29.11.1973
Sameinað þing: 27. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

43. mál, samgönguáætlun fyrir Norðurland

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er einungis til þess að koma að einni nauðsynlegri leiðréttingu. Flm. þessarar till. bera saman við Austurlandsáætlunina og segja, að miklu verr sé séð fyrir framkvæmdum á Norðurlandi í Norðurlandsáætluninni en gert hafi verið á Austurlandi með Austurlandsáætluninni. Í því sambandi sagði hv. 1. flm. eitthvað á þá leið, að í Austurlandsáætlunina hefðu komið 55% af framkvæmdaþörf í samgöngumálum á Austurlandi. Ég vil leiðrétta þetta, enda hygg ég, að hv. þm. hafi kannske eitthvað mismælt sig í þessu sambandi. Inn í Austfjarðaáætlunina kom sem sé ekki nema brot af einu verkefni, sem þar er þörf á að leysa í samgöngumálum, og ekkert annað. Af einu verkefni í vegamálum, sem sé því að leggja millibyggðavegi eftir kjördæminu endilöngu, komst aðeins inn í hana brot og ekkert annað af því, sem óleyst er í samgöngumálum Austurlands, þannig að það er ómögulegt að bera saman við hana á þann hátt, sem gert hefur verið.