þess eð auka framkvæmdir á öðrum stöðum, heldur jafnvel til þess að draga nokkuð úr þeim framkvæmdum, sem annars hefði verið farið í. Þetta held ég, að hver maður, sem eitthvað skilur gang fjármála, telji vera nær sanni en þessar órökstuddu fullyrðingar hæstv. fjmrh. hér áðan. Við skulum líta á fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir. Segir í aths. fyrir fjárlagafrv., að framlög til hafnarmála hækki samtals um 488.5 millj. kr., þar af 394 millj., til hafnarframkvæmda í Þorlákshöfn, Grindavík og Höfn í Hornafirði, en þessar framkvæmdir voru sem kunnugt er ákveðnar með tilliti til náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum, en samkv. bráðabirgðaáætlunum mun heildarkostnaður á árinu 1974 verða um 450 millj., sem skiptist þannig á milli þessara hafna: 225 millj., til Þorlákshafnar, 200 millj., til Grindavíkur og 25 millj. til Hafnar í Hornafirði. Síðan segir í aths. með fjárlagafrv., að fyrir utan þessar tilteknu hafnarframkvæmdir hækka framlög til hafnarmannvirkja og lendingarbóta um 93.2 millj. kr., eða um 45.1%, m. a. af ákvæðum nýrra hafnalaga um aukna hlutdeild ríkissjóðs í byggingarkostnaði.

Ef við lítum á þessa breytingu, sem verður á hækkunum til hafnarframkvæmda, til fiskihafnanna í landinu almennt, þá verðum við að hafa í huga, að nú 1. jan. koma til framkvæmda ný hafnalög, sem gera ráð fyrir því að auka hlutfall þátttöku ríkisins frá því, sem var í gildandi löggjöf. Meginhluti af kostnaði hafnarframkvæmda var greiddur með 40 og 70% þátttöku ríkissj., en hefur reynst vera að meðaltali í kringum 60% nú á síðustu árum. Nú mun þessi upphæð hækka upp í 75% með þessum nýju l., svo að það auðvitað kallar um leið á aukna fjárveitingu til hafnarframkvæmda, án þess þó að gera kröfur um aukningu framkvæmda frá því, sem áður var. Í þessu sambandi skulum við einnig líta á það, að sú breyting hefur orðið á einu ári, eða frá því að við unnum að undirbúningi og afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1973, að byggingarkostnaðurinn hefur hækkað um tæplega 33%, og það hefur enginn sannfært mig um það, að framkvæmdakostnaður við hafnargerðir almennt í landinu hafi ekki hækkað rúmlega það eða um 33–34%, sennilega nálægt 40%, á þessu eina ári. Og með aukinni hlutfallsþátttöku ríkisins í hafnarframkvæmdum kemur fram í fjárlagafrv., að framlögin hafi hækkað um hvorki meira eða minna en um 45.1%.

