04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

381. mál, fjárlagaáætlanir

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 141 er fsp. sú, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. var að lýsa hér áðan. Sem svar við þessari fsp., vil ég taka þetta fram:

Mál þetta hefur verið til athugunar hjá fjárlaga- og hagsýslustofnuninni, og hefur m. a. verið safnað nokkrum gögnum um gerð slíkra áætlana í nágrannalöndunum. Hins vegar hefur starfslið stofnunarinnar verið nú eins og áður að miklu leyti bundið við gerð fjárlagafrv. fyrir árið 1974 og ýmissa hagsýsluverkefna, sem mjög hafa verið aukin, síðan málinu var vísað til ríkisstj., þannig að lítill tími hefur gefist til að sinna öðrum málum.

Eins og fram hefur komið við meðferð þessara mála á Alþ., ber þess að gæta, að undirbúningur að gerð langtímafjárlaga mun krefjast mjög aukinna starfskrafta, a. m. k. í byrjun, einkum ef taka á upp gerð langtímafjárlaga á stuttum tíma. Hefur ekki verið tekin ákvörðun um slíka starfsfólksaukningu enn. Hins vegar má einnig nálgast alhliða gerð langtímafjárlaga í áföngum og taka fyrir vissa afmarkaða framkvæmdaflokka í einu, þar til heildarmynd af öllum framkvæmdaráformum væri fengin nokkur ár fram í tímann, síðan mætti taka fyrir rekstrarhliðina á sama hátt. Raunar hefur þegar hafist verk af þessu tagi á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar og samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir. Er þar um að ræða gerð 5 ára áætlunar um byggingu sjúkrahúsa og skyldra bygginga. Hefur þegar verið sett fram ákveðin hugmynd um þetta efni, sem nú er til athugunar hjá hlutaðeigandi rn. og mun nú þegar hafa verið kynnt fjvn.

Næst munu verða teknar fyrir framkvæmdir í vissum þáttum skólamála og héraðsskóla. Lengra er því verki ekki komið.