04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

382. mál, fjármagn og fjármagnsöflun til niðursuðuverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram hér einar 3 fsp. til hæstv. iðnrh., sem allar varða lagmetisiðnaðinn. Sú hin fyrsta er í tveimur liðum og hljóðar þannig:

„1. Hvaða fjármagn hafa niðursuðuverksmiðjur í landinu fengið til uppbyggingar og endurbóta á tímabilinu 1972–1973?

2. Hvaða fjárfestingarsjóður á að veita lán til ofangreindra framkvæmda niðursuðuverksmiðjanna?“

M. ö. o. varðar þetta lánamál lagmetisiðnaðarins.

Ástæðurnar fyrir því, að ég hef hreyft þessu máli, eru einkum tvær. Samkv. lögum um Sölustofnun lagmetis skal ríkissjóður ábyrgjast 100 millj. kr. lán til uppbyggingar og endurbóta til niðursuðuverksmiðja í landinu, sem Sölustofnun lagmetis á að taka, án frekari skýringa um, hvernig Sölustofnunin eigi að skipta þessari upphæð á milli verksmiðjanna. Nú er mér kunnugt um, að niðursuðuverksmiðjurnar hafa ekki fengið eyri af þessu láni, sem Sölustofnunin hefur trúlega ekki enn tekið. Hin ástæðan er sú, að lagmetisiðnaðurinn virðist hvergi eiga traustan fjárfestingarsjóð, sem hann gæti leitað til vegna uppbyggingar, endurbóta, vinnuhagræðingar, vélakaupa o. s. frv. Mér er sagt, að Byggðasjóður hafi látið eitthvert fé af hendi rakna, einnig Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður, en það er eins og fjárfestingarsjóðirnir vilji ekki taka alfarið þessi vandamál lagmetisiðnaðarins að sér.

Það væri því gott að heyra, hvað hæstv. iðnrh. segir um þennan vanda lagmetisiðnaðarins.