Í raun og veru hefur engin hækkun orðið á framkvæmdamætti við hafnargerðir frá því, sem þær voru fyrir einu ári, vegna þeirra verðbreytinga, sem orðið hafa, og vegna tilkomu hinna nýju hafnalaga, sem taka gildi nú 1. jan. n. k. Þess vegna er sjáanlegt á öllu, að hér er um allt of lágar upphæðir að ræða. Áður en ég lýk því að tala um væntanlegar framkvæmdir við fiskihafnir almennt, vil ég minna á það, að í hinum nýju hafnalögum eru ákvæði til bráðabirgða um, að gera skuli sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnasjóða af löngum lánum, sem verst eru settir, og þá á að miða við lánin eins og þau eru, þegar l. taka gildi, og við fjárlagagerð fyrir árið 1974 átti samgrn. að gera Alþ. sérstaka grein fyrir fjárþörf í þessu efni. Ráðh. á að gera till. til fjvn. og Alþ. um skiptingu fjárins, og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélags til hafnarsjóðs, fólksfjölda og öðrum þeim atriðum, sem hafa áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðsins. Þessu frv. til hafnal. var ætlað að taka gildi um síðustu áramót. En það varð ekki, og þegar það var séð fyrir afgreiðslu síðustu fjárl., að það mundi ekki verða, þá varð að samkomulagi, að það var tekið inn í fjárlagafrv. á heimildagr. heimild fyrir ríkisstj. að taka að láni allt að 40 millj. kr. til þess að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða, sem verst eru settir. Þetta lán var svo tekið, þegar komið var fram yfir mitt sumar á þessu ári, og í stað þess að úthluta því til þeirra hafna og sveitarfélaga, sem verst eru sett í þessu efni, tók hæstv. fjmrh. þá ákvörðun, að þetta skyldi ekki verða veitt sem styrkur til hafnanna, heldur sem lán. En nú bregður svo við, að þegar fjárlagafrv. er lagt fram og þessi ákvæði til bráðabirgða eru orðin að l., þá er ekki tekin inn króna í fjárlagafrv. í þessu skyni, og nú er afsökunin sú, að hið háa fjmrn. og hæstv. hafi ekki séð stöðu hinna einstöku hafna, eins og þær eru í dag. Nú vitum við það og sennilega hæstv. fjmrh. og hans rn. einnig, að staða fjölmargra fiskihafna og sveitarfélaga í landinu er með þeim hörmungum, að allt að rúmlega fjórðungur af brúttótekjum einstakra sveitarfélaga fer til þess að greiða afborganir og vexti af hafnarlánum. Og það segir sína sögu, að þessi sveitarfélög geta ekki staðið undir eðlilegri félagslegri uppbyggingu og öðrum framkvæmdum, þegar þau þurfa að leggja svo mikið af mörkum í þennan eina málaflokk. Það mundi þykja þungur skerfur hér í höfuðborginni og í stærstu bæjum landsins, ef þyrfti að taka af útsvörunum um fjórðung eða liðlega fjórðung af brúttótekjum til þess að standa undir hafnarlánum og vöxtum af þeim. En svona er ástandið í mörgum fiskihöfnum á landinu, og þetta er kannske ein ástæðan til þess, að fólkið er sífellt að flytjast frá þessum stöðum, þótt atvinnulífið sé þar gott og tekjur miklar. Þegar það sér, að þeirra litla samfélag, sveitarfélagið, getur ekki staðið við sínar skuldbindingar á öðrum sviðum, í félagsmálum og öðrum framkvæmdum, en önnur sveitarfélög standa mun betur að vígi, þá er þetta kannske ein af mörgum ástæðum til þess, að sífellt er verið að flytja frá þessum þróttmiklu athafnastöðum til annarra, sem bjóða betri lífskjör.

Þeir staðir, sem eiga að fá þessar tilteknu framkvæmdir, sem áður hafa verið nefndar, eiga ekki við það vandamál að etja, að fólkið sé að flytjast frá þeim til annarra staða, heldur er það kannske mikið vandamál hjá þeim, hve margt fólk sækir til þeirra staða og krefst margvíslegra nýrra framkvæmda, sérstaklega hjá þeim tveimur höfnum, sem eiga að fá meginhluta af þessu fjármagni. Mér finnst, að hæstv. ríkisstj. eða þessir hæstv. ráðh., sem hafa fjallað um þetta mál, hefðu þegar þeir og ríkisstj. í heild ákváðu að taka lán hjá Alþjóðabankanum til þessara tveggja hafnargerða og þeirrar slettu, sem sú þriðja á að fá, — þá hefðu þeir jafnframt átt að gera sér grein fyrir því mikla vandamáli, sem við er að glíma í velflestum byggðarlögum öðrum á landinu. En þeir hafa verið svo hrifnir af þessu tilboði Alþjóðabankans, að þeir hafa ekki séð annað ráð en taka það á sínum tíma, þó að það hafi eitthvað dofnað yfir því, þegar fjmrh. gleymir bréfinu í mánuð á borðinu hjá sér og að koma því áleiðis hingað niður í þinghús, og hefur hann þó átt nokkrar ferðir niður í þinghús síðan, ef hann hefur ekki viljað nota póstinn.

