25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

347. mál, landhelgismál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Mér finnst það ekki koma nægilega fram hjá hæstv. utanrrh., a. m. k. í blaði ráðh., þar sem Alþj.dómst. hafa verið sendar grg. og uppl. af hálfu ísl. stjórnv., sem ísl. stjórnvöld hafa væntanlega ætlast til, að dómstóllinn kynnti sér, hvort slíkt verður gert nú í framhaldi málsins. Ég tel það geta út af fyrir sig oltið á því, hvernig fer um samkomulagstilraunir, sem fram fara við Breta og Vestur-Þjóðverja, en vil í því sambandi minna á ummæli hv. 1. þm. Reykv., Jóhanns Hafsteins, hér í vor, þar sem hann lagði áherslu á, að mál þetta yrði tekið til athugunar, áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um meðferð málsins fyrir dómstólunum. Vil ég ítreka þá ábendingu og mælast til þess, að málið verði rætt í landhelgisnefnd og eða utanrmn.