03.12.1973
Neðri deild: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

Umræður utan dagskrár

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki - að fara að ræða væntanlegar bónorðsferðir hæstv. forsrh. Hann verður að mínum dómi að vera þar einn í ráðum, en ekki leita til annarra í því sambandi. En það, sem ég vildi vekja hér athygli á, að það svar, sem hv. 5. þm. Reykv. fékk við ábendingu sinni, að það, hvaða till. við í stjórnarandstöðunni kynnum að flytja við afgreiðslu fjárlaga, mundi verða markandi fyrir efnahagsstefnuna í framtíðinni.

Það liggur fyrir, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur hækkað fjárlögin nær þrefalt á röskum tveimur árum. Það er hæstv. ríkisstj., sem markar stefnuna í efnahagsmálum, hækkar þau, eins og ég segi, og svo er okkur í stjórnarandstöðu sagt: Það eruð þið, sem eruð að skapa vandann í efnahagsmálum, ef þið flytjið fleiri tillögur. — Ég spyr: Er þetta það lýðræði, sem íslendingar eiga að fá að búa við í framtíðinni? Á að fara að marka þá stefnu hér á Alþingi, að ef menn flytja tillögur um áhugamál sín eða áhugamál síns byggðarlags, þá séu þeir að brjóta niður efnahagskerfið? Ég segi: Það er hæstv. ríkisstj., sem hefur skapað öngþveiti í fjármálum þjóðarinnar með þeirri geysilegu hækkun, sem orðið hefur á fjárlögum undanfarinna ára. Það hefur aldrei í sögu Alþingis, að ég hygg, verið stigið eins stórt skref upp á við í hækkun fjárlaga og í tíð núv. hæstv. ríkisstj., svo að það er hún og hún ein, sem ber ábyrgð á efnahagsmálunum. Hún getur ekki á nokkurn hátt komið því þannig fyrir, að það sé stjórnarandstaðan, sem þar verður gerð ábyrg fyrir.