04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

379. mál, lán til íbúðarhúsabygginga bænda

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) ; Herra forseti. Á þskj. 137 er fsp. frá hv. 6. landsk. þm., sem hann var að lýsa hér áðan. Svar það, sem landbrn. hefur látið mér í té við fsp. hv. þm., er á þessa leið :

„Stofnlánadeild landbúnaðarins: Hámarkslán þar er 800 þús. kr. Út á fokhelt hús eru veittar 375 þús. kr. og fullgert hús 425 þús. kr. Lánin bera 8% vexti og eru veitt til 42 ára út á steinhús, en tímalengd lána til húsa úr öðru efni fer eftir mati Byggingarstofnunar landbúnaðarins. Lánin eru með jöfnum ársgreiðslum.“

Þá segja þeir þetta um samanburðinn við Byggingarsjóð ríkisins eða Húsnæðismálastofnunina:

„Byggingarsjóður ríkisins veitir 800 þúsund kr. hámarkslán, helminginn út á fokhelt hús, hinn helminginn 6–8 mánuðum síðar. Þessi lán eru aðeins veitt út á 1. veðrétt. Lánin eru jafngreiðslulán til 26 ára. Fyrsta árið er afborgunarlaust, og eru þá aðeins greiddir vextir af láninu, en síðan er lánið greitt með jöfnum ársgreiðslum vaxta og afborgana á 25 árum. Grunnvextir eru 4.25. Skal meðaltal vaxta og vísitölu allt lánstímabilið aldrei vera hærra en 7.75.

Auk þess veitir Húsnæðismálastofnun lán til byggingar leiguíbúðarhúsa á vegum sveitarfélaga, til kaupa á eldri íbúðum og verkamannabústaða. Um þau lán gilda sérstakar reglur.“

Þá er þetta sundurliðað þannig, að útborgunin er á fokhelt hús hjá Stofnlánadeildinni 375 þús. kr. og 425 þús. kr. aftur út á fullgert hús, en hjá hinum aðilanum 400 þús. í báðum tilfellum, og síðari hlutinn 6–8 mánuðum eftir að fokhelt hefur verið gert. Hjá Stofnlánadeildinni er forgangsveðréttur og 1. veðréttur hjá Húsnæðismálastofnuninni. Vextir eru 8%, og vöxtum hinna lýsti ég hér áðan. Lánstími hjá Stofnlánadeildinni er 42 ár á steinhús, en 26 ár hjá Húsnæðismálastofnuninni.

Þetta eru þan svör, sem ég hef að gefa hv. þm., og er ég ekki viss um eftir ræðu hans áðan, hvort þau fullnægi, en vona samt, að svo sé.