04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

385. mál, Norðurstjarnan

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti. Mér kom á óvart, að ég skyldi eiga fjórðu spurninguna eftir, en ég skal nú reyna að koma henni til skila. Hún er til hæstv. fjmrh. og hljóðar svo á þskj.:

„1. Var Norðurstjarnan h/f í Hafnarfirði ríkisfyrirtæki, þegar ríkissjóður breytti gömlum skuldum fyrirtækisins í hlutafé? Ef svo er, hvað er hlutafé ríkissjóðs mikið í Norðurstjörnunni, og hve stór hluti er það af heildarhlutafé?

2. Hve mikið fjármagn hefur ríkissjóður lagt í Sölustofnun lagmetis, lagmetisiðjurnar Siglósíld og Norðurstjörnuna h/f á s. l. ári og árinu 1973?“

Um þetta þarf ég ekki að hafa mörg orð. Þessi fsp. er í beinum tengslum við það, sem ég var að tala um áðan, að það væri eðlilegt hlutfall milli þess fjár, sem Sölustofnun lagmetis á að hafa, og þess fjár, sem fer til undirstöðueininganna í lagmetisiðnaðinum. Þetta er í beinum tengslum.