03.12.1973
Neðri deild: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Síðan Alþ. hélt síðustu fundi fyrir helgi, hefur Landssamband ísl. útvegsmanna látið frá sér fara ályktun um eitt mesta vandamál þjóðarinnar, verðbólguna, áhrif hennar og afleiðingar. Það er einn þáttur þeirrar ályktunar, sem ég vil leyfa mér að vekja athygli Alþ. og hæstv. ríkisstj. á utan dagskrár. Í ályktun fundarins segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur L. Í. Ú. 1973 lýsir þungum áhyggjum yfir fyrirsjáanlegum vinnuaflsskorti á fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum, einkum á næstu vetrarvertíð. Telur fundurinn óhjákvæmilegt, að ríkisvaldið bregðist skjótt og ákveðið við þessum vanda og leiti allra ráða til að leysa hann.“

Síðan bendir fundurinn á fjögur úrræði:

1. Sjómönnum og fiskiðnverkafólki verði veitt sérstök, rífleg skattfríðindi og hætt verði þeirri ofsköttun, sem nú tíðkast.

2. Í framhaldsskólum verði einstökum bekkjardeildum gefið frí frá kennslu, þegar upp kemur tímabundinn mannaflaskortur, einkum á vetrarvertíð.

3. Ríkissjóður og sveitarsjóður dragi stórlega úr framkvæmdum sínum frá áramótum til vetrarvertíðarloka.

4. Athugaðir verði möguleikar á að flytja inn erlent vinnuafl fyrir sjávarútveginn til þeirra verkefna, sem mundu leysa af hólmi vinnuafl, sem mundi vinna við sjósókn og fiskvinnslu.

Í annarri ályktun fundarins kemur það einnig fram, að lýst er áhyggjum yfir þensluástandi, sem skapast hefur af allt of miklum umsvifum ríkis og sveitarfélaga, svo að keppt er um vinnuaflið langt úr hófi fram með þeim afleiðingum, að við blasir stórfelldur mannaflaskortur, ekki aðeins til sjósóknar, heldur og fiskvinnslu. Í ræðu formanns Landssambands ísl. útvegsmanna, Kristjáns Ragnarssonar, á þessum fundi segir hann svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þess hefur mjög gætt að undanförnu, að erfitt hefur reynst að fá fólk til að starfa við sjávarútveginn. Ástæðan til þessa er hin mikla spenna, sem er á vinnumarkaðinum. Ekki er svo að sjá sem þeir, sem landinu stjórna, hafi miklar áhyggjur af þessari þróun mála, því að hið opinbera virðist hvergi draga úr umsvifum sinum eða sýna vilja til þess, að hér þurfi að verða breyting á. Er hætta á, að ef svo fer fram sem horfir, muni fljótlega, þegar kemur fram á næstu vetrarvertíð, koma til stórfelldra erfiðleika við mönnun bátaflotans og fiskverkunarstöðva.“

Nú er ljóst, að það er ein frumskylda hverrar ríkisstj. að reyna að halda jafnvægi í efnahagsmálum. Ef hætta þykir á vinnuaflsskorti hjá höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, er auðvitað skylt að gera ráðstafanir til að afla þeim atvinnuvegi vinnuafls, m. a. með því, eins og það er orðað í ályktuninni, að draga þá um stund úr umsvifum hins opinbera og slá þá á frest því, sem hugsanlegt væri að fresta um stund. Nú er það svo um ýmsar slíkar aðgerðir, að þær þurfa nokkurn aðdraganda, og einnig tekur það nokkurn tíma, að áhrif þeirra aðgerða komi fram.

Nú er um það bil mánuður, þangað til aðalvertíð hefst. Er því tímabært, virðist mér, að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann líti þetta ástand ekki alvarlegum augum, eins og Landssamband ísl. útvegsmanna, hvort ríkisstj. hafi ekki eins og útvegsmenn þungar áhyggjur af þessu ástandi og horfum og hvort ríkisstj. hafi ekki í huga aðgerðir í því skyni að greiða úr þeim mikla vanda, sem vofir yfir þessum atvinnuvegi og þar með þjóðinni allri.