04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Já herra forseti. Hv. 4. þm. Austf. vill endilega misskilja mig, og við því er ekkert að segja. Það er sjálfsagt að hann fái að halda þeim misskilningi. En það þykja mér mikil undur, ef á tímanum frá því að svör mín voru gefin hér 6. nóv. og fram til 15. nóv. hafi menn farið í bankana og skuldbundið sig um greiðslu út á þau loforð, sem hann vill halda fram, að ég hafi gefið hér 6. nóv.

Ég þekki nóg til bankamála á Íslandi til að vita, að peningarnir og þær skuldbindingar, sem menn hafa gert í sambandi við fjármál, þau loforð hafa þeir gefið fyrir 6. nóv., þeir sem voru með fokheldar íbúðir 15. nóv. Það held ég, að allir hljóti að sjá.

Varðandi það, sem hann sagði um, að Atvinnuleysistryggingasjóður kynni að kaupa veðskuldabréf Byggingarsjóðs, þá er það rétt, að ég bar fram till. í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs um þetta og upp í þetta gengi upphæð, sem ríkissjóður hefur enn ekki innt af hendi greiðslu á. Það var samþykkt þar og þó ekki með neinum fögnuði, og sumum af flokksbræðrum hans þykir vera alveg nógu miklar framkvæmdir í landinu. Það er sjálfsagt gott að geta brugðið fyrir sig mörgum gervum og mörgum andlitum. En þetta var sem sagt samþykkt þar, og ég hef rætt þetta við fjmrh., og því hefur verið tekið af skilningi. Ég á von á, að af þessum verðbréfakaupum verði eftir áramótin, og ég hef góðar vonir um það, — og ég legg áherslu á vonir, því að endanleg svör hef ég ekki fengið um það.