04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

114. mál, félagsráðgjöf

Fyrirspyrjandi (Ragnhildar Helgadóttir) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Mér þykir það ekki virðast vera nógu skammt undan, að tekin verði upp kennsla í þessari fræðigrein hér á landi. Það liggur að vísu fyrir, að menntmrh. og menntmrn. hafa fullan vilja til að vinna að því að tryggja fjárveitingu, til þess að hægt verði að hefja kennslu 1974–1975, ef aðrar aðstæður leyfa. Þessar „aðrar aðstæður“, sýnist mér, að muni vera verkefni hæstv. menntmrh. að tryggja að verði fyrir hendi. Enn þá mun ekki hafa verið tekin inn í fjárlagafrv. tillaga menntmrn. um fjárveitingu, til þess að hægt verði að hefja þessa kennslu. En ég vil hvetja til þess, að svo verði gert. Enn fremur þarf að leggja áherslu á, að öllum undirbúningi að öðru leyti verði hraðað. Það hljóta að vera til þess ráð að fá þá kennara, sem kann að skorta í þessa fræðigrein hér á landi, einfaldlega með því að fá þá lánaða jafnvel frá öðrum löndum. En það breytir ekki því, sem ég tel mjög miklu skipta í sambandi við þetta mál. Það er, að þær fræðigreinar, sem vega mjög þungt innan þessa náms, eru sérstaklega miðaðar við aðstæður hvers lands. Þó að íslenskir félagsráðgjafar læri svo og svo mikið í lögfræði Noregs, Svíþjóðar eða Finnlands, gerir það þá ekki nægilega hæfa til þess að gefa upplýsingar um íslenska lögfræði, þó að margt sé þarna vitanlega líkt. Mér er þó fullkunnugt, að þeir íslensku félagsráðgjafar, sem nú starfa, hafa gert sér far um að kynna sér sem best þá hluta af íslenskri löggjöf, sem þeir fjalla um. Mikil áhersla er lögð á það í þessu námi, að kynnt sé sem best uppbygging og samsetning þjóðfélagsins, saga þess og aðstæður allar. En það upplýsir ekki nægilega mikið um íslenskar aðstæður og viðhorf að þessu leyti, að hafðir séu 326 tímar í sögu félagsmála í Svíþjóð eða Noregi og uppbyggingu ýmiss konar félagslegrar aðstoðar í þessum löndum. Ég held, að það verði æ meira aðkallandi, að komið verði á fót íslenskri námsbraut í þessari fræðigrein. Við sjáum á ýmsu, svo sem grunnskólafrv. og frv. um fóstureyðingar o.fl., að þar kemur fram og raunar víða annars staðar, að fólk hneigist til þess að líta á félagsráðgjafa sem einhvers konar þúsund þjala smiði í lausn mannlegra vandamála. Ef þeir eiga að geta risið undir þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra, hlýtur að verða að bæta aðstöðuna hér á landi, til þess að hægt sé að sinna þörfunum fyrir þétta nám.

Ýmsir stúdentar, sem innrituðust í námsbraut í þjóðfélagsfræðum, þegar hún hóf göngu sína, munu hafa gert það gagngert með það fyrir augum að fara síðar út í félagsráðgjöf. Þá álitu menn, að það væri skammt undan, að hægt væri að taka slíkt nám sem sérgrein eða í framhaldi af einhverju almennu inngangsnámi í námsbraut í þjóðfélagsfræðum. Síðan er liðið hátt á þriðja ár, og ekki virðist enn bóla á neinum framkvæmdum, og þess vegna finnst mér fyllsta ástæða til þess að knýja á um það, að menntmrn. aðhafist eitthvað í þessum efnum.