04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

381. mál, fjárlagaáætlanir

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svar hans. Ég skil það mæta vel, að þetta er töluvert erfitt viðfangsefni, sem hér er rætt um. — Hins vegar er það ekki alveg nýtt af nálinni, að þessu hafi verið gaumur gefinn hjá fjmrn., og vissar kannanir hafa farið fram á því fyrir allmörgum árum eftir ósk rh., hvernig þessu væri háttað í öðrum löndum og hvaða þýðingu þetta gæti haft fyrir okkar þjóðarbúskap. Mér dettur ekki í hug að fara að hvetja til þess að fara að búa til eitthvert óskaplegt fyrirtæki í kringum fjárlaga- og hagsýslustofnunina, þó að ég sjái ekki eftir því, að það verði kannske bætt við 2–3 mönnum, þegar menn sjá, hvað sum rn. önnur þróast, svo sem menntmrn., sem þróast eftir nokkurs konar kjarnorkulögmálum í kjarnorkusprengjum. Það stækkar stórkastlega ár frá ári. Mér skilst hins vegar, að eftir því sem það stækki, þá verði erfiðara fyrir nokkurn mann að fá lausn sinna mála þar, vegna þess að enginn viti, hvert eigi að fara. Ég vonast til þess, að það hendi aldrei fjmrn., að slík skipan mála verði þar upp tekin, — ég hvet ekki til slíkrar mannfjölgunar. Hins vegar vonast ég til, að við hæstv. ráðh. séum sammála um, að það verði æskilegt að framkvæma þetta eins víða og hægt er.

Það er eitt atriði, sem ég að lokum vil leggja áherslu á, sem fyrir mér hefur vakað í sambandi við slíka áætlanagerð, og það er að reyna að gera sér grein fyrir því, hvort þróun ríkisfjármála okkar er með þeim hætti, að hún krefjist stöðugt aukinna útgjalda og tekjuöflunar frá hinum almennu borgurum, þ. e. a. s. að hin opinberi „sektor“ verði stöðugt stærri og stærri. Þetta er viðfangsefni, sem ég held að menn verði að gera sér grein fyrir í fullri alvöru og það sé þegar orðið tímabært, miðað við þróun undan farinna ára, að gera sér grein fyrir því, hvað menn treysta sér til að ganga langt í þeim efnum. Þá er ekki nóg að spyrna við fótum, þegar í óefni er komið, heldur þurfa menn nokkurt svigrúm til þess að gera sér grein fyrir, hvort verjandi er að leggja þessi eða hin útgjöld á ríkissjóðinn með hliðsjón af þeim afleiðingum, sem sá útgjaldabaggi eða útþensla muni leiða af sér næstu ár. Þetta er mjög veigamikið atriði, sem ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. sé nokkuð ofarlega í huga einnig, að þróun ríkisútgjalda verði ekki með þeim hætti, að það þurfi sífellt að afla nýrra tekna til þess að standa undir þeim útgjöldum.