04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

68. mál, farþegaskip milli Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur

Flm. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 74 í Sþ. eftirfarandi till. til þál.:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa nú þegar kaup á sérsmíðuðu farþegaskipi, er hafi reglubundnar ferðir milli Reyðarfjarðar (Búðareyrar), Þórshafnar í Færeyjum, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur. Stefnt skal að því, að skipið geti hafið ferðir milli landanna að vorlagi 1976.“

Fyrir nokkrum vikum var m/s Gullfoss seldur úr landi, og með þeirri sölu hvarf síðasta sérsmíðaða farþegaskipið úr eigu Íslendinga. Margir munu sakna Gullfoss utan þings sem innan. Ýmsar raddir hafa verið uppi um það á undanförnum árum, að nauðsyn væri á því að endurnýja farþegaskipakost okkar Íslendinga. H/f Eimskipafélag Íslands, einu sinni nefnt óskabarn þjóðarinnar, telur sér það um megn að kaupa nýtt skip og ber við, að allir útreikningar sýni, að ekki geti verið um beinan hagnað að ræða á rekstri slíks skips. Þar er nú uppi sú stefna, að hver einstakur þáttur í rekstrinum verði að bera sig fjárhagslega, ella skal honum hafnað. Ég vil ekki líta þannig á málið einhliða. Ég vil líta á kaup á svona skipi sem lið í samgöngukerfi þjóðarinnar og því beri að athuga um kaupin, þótt beinn rekstrarhagnaður sé ekki tryggður við fyrstu yfirsýn né á fyrstu árunum, þegar vextir eru sem mestir. Arðsemi svona skips kemur á margan hátt fram sem beint framlag til eflingar annarri starfsemi í þjóðfélaginu og það með því fyrirkomulagi, sem ég hugsa mér fyrst og fremst, að verði úti um land. Ekki er nokkur vafi á því, að rekstur á svona skipi yrði mikil lyftistöng fyrir Austfirði og héruðin fyrir norðan og sunnan. Hringvegurinn skapar í raun nýtt viðhorf í samgöngukerfi okkar innanlands, og einmitt hans vegna ber að endurskipuleggja staðsetningu aðalhafna fyrir farþegaskip okkar, er sigli reglubundið til hinna Norðurlandanna. Ég tel, að það eigi að vera metnaðarmál okkar að hafa ákveðið kaup á sérsmíðuðu farþegaskipi á næsta ári og það sem fyrst. Það er ekki sæmandi fyrir Íslendinga að eiga ekki gott farþegaskip. Þótt það sé staðreynd, að yfirgnæfandi meiri hluti farþega fari nú með flugvélum milli Íslands og annarra landa, má ekki gefast upp við að reka hér gott farþegaskip og tryggja með því reglubundnar samgöngur á sjó, einkum á milli eyþjóðanna og svo Noregs og Danmerkur.

Ég geri mér grein fyrir því, að mikill vandi er að velja rétta stærð af skipi og með hentugum útbúnaði, sem tryggi fullt öryggi og jafnframt eins ódýran rekstur og nokkur tök eru á. Þess vegna legg ég til, að sérfróðum og duglegum mönnum verði falið að rannsaka, hvaða gerð og stærð muni best henta okkur með hliðsjón af því fyrirkomulagi, sem ég legg til, að verði á ferðunum. Ég hef farið með nýju skipi á milli Hirtshals í Danmörku og Kristianssands í Noregi, sem ég tel, að geti verið að mestu eða öllu fyrirmynd að góðu skipi fyrir okkur. Ég tel, að skipið verði að hafa minnst 16 mílna ganghraða að jafnaði, svo að tími á sjónum sé ekki of langur og skipting vegalengda kemur vel út með þessum ganghraða.

