03.12.1973
Neðri deild: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

66. mál, Norðurlandasamningur um skrifstofur Ráðherranefndar og skrifstofu Norðurlandaráðs

Frsm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Svo sem kemur fram á þskj. 167, mælir allshn. með samþykkt frv., en fjarverandi afgreiðslu málsins voru tveir hv. þm., Heimir Hannesson og Jónas Jónsson. Samningur þessi tekur til tveggja skrifstofa: skrifstofu Ráðherranefndarinnar í Osló, sem hóf starfsemi til bráðabirgða hinn 1. júní 1972, og skrifstofunnar í Kaupmannahöfn fyrir norrænt menningarmálasamstarf, sem áður hafði verið komið á fót, og öðlast þessar skrifstofur þar með báðar sömu réttarstöðu. Viðbótarbókunin tekur til skrifstofu stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og réttarstöðu hennar. Það er fyrirhugað, að samningur þessi taki gildi um áramót og hefur því verið óskað eftir, að máli þessu yrði hraðað hér í hv. d., en frv. hefur þegar verið samþ. í Ed.