04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

68. mál, farþegaskip milli Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ásamt hv. 4. þm. Reykn. hef ég leyft mér að flytja brtt. við þá þáltill., sem nú er til umr. Brtt. er prentuð á þskj. 162. Við leggjum til, að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta hið fyrsta gera rækilega könnun á rekstrarmöguleikum og hagkvæmu rekstrarformi nýs farþegaskips, sem uppfyllir nútímakröfur í slíkum efnum. Sé við það miðað, að skipið haldi uppi reglubundnum ferðum milli Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur. Skal athuga sérstaklega, hvort ekki reynist kleift að leysa málið með norrænu samstarfi á grundvelli Samstarfssamnings Norðurlanda um samgöngumál, er tók gildi 1. mars 1973.“

Ljóst er að þessari brtt. okkar, að við erum í meginatriðum efnislega samþykk till. hv. 5. þm. Reykn., en við viljum taka af öll tvímæli um, að við teljum, að réttur vettvangur fyrir þetta mál sé Norðurlandaráð, eða a. m. k. beri að reyna til þrautar að koma málinu í höfn á grundvelli Samstarfssamnings Norðurlanda um samgöngumál, áður en leitað er annarra leiða. Virtist mér hv. 5. þm. Reykn. reyndar vera á því líka í ræðu sinni, enda þótt það komi ekki fram í till. hans eða grg. Afstöðu okkar 4. þm. Reykn. byggjum við fyrst og fremst á því, að nú þegar hefur verið unnið að því innan samgöngunefndar Norðurlandaráðs að hrinda þessu máli af stað, og þegar hefur verið lögð fram áætlun um rekstur slíks skips sem hér um ræðir. Fulltrúar Íslands í samgöngun. hafa s. l. