04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

381. mál, fjárlagaáætlanir

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki segja mörg orð, en ég vil bara segja það í sambandi við ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e., að ég tel störf þau, sem fjárlaga- og hagsýslustofnunin hefur unnið frá upphafi, hin bestu og merkilegustu, og ég tel, að það væri vel þess vert að auka við starfslið þar, þó að ég hafi eins og hann verið hæfilega íhaldssamur um mannaaukningu á þeim vettvangi. Ég er samt sannfærður um það, að sá kostnaður skilar sér aftur í betri vinnubrögðum. En það er eins með þessa stofnun eins og aðra, að það tekur nokkurn tíma, þangað til árangur fer að sjást af hennar verkum, og það er að verða ljósara með hverju árinu sem líður. Eitt af því, sem hefur verið tekið upp núna, er að reyna að gera sér grein fyrir, hvað frv. kosta, sem eru til meðferðar í þinginu. Því miður hefur ekki náðst að gera um það heildarskrá, en það var byrjað að vinna að því í fyrravetur. Það þarf enginn t. d. að vera neitt undrandi á því, þó að lagabálkar eins og heilbrigðislöggjöfin og hafnalöggjöfin, sem samþykktar voru í fyrra, bæti allmiklu við útgjöld fjárlaga á næstu árum. Það er alveg ljóst mál, að svo verður. Ég tel því nauðsyn bera til að efla hagsýsluna og gera meira að því að reyna að byggja upp, svo að hægt verði að sjá svona meira inn í fjárlög framtíðarinnar heldur en við höfum getað gert til þessa.