04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

381. mál, fjárlagaáætlanir

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Á síðasta Alþ. lagði ég fram till. til þál. um, að unnið yrði að gerð fjárlagaáætlana nokkur ár fram í tímann, svo sem nú þykir orðið sjálfsagt hjá flestum efnahagslega þróuðum löndum. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, sem á að gera ráðamönnum og yfirstjórnendum fjármála og efnahagsmála nokkra mynd af því, hvernig líklegt verði, að þróunin reynist næstu ár eftir það fjárlagaár, sem þá er um að ræða. Ég hygg, að hvarvetna hafi þetta reynst mjög skynsamleg vinnubrögð. Það er auðvitað takmarkað, hvað hægt er að komast nærri hinu sanna í þessu efni, ekki síst, þegar er um mikla verðbólguþróun að ræða, en vissar hugmyndir má þó gera sér. Þetta hafði nokkuð verið athugað af sérstökum embættismönnum hér á Íslandi, og umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar, sem gengur frá fjárlögum fyrir ár hvert, var send þeirri n., sem hafði með þetta mál að gera á síðasta þingi, og var sú umsögn mjög jákvæð, en hins vegar talið, sem mér var fullkomlega ljóst, að það tæki nokkurn tíma að undirbúa slíkar fjárlagaáætlanir, þannig að þær gætu orðið fastur liður í afgreiðslu fjárlaga eða orðið fylgiskjal með fjárlögum hverju sinni, svo sem er t. d. víðast hvar á Norðurlöndum. Þetta mundi vera alþm. til mikillar leiðbeiningar. Þeir gætu þá kannske gert sér nokkra grein fyrir því, hvað þeir eru að gera hverju sinni. Ég hygg, að menn hafi litla yfirsýn yfir það, þegar þingi lýkur, hvað það kostar ríkissjóð, sem hefur verið samþ. á því nýliðna þingi, en það kæmi þá nokkuð í ljós, hverjar afleiðingarnar kynnu að verða næstu árin.

Ég orðlengi þetta ekki frekar. Till. var vísað til ríkisstj., og ég vona, að hún hafi tekið till. með því hugarfari, að þetta yrði framkvæmt, enda þótt menn sæju sér ekki af einhverjum ástæðum fært að samþ. till. Ég vildi því leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., hvort málið hefði verið tekið til nánari íhugunar og hvort þess mætti vænta, að unnið yrði að gerð slíkra fjárlagaáætlana nokkur ár fram í tímann.