04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

114. mál, félagsráðgjöf

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti. Félagsráðgjöf er ung starfsgrein hér á landi. Hún er hjálpargrein og tengiliður ýmissa annarra starfsgreina, svo sem læknisfræði, sálarfræði, lögfræði, félagsfræði og guðfræði, ef svo ber undir. Starf félagsráðgjafans er fólgið í viðtölum, ráðgjöfum og aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur. Má segja, að það verði oft raunar á breiðari grundvelli en hver einstök þessara fyrrnefndra greina. Málefnin, sem félagsráðgjafinn fjallar um, eru oft viðkvæm vandamál einstaklinga eða erfiðleikar í fjölskyldu. Það er því alveg ljóst, að starfið er ábyrgðarmikið og til þess þarf staðgóða menntun. Það gerir kröfur til nokkurrar innsýnar í allar þær fræðigreinar, sem ég nefndi hér áðan, auk staðgóðrar þekkingar á þjóðfélaginu sjálfu og uppbyggingu þess.

Reynslan hefur sýnt, að því flóknari sem þjóðfélögin hafa orðið, því meir hefur vaxið þörfin fyrir félagsráðgjafa. Við þurfum ekki annað en að líta hér á borðin okkar. Þar er að finna stór frv., sem gera ráð fyrir mörgum félagsráðgjöfum, sem eiga að sinna aðkallandi störfum. Í grunnskólafrv. er gert ráð fyrir mörgum nýjum félagsráðgjöfum, og í frv. um fóstureyðingar sömuleiðis. Vandinn er aðeins sá, að okkur vantar fólk með félagsráðgjafamenntun. Nú munu starfa í landinu aðeins 12 eða 13 félagsráðgjafar, sem menntaðir eru til síns starfs. Og þeir eru ekki allir í fullu starfi. Allt það fólk hefur orðið að sækja menntun sína út fyrir landssteinana, og námið tekur að jafnaði 3–4 ár. Það væri augljóslega hagkvæmara, ef unnt væri að veita þessa menntun hérlendis og fleiri íslenskir stúdentar gætu þá átt kost á náminu. Þar við bætist, að veigamiklir hlutar þessa náms eru bundnir við aðstæður, sögu og lög þess lands, sem námið er stundað í. Ég nefni sem dæmi, að í Noregi eru af 749 tímum 552 tímar í greinum, sem með eðlilegum hætti hljóta að vera allmismunandi eftir löndum. Þessir 552 tímar eru í félagsmálapólitík, sem ég nefni svo (sosialpolitik). Sú grein fjallar um tryggingar, barnavernd, vinnumarkaðsmál og margt fleira og er langviðamest af námsgreinunum. Auk þess kemur til námsgreina, sem fjalla um uppbyggingu ríkis og sveitarfélaga í landinu, og svo almenn lögfræði, afbrotafræði og refsiréttur. Allt þetta hlýtur að vera bundið við aðstæður í hverju landi, þar sem námið er stundað.

Nám fyrir íslenska félagsráðgjafa þyrfti að miðast við íslenskar aðstæður, og með tilliti til þess og svo annarra atriða, sem ég hef talið í þessum orðum, hef ég leyft mér að bera upp fsp. á þskj. 137, sem er í 2 liðum og hljóðar svo:

„Er fyrirhugað að taka upp kennslu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands? Ef svo er, hvað líður undirbúningi námsbrautar í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.“