Mikilvægt atriði er, að farþegar séu ekki að jafnaði yfir einn sólarhring um borð án þess að koma að landi. Þetta segja reyndir menn í farþegaskiparekstri, að sé afar þungt á metunum, er fólk velur á milli farartækja. Yfirlitið um tíma á milli siglingastaða sýnir, að með 16 mílna hraða á klst. að jafnaði er komið vel til móts við þetta sjónarmið. Sjálfsagt má koma með till. um annað fyrirkomulag ferða eða aðra staði. En n. mun kanna það betur. Ég vil þó leyfa mér að nefna, að t. d. aðra hvora ferð yfir vissan tíma ársins, að sumarlagi fyrst og fremst, getur komið til greina að sigla þannig: Reyðarfjörður, Þórshöfn, Bergen eða Kristianssand og svo beint til Hirtshals. Það er ekki nema fjögurra tíma sigling frá suðurodda Noregs, Kristianssand, yfir til Hirtshals, þaðan svo með viðkomu í Abardeen, sem yrði rúmlega sólarhrings sigling, svo Þórshöfn og Akureyri. Þetta yrði svipuð leið að tíma til og hin leiðin, sem sýnd er í till., en þessi leið mundi skapa aukna fjölbreytni í siglingu skipsins, og með svona skipulagi mundum við ná miklum fjölda manna frá Mið-Evrópulöndunum, sem nú í stórvaxandi stíl aka norður um Danmörku og taka skipin í Hirtshals eða Skagen og fara yfir til Noregs eða Svíþjóðar, og allmargir taka skip, sem siglir frá Danmörku beint á England.

Miðað við þær upplýsingar, sem ég hef náð til má ætla, að skip, sem væri þægilegt fyrir okkur, mundi taka 350–400 farþega og að bílarými að vera fyrir allt að 90 fólksbíla. Öllum ber saman um það, að nú þurfi að reikna með því, að einn bíll fylgi að meðaltali á 4–6 farþega, og má vænta þess, að fólk taki bílinn enn meir með sér, ef hentugt skip er til ráðstöfunar. Þar sem flestir farþegar eiga þess kost að koma á land einu sinni á sólarhring, segja mér fróðir menn í þessum efnum, að mun skynsamlegra sé að hafa kaffiteríusnið á matarþjónustu um borð og hætta með mikið þjónalið, sem er dýrt og matföng mikil, en þess í stað verði farþegar að ná í matföng sín sjálfir. Þá eru að jafnaði fáir og léttir réttir til reiðu sem föst regla. Hins vegar sé nauðsyn á því að hafa einn góðan matsal, t. d. fyrir 50–60 manns, þar sem þá þurfi að panta sér mat með nokkrum fyrirvara og yrði þá skuldbundið að mæta á réttum tíma. Í þessum sal verði útbúnaður nokkru vandaðri. Þar megi m. a. hafa dans á kvöldin og fleira gert sér til skemmtunar.

Ég tel einnig, að myndlistarmenn eigi að hafa möguleika til þess að kynna verk sín þarna og aðrir listamenn geti komið þarna fram með verk sín. Hví ekki að koma því svo fyrir, að verk norrænna listamanna verði kynnt í hverri ferð á milli landanna?

Ég geng hér ákveðið út frá því, að heimahöfn þessa skips yrði á Austfjörðum, og hef nefnt Búðareyri. Ég vænti þess, að ekki komi til hrepparígs um staðarvalið. Telji menn hins vegar, að t. d. Eskifjörður sé betur til fallinn, m. a. vegna þess, að þar er nú þegar fyrir hendi ákveðið embættismannalið, set ég mig ekki á móti slíku. Nauðsynlegt er að gera góða aðstöðu fyrir skipið, svo að allt geti gengið greiðlega við afgreiðslu og farþegar þurfi ekki að verða fyrir óþarfa töfum. Þótt skipið sé fyrst og fremst fyrir farþega, er vel hugsanlegt, að nokkurt magn af vörum geti komið í hverri ferð og þá auðvitað í gámum. Það yrði mikill léttir við aðdrætti fyrir Austurland og Norðurland.

