03.12.1973
Neðri deild: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að tala mikið um þetta efni, en það er eitt, sem hefur valdið mér nokkurri furðu. Það er, að þegar viðreisnarstjórnin var að völdum, þá beindist mjög gagnrýni að þeirri stjórn fyrir verðbólgu. Nú er verðbólgan enn meiri, en gagnrýnendurnir á dögum viðreisnarstjórnarinnar láta nú eins og lítill voði sé á ferðum. Hvers vegna ekki hafa þann háttinn á að segja þjóðinni frá því, að hér sé um háskalega verðlagsþróun að ræða og stjórnin muni reyna að leysa hana eftir bestu getu? Það eru hin heiðarlegu vinnubrögð að viðurkenna hinn verulega vanda, sem hér er á ferð, og síðan játa það, að því miður hafi ekki tekist að ráða við hann og allt verði reynt að gera. Ég hygg, að þannig eigi að koma fram gagnvart þjóðinni. En að láta eins og ekkert sé og yppta öxlum, það er mjög óábyrg afstaða. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel, að óðaverðbólgan sé einhver sá mesti háski og hin mestu vandræði, sem þjaka íslenskt þjóðfélag í dag. Þess vegna held ég að sé meginatriði fyrir alla stjórnmálaflokkana að reyna að leysa þetta mál eftir bestu getu, en fyrir alla muni að láta ekki eins og hér sé enginn háski á ferðum. Með sama framhaldi verður ný gengisfelling, ef að líkum lætur.