04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

117. mál, málefni Vladimirs Ashkenazy

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Um málefni Vladimirs Ashkenazy, þau sem hér er fjallað um, vil ég segja þetta:

David Ashkenazy, faðir Vladimirs, fékk að fara til London í stutta heimsókn til sonar síns árið 1967, síðan hafa þeir feðgar ekki sést. Vladimír Ashkenasy hefur verið að reyna að fá föður sinn í heimsókn hingað til Íslands síðan í ársbyrjun 1970, en ferðaleyfi hefur ekki fengist. Í nóvember 1971 ræddi ég um þetta við sovéska sendiherrann í Reykjavík, þáverandi, Sergei Astavin. Hann lofaði að athuga málið, en engin svör hafa borist frá sovéska sendiráðinu. Í júní 1972, þegar Pétur Thorsteinsson ráðuneytisstjóri var staddur í Moskvu, átti hann viðtal við A. A. Smyrnoff varautanríkisráðherra og ræddu þeir þá m. a. mál Ashkenazys. Athugun var þá enn lofað. Í des. 1972 var birt í Reykjavík opið bréf til Leonids Bresnev aðalritara Kommúnistaflokks Sovétríkjanna frá 129 Íslendingum, — það er það bréf, sem hv. fyrirspyrjandi vísaði til, þar sem skorað er á hann í nafni mannúðar og réttlætis að heita áhrifum sínum til þess, að David Ashkenasy verði leyft að heimsækja son sinn. Undir þetta bréf ritaði meiri hl. alþm. og tveir ráðherrar. En David Ashkenasy hefur enn ekki fengið brottfararleyfi, þrátt fyrir ítrekaðar umsóknir hans um leyfið.

Í ársbyrjun 1972 var birt í Moskvu bréf frá David Ashkenasy, dags. 31. des. 1971, þar sem hann segist, hvenær sem hann óski, geta fengið leyfi til að fara til sonar síns, en hann geti það ekki vegna heilsu konu sinnar. Í sovéska sendiráðinu í Reykjavík fékk Vladimir Ashkenazy þau svör í febr. 1972, að faðir hans vildi ekki koma til Íslands. Þetta kemur ekki heim við þau svör, sem Vladimir fær frá föður sínum, er þeir talast við í síma, og auk þess er utanrrn. kunnugt frá manni, sem ræddi við David Ashkenazy í Moskvu í janúar 1972, að hann hafði þá fullan áhuga á því að koma til Íslands og bað fyrir þau skilaboð til sonarins, að hann skyldi endurnýja skriflegt boð til sín um að koma til Íslands.

Svör mín við fyrirspurnum á þskj. 141 eru því svo hljóðandi: Við fyrri spurningunni: Ríkisstj. er eins og áður reiðubúin að taka þetta mál upp, ef eftir verður leitað. Og við síðari spurningunni verða svörin þau, sem ég áðan greindi. Það var tekið vel í málið, en ekkert gerðist.