03.12.1973
Neðri deild: 33. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

107. mál, lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í ræðuhöld að þessu sinni, heldur aðeins að svara spurningum, sem beint var til mín, og ekki gefa ástæðu til neinna pólitískra umr.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. spurði um skiptingu fjárins, og hún mun í aðalatriðum vera á árinu 1974 þannig, að Þorlákshöfn er með 225 millj. kr., en Þorlákshöfn er landshöfn, svo að þar er að öllu leyti fjármagnað, í Grindavík er gert ráð fyrir að verði tæpar 200 millj., en þar af eru um 146 af lánsupphæðinni, og Höfn í Hornafirði 24 millj. Þetta eru tæpar 400 millj. kr. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að heildarskiptingin verði þannig, að Þorlákshöfn fái um 400 millj. af láninu, Grindavík 176 og Höfn í Hornafirði 24.

Út af því, sem hv. 2. þm. Vestf. spurði um í sambandi við Sigölduvirkjun og þetta lán, þá vil ég segja það við hv. 2. þm. Vestf., að mér er algerlega ókunnugt um samband þar á milli. Ég hef aldrei um það heyrt eða við mig verið rætt um það, enda hef ég að sjálfsögðu ekki haft nema takmarkað um þetta að segja. En ég hef aldrei heyrt, að það hafi verið gert að skilyrði fyrir því, að þetta lán yrði veitt, að það yrði þá lækkað lánið til Sigölduvirkjunar. Ég hef litið svo á, að ástæðan til þess, að ekki væri meira tekið á næsta ári, sé sú, að það sé ekki búið að taka að fullu það lán, sem á að taka vegna framkvæmdarinnar.

Í öðru lagi spurði hann um hækkun á framlögum til hafna, almennra hafna. Það hefur komið fram oftar en einu sinni hjá mér, bæði við 1. umr. fjárl. og eins hér um daginn, að ég gerði ráð fyrir hækkun á fjárframlögum til hafna frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Fjvn. vinnur nú að því máli og það mun að sjálfsögðu nokkuð skila sér, hvernig henni tekst að skipta á milli hafnanna fjárveitingunum, en ég tel, að þar muni verða um verulega hækkun að ræða.

Í þriðja lagi út af greiðslubyrðinni og gömlu lánunum, þá verð ég að segja það og lít svo á, að þar eigi ég ekki sök á. Það hefur aldrei legið fyrir fjmrn. grg. um þetta, áætlanir um þarfir þessara hafna. Hæstv. samgrh. hefur skipað n. til að vinna að því, og ég geri ráð fyrir, að á einhvern hátt verði þessu máli mætt við afgreiðslu fjárl. nú, þau fari ekki út úr þinginu án þess, að það verði hægt að sinna því að einhverju leyti. Hvort það verður fullnægjandi, kann ég ekki skil á, enda geri ég ráð fyrir því, að þessu verði dreift á nokkur ár, því að að sjálfsögðu koma lánin til borgunar á nokkrum tíma.

Þetta vona ég, að nægi til svars við þeim fsp., sem ég var beint spurður um.