Nú munu einhverjir halda því fram, að gersamlega vonlaust sé að reka svona skip til að byrja með, þar sem verkefni séu aðeins í 6–8 mánuði á ári. Nokkuð er til í þessu. En ég vil koma hér með þá hugmynd, að í stað þess, að Íslendingar flykkist inn á hótel hjá Spánverjum eða öðrum Suðurlandaþjóðum að vetrarlagi, þá megi láta skipið hafa samastað í góðri höfn suður frá um veturinn, t. d. frá byrjun nóv. til febrúarloka. Þar gætu Íslendingar dvalið og flugfélögin okkar flutt farþega á milli staða. Nú hefur það verið samþ. á hinu háa Alþ. að hvetja menn til vetrarorlofs, og hví ekki að reyna að hnýta þetta betur saman að hvílast og stuðla jafnframt að hagkvæmum rekstri á eigin farþegaskipi?

Ekki vil ég leggja ákveðið til. hvaða aðili annist rekstur skipsins. Ég tel þó nauðsynlegt, að ríkið eigi sem mest í skipinu, þar sem ríkið mun þurfa að vera í bakábyrgð fyrir greiðslum til seljanda. Það er von mín, að ekki komi til átaka um rekstrarformið, heldur verði samstaða um það og kaupin þar með tryggð. Mér er ekki kunnugt um kaupverð á svona skipi í dag. Verðlag er nú svo breytilegt, að ekki er unnt að spá um það með vissu. Hins vegar tel ég rétt, að útboð á smíði skipsins verði gert á öllum Norðurlöndunum og aðstoð við fjármögnun fengin þar einnig. Norðurlandaráð hefur tekið samgöngumál til sérstakrar meðferðar, og vil ég vænta þess, að frá þeirri stofnun megum við eiga von á liðveislu. Það er þegar fyrir hendi ákveðinn samningur af þessu tilefni, sem of langt mál væri að lesa hér upp, en hann hvetur eindregið til þess, að hér sé komið föstu og betra skipulagi á flutninga á sjó, í lofti og með öðrum flutningatækjum, og fellur þessi hugmynd alveg að ramma þess samnings. Hér liggur nú fyrir brtt. líka, sem mun undirstrika gildi þess starfssviðs, og munu flm. gera grein fyrir henni, svo að ég ætla að sleppa að ræða nánar um hana. En ég minnist þess, að hæstv. iðnrh., sem á sínum tíma var í Norðurlandaráði, stóð að tillöguflutningi um aukið samstarf Norðurlandaþjóðanna á þessu sviði. Sú till. hefur verið samþ., málið hefur haldið áfram, og fyrir liggur nú ákveðinn samningur í þessu efni.

Enginn vafi er á því, að Færeyingar hafa brennandi áhuga á kaupum og rekstri svona skips. Sennilega mundu þeir hvað mest njóta þess, og er það vel. Samskipti okkar við þá mundu gerbreytast til hins betra og verða báðum þjóðunum til ómetanlegs gagns. Það er skoðun mín, að við eigum að standa myndarlega að kaupum á svona skipi og hrinda þeim í framkvæmd sem fyrst. Ég tel það vera þjóðarnauðsyn.

Fyrir hinu háa Alþ. liggur nú frv. um skipan ferðamála. Ferðamálin eru stórmál og munu fá sívaxandi gildi í framtíðinni. Undanfarin ár hefur fjárfesting í ferðamálum borið góðan arð, og ekki er annað fyrirsjáanlegt en að svo verði áfram. Núv. samgrh. hefur jafnan sýnt þessum málum áhuga og liðveislu. Hann var 1. flm.till. til þál. árið 1968 ásamt núv. forseta Sþ., flm. þessarar till. og Steingrími Pálssyni. Þar var lagt til, að gerð yrði ákveðin þriggja ára áætlun í ferðamálum, og urðu allmiklar umr. um till. á sínum tíma. Fram kom m. a. sú hugmynd, að við þyrftum að hugsa til lengri tíma, t. d. 10 ára, en því tímabili mætti skipta innbyrðis í tvö 5 ára tímabil. Hvað sem um allar áætlanir má segja í þessu efni, verðum við að taka með að mínu mati kaup á svona skipi, þegar menn eru að ræða um framtíðarskipulag ferðamála hér á landi. Þess vegna er þessi till. flutt. Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að hlé verði gert á umr. og till. vísað til fjvn.