04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

47. mál, undirbúningur að næstu stórvirkjun

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst leiðrétta misskilning, sem vel má vera, að stafi af mismælum mínum. Ég átti við, að Krafla yrði ekki komin í framleiðslu fyrr en 1977–1978. Ef ég hef sagt annað, þá var það misskilningur.

En ég vil svo fara örfáum orðum um þessar tvær þáltill. Það er alveg rétt hjá hv. 1. flm. þáltill. á þskj. 69, að sú till. gengur lengra. Hún ákveður, hvar skuli virkjað, og jafnframt ákveður hún, að virkjuð skuli í framhaldi af Kröflu Jökulsá á Fjöllum við Dettifoss. Ég tel ekki rétt að ætla Alþ. að ákveða þannig virkjunarstaði. Ég tel nauðsynlegast að ákveða meginstefnuna.

Ég er starfandi að nokkru leyti við þessi mál, hef starfað í nefndum á vegum tveggja ríkisstjórna, sem fjallað hafa um stóriðju, og þessi mál, þ. e. a. s. virkjunarmálin, hafa að sjálfsögðu komið þar mjög við sögu. Mér hefur því orðið ljóst, að markvisst hefur annars vegar verið stefnt að hverri virkjun eftir aðra á Þjórsársvæðinu, en hins vegar hafa rannsóknir á öðrum virkjunarmöguleikum á landinu einkennst af forrannsóknum og ekki verið markvissar. Ég tel því aðalatriðið, að Alþ. lýsi þeirri skoðun sinni, að þessum starfsháttum skuli verða breytt og markvisst skuli verða unnið að því að gera aðra virkjunarstaði tilbúna til virkjunar. Mér finnst hins vegar, að það eigi að vera hlutverk ríkisstj. og sérfræðinga ásamt heimamönnum að ákveða, hvaða staður er virkjaður.

Ég held, að ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar nú til að ákveða virkjun Kröflu, þó að, eins og ég sagði áðan, ég telji þá virkjun líklegasta. Og ég tel heldur ekki, að það liggi fyrir nægilegar upplýsingar til þess að ákveða virkjun Dettifoss, því miður, vil ég leyfa mér að segja. Það gæti allt eins orðið, að virkjun Blöndu væri talin skynsamlegri í fyrsta eða öðrum áfanga eða virkjun í Skagafirðinum. Þetta liggur að baki till. á þskj. 49. Ég get hins vegar vel fallist á, að flm. till. á þskj. 69 hafi ekki talið nógu langt gengið og hafi því talið þörf á því að flytja aðra þáltill. um sama efni, sem kveður nánar á um þessi atriði.

Ég vil svo aðeins að lokum taka það fram, að þær forrannsóknir, sem Orkustofnunin hefur haft með höndum, eru að sjálfsögðu mjög þarfar. Það er vitanlega mikil nauðsyn á því, að við eigum sem gleggstar upplýsingar um alla virkjunarstaði þessa lands. Ég er ekki út af fyrir sig að áfellast það, þótt segja megi, að sumir af þeim möguleikum, sem þar hafa verið rannsakaðir og varið til miklu fé, eins og t. d, stórvirkjun á Austurlandi, þar sem rætt hefur verið um að veita þremur stórum fallvötnum saman og virkja um 1000 114W, ættu að hafa vakið upp þær spurningar, til hvers eigi að virkja svo stórt, til hvers eigi að nota orkuna. Þessu hefur ekki verið svarað. Því flutti ég ásamt tveimur þm. á síðasta þingi till., sem var ætlað að benda á það, að nauðsynlegt væri að skoða markmiðið, skoða, til hvers nota eigi svo mikla orku, áður en ráðist er í mjög kostnaðarsamar rannsóknir. En til þeirra rannsókna hefur verið varið, að því er ég best veit, ekki aðeins millj., heldur jafnvel milljónatugum. Engu að síður vil ég, að það komi fram, að almennt er ég því mjög fylgjandi, að almennar forrannsóknir á orkuforða landsins séu efldar, þannig, að sem gleggstar upplýsingar liggi fyrir um alla virkjunarmöguleika, enda sé þess gætt að velja og hafa ávallt tilbúna a. m. k. einn eða tvo virkjunarstaði á ýmsum stöðum landsins, þegar á þarf að halda.