25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

346. mál, innflutningur júgóslavneskra verkamanna

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 3. landsk. þm. er í fyrsta lagi um það, hvort fyrirhugað sé að flytja inn júgóslavneska verkamenn í sambandi við Sigölduvirkjun. Í öðru lagi: „Ef svo er, hversu margir verða þeir?“ Og í þriðja lagi: „Hafa viðkomandi verkalýðsfélög veitt heimild til þess?“

Svar mitt við þessu er það, að til félmrn. eða til mín hefur ekki borist nein umsókn um leyfi til innflutnings júgóslavneskra verkamanna né heldur nokkurra annarra erlendra verkamanna til starfa við Sigölduvirkjun. En berist slíkar umsóknir mun að sjálfsögðu verða farið með þær eins og venja er og lög mæla fyrir, en skv. 1. nr. 39 1951, um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi, er skylt að leita umsagnar hlutaðeigandi verkalýðsfélaga, áður en leyfi er veitt. Ég get svo bætt því við, að ég mun að sjálfsögðu fara að eins og þessi lög mæla fyrir, og ég mun ekki heldur veita nein slík leyfi sem félmrh., meðan ég gegni því starfi, nema fullt samkomulag sé um það — eða um meiri hl. verkamanna að ræða — við viðkomandi verkalýðsfélög. Þannig hefur verið haldið á málum í sambandi við stórframkvæmdir hér á landi, og það hefur yfirleitt tekist, án þess að af því spryttu deilur. Þar sem ég svara því hiklaust neitandi, að nokkur slík ósk hafi borist, þá að sjálfsögðu fellur um sjálfa sig 2 liður fsp., hversu margir þessir verkamenn verða, og einnig, hvort viðkomandi verkalýðsfélög hafi veitt slíkar heimildir.

Ég get svo aðeins getið þess, ef það mætti verða fyrirspyrjanda til frekari upplýsinga, að ráðuneytið hefur fengið hjá hlutaðeigandi upplýsingar um, að það sé líklegt, að nú í vetur muni starfa hjá hinum júgóslavneska verktaka 50–70 manns og þeir geri ráð fyrir, að það sé fáanlegt nægilegt vinnuafl innanlands til þess að fylla út þá tölu.