Sannleikur málsins er sá, að það er takmarkaður áhugi á því, hvað á að gera fyrir aðrar hafnir á landinu. Annars lægi eitthvað fyrir frá hendi hæstv. ríkisstj. Þetta er byggðastefnan í framkvæmd, sem alltaf er verið að guma af. Hvað segir í málefnasamningnum, sem við áttum að lesa bæði kvölds og morgna, um byggðastefnuna? Hvað er þetta svo aftur í framkvæmdinni? Þetta er eitt af því, sem má kvarta undan. En ég hélt, að kæmi ekki fyrir a. m. k. suma menn í ríkisstj. að láta henda sig að gera þetta.

En ég vil alltaf geta alls og ekki draga neitt undan, og ég vil alls ekki draga það undan, að núv. hæstv. samgrh. hefur nú fyrir nokkru skipað n. til að kanna stöðu hafnanna. Sú n. er tiltölulega nýbyrjuð að vinna sitt starf. En þrátt fyrir það að það starf sé ekki búið og verði ekki búið, þegar afgreiðsla fjárl. fer fram, þá finnst mér skylda hæstv. fjmrh. að taka inn mun hærri upphæð en gert var á heimildagr. fjári. á þessu ári til þess að bæta stöðu þessara hafna. Það er ekki nóg að tala alltaf um nýjar og nýjar framkvæmdir. Það verður líka að athuga og gera sér grein fyrir því, hvernig fjárhagsleg staða hinna ýmsu sveitafélaga er. Eins og hún er núna á þessum sviðum, þá hygg ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að enginn málaflokkur sé verr settur en hafnirnar eru og hafa verið á undanförnum árum.

Ég var ekki alltaf, meðan ég var stjórnarsinni, fyllilega ánægður með fyrri ríkisstj. og hennar aðgerðir, og ég var alls ekki ánægður með verk hennar í hafnamálunum. Ég reyndi nú að ýta undir, fyrst á bak við tjöldin, og þegar ekki gekk, þá leyfði ég mér ásamt fleiri þm. að flytja þáltill. um endurskoðun hafnal. Sú þáltill. varð ekki útrædd, en samgrh. í ríkisstj. á undan skipaði þó n. til þess að endurskoða hafnal., og fyrri samgrh. í núv. ríkisstj. bætti tveimur mönnum við þessa n. Þessi n. lauk sínu starfi og lagði það frv. fyrir ríkisstj., sem ríkisstj. lagði svo fyrir Alþ. tvö ár í röð, en nú er að verða að l. um næstu áramót. En ég vil ekki láta heldur hjá líða út af því, sem hefur gerst í framlögum til hafnamála, að minna hæstv. fjmrh. á það, að þegar gengisbreytingarnar voru gerðar 1967 og 1988, þá kvörtuðu hafnirnar mjög undan því, hvað skuldir þeirra hefðu aukist í krónutölu. Þá tókum við þessi mál fyrir í fjvn., og við vorum harðir á því, að ríkissjóður yrði að taka gengisbreytinguna yfir sig. Meðal þeirra, sem stóðu þá við hlið mína, var hæstv. núv. fjmrh., Halldór E. Sigurðsson, sem þá var bara réttur og sléttur þm. Vesturl. Þá hafði karl bug á því að bæta úr og stóð mjög drengilega og vel með okkur. Og fyrirrennari hans í starfinu, sem var ekki mjög útausandi maður, eina og allir vita, samþykkti að greiða úr ríkissjóði 57.5% af gengisbreytingunni. Nú hefði ég haldið, að sá ágæti maður, núv. hæstv. fjmrh., sem hefur nú verið talinn heldur betur útausandi en fyrirrennarar, skrúfaði ekki alveg fyrir kranann til hafnamála, heldur reyndi að stíga það skref, sem hann sjálfur lagði til 1968, að ríkissjóður greiddi gengisbreytinguna að fullu og öllu. Þar sem Magnús Jónsson greiddi ekki nema 57.5%, þá finnst mér, að Halldór E. Sigurðsson verði að bæta við og greiða að fullu, það sé kominn tími til þess og þótt fyrr hefði verið.

Það er sjáanlegt af öllu, að eins og fjárlagafrv. liggur fyrir, og auðvitað skulum við ekki fara að ræða það ítarlega hér, hvorki þennan málaflokk né aðra, en það verður ekki komist hjá því að gera þessi mál að umræðuefni, þegar á að fara út í jafnstórfelldar framkvæmdir fyrir lánsfé og líka fyrir framlög úr ríkissjóði, eins og hér er stefnt að. Þó að þau séu gerð því miður á kostnað Viðlagasjóðs, er verið að leggja á þjóðina skatta til að greiða til Viðlagasjóðs. Þess vegna finnst mér ástæðulaust, að ríkið sé svo aftur, þar sem það er svo sjálfsagt að létta af Viðlagasjóði, að láta Viðlagasjóð borga. Það finnst mér jafnfráleitt og enn fráleitara. En það sýnir, að þessar miklu framkvæmdir eru auðvitað til þess og verða til þess að draga úr öðrum framkvæmdum í þessum málaflokki, ef ekki verður tekið myndarlega á þessu máli.

Það verður ekki hægt að sætta sig við það, að fiskihafnir almennt í landinu séu látnar bíða eins og verkefnin eru þar mörg og bráðnauðsynlegt að vinna mörg þeirra sem allra fyrst. Ég er ekki svo kröfuharður, að ég fari fram á það, að allt verði byggt og framkvæmt á einu ári. En ég er það kröfuharður, að ég tel, að það þurfi að liggja fyrir skýlausar yfirlýsingar um það, hvað ríkisstj. sjálf ætlar sér að auka framlag til hafnargerða á næsta ári og hvaða markmið og till. Alþ. setur í þessum málum á næstu 3–4 árum á eftir. Það er nauðsynlegt að byggja á ákveðinni framkvæmdaáætlun fyrir þá, sem ekki fá framkvæmdir á árinu 1974, svo að þeir megi vita, að þeir fái framkvæmdir á árinu 1975 eða 1976. Það skiptir töluverðu máli. Og það verður líka að fást á því viðurkenning, að þessi málaflokkur er verr settur en nokkrar aðrar framkvæmdir í landinu. Við skulum ekkert vera að deila eða ræða um það, hver eða hverjir eigi sök á þessu eða hinu, heldur þarf fyrst og fremst að bæta úr því, sem hefur farið miður á undanförnum árum, bæði undir fyrri ríkisstj. og sömuleiðis eftir að þessi ríkisstj. tók við. Það er alveg ljóst, að það þarf fjármagn, mikið fjármagn, til þessara mála, það er ljóst, að það er verið fyrst og fremst að auka fjárfestinguna og framkvæmdirnar í þeim héruðum, sem fólkið er að flykkjast til, en ekki hugsað aftur um þau, sem fólkið er að hverfa frá, og ekki heldur hugsað um það, hvernig ástandið er með mjög örri breytingu á fiskiskipastólnum í fjölmörgum fiskihöfnum úti um land. Þetta verður að liggja fyrir, og ef það er eitthvað meint með byggðastefnu, verður hún að vera með öðrum hætti en að fara með allt fjármagnið til þeirra byggðalaga, sem fólkið er að flykkjast til, á kostnað hinna, sem eru að berjast við að halda fólkinu áfram við framleiðslustörfin, eins og er víðast hvar í sjávarbæjum úti um land.