04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

377. mál, viðurkenning á herforingjastjórninni í Chile

Fyrirspyrjandi (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. Það hefur vakið eftirtekt og nokkra undrun, að ekkert hefur heyrst frá utanrrn. Íslands um afstöðu þess til herforingjastjórnarinnar í Chile, og þess vegna hef ég leyft mér að bera upp fyrirspurn til hæstv. utanrrh., sem prentuð er á þskj. 130 og hljóðar svo:

„Hefur íslenska ríkisstj. viðurkennt herforingjastjórnina í Chile?“

Þessi spurning brennur enn heitar á vörum manna nú en þegar ég lagði fsp, fram, þar sem fulltrúi andspyrnuhreyfingarinnar í Chile er einmitt staddur hér á Íslandi um þessar mundir til þess að leita samstöðu og vinna baráttu sinni fylgi. Mér og fleirum hefur þótt eðlilegt, að Ísland sliti stjórnmálasambandinu við Chile af ástæðum, sem verða vonandi augljósar af máli mínu hér á eftir.

Mönnum er enn í fersku minni valdarán hersins í Chile þann 11. sept. s. l., er réttkjörinni ríkisstj. landsins var steypt og forseti landsins myrtur. Hér var um að ræða lokaþáttinn í margslungnu og óhugnanlegu samsæri alþjóðlegra auðhringa, bandarískra stjórnvalda og bandarískrar leyniþjónustu. Það komst upp um samsæri þetta af skjölum og bréfaskriftum, sem hafa verið birt og gefin út. Þessi bréfaskipti hafa ekki verið vefengd af þeim aðilum, sem þar koma við sögu. Skjölin hafa m. a. verið gefin út ljósrituð af breska útgáfufélaginu „Spokesman“ árið 1972 og ætti hver sá, sem vill mynda sér skoðun um atburðarásina í Chile að kynna sér þessi gögn.

Stjórn Allendes hafði m. a. sett sér það markmið að tryggja yfirráð Chilebúa sjálfra yfir náttúruauðlindum sínum, en þar ber hæst koparnámurnar. Koparútflutningurinn veitir nær 80% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, og eru hæg heimatökin fyrir okkur Íslendinga að bera það saman við verðmæti fiskútflutnings okkar. En Chilebúar sjálfir áttu ekki nema 10% af koparnámunum árið 1970, árið sem Allende komst til valda. Afgangurinn, 90%, var í eigu amerískra auðfélaga, sem hafa flutt úr landi nettóhagnað, sem nemur þúsundum milljóna dala á undanförnum áratugum. Þjóðarauðurinn, sem hélst í landinu sjálfu, var að meginhluta til í höndum 400 þús. Chilebúa, sem er minna en 5% af þjóðinni. Stjórn Allendes vann að jöfnun lífskjara í landinu og þjóðnýtingu auðlinda þess. Hann bauð erlendu auðhringunum bætur. En það er hollt fyrir okkur Íslendinga að minnast þess, að kröfur hans í þeim efnum voru langt frá því að vera jafndjarfar og kröfur Íslendingsins Jóns Sigurðssonar á sínum tíma á hendur Danaveldi.

Hér er ekki tími til að rekja refsiaðgerðir auðhringanna eða aðferðir þær, er amerískt auðvald notaði til að koma stjórn Allendes á kné. Ég ætla frekar að víkja nokkuð að atburðarásinni, eftir að herforingjastjórnin tók völdin. Hafinn er undirbúningur að því að afhenda koparauðhringunum aftur ítök í koparnámunum, enda hefur koparinn stórhækkað aftur í verði, en auðhringarnir ráða nær einir koparmarkaðinum. Lán þau, sem alþjóðlega lánastofnunin neitaði stjórn Allendes um, standa nú herforingjastjórninni til boða, en samtímis hefur herforingjastjórnin numið úr gildi þá tilskipun Allendes, er bauð, að öllum börnum í fátækrahverfum skyldi gefinn ½ lítri af mjólk á dag, auk þess sem nauðsynlegustu matvæli hafa hækkað í verði, sumt um allt að 1500%. Fjöldaaftökur eru daglegt brauð. Um tölur myrtra her aðilum ekki saman, en fulltrúi Chile, sem hér er staddur, hefur nefnt töluna 30 þús. manns. Ótrúlegur fjöldi manna situr í fangabúðum. Sjálfsögð mannréttindi hafa verið afnumin, öll stjórnmálastarfsemi hefur verið bönnuð, en því mun hafa verið lýst yfir, að stjórnmálastarfsemi verði leyfð aftur, þ. e. a s. allra nema sósíalista. Bækur, sem að mati herforingjastjórnarinnar flytja óæskilegan boðskap, eru brenndar á háli, m. a. hækur hins nýlátna Nóbelsverðlaunaskálds, Pablo Neruda. Þjóðþing Chile hefur verið rofið og stjórnarskráin numin úr gildi. Afstaða annarra ríkja til herforingjastjórnarinnar hefur verið misjöfn. Sum ríki hafa slitið stjórnmálasambandi við Chile. Aðrar þjóðir, m. a. Finnar og Svíar, hafa brugðið skjótt við og boðið flóttamönnum landvist og fjárhagsaðstoð. Finnska þingið sendi þingmannanefnd til Chile fljótlega eftir valdaránið til þess að kynna sér ástandið, og finnska ríkisstj. kostaði alþjóðaráðstefnu til stuðnings andspyrnuhreyfingunni.

Það er því fyllsta ástæða til að spyrja nú um afstöðu íslenska utanrrn. til herforingjastjórnarinnar í Chile.

Ég vil að lokum minna hæstv. utanrrh. á það, að utanrrh. í stjórn Allendes situr nú í alræmdum fangabúðum á eyju fyrir utan strönd Chile og leyfi mér að halda því fram, að ef ríkisstj. Íslands hefur viðurkennt herforingjastjórnina, þá er hún að leggja blessun sína yfir slíkt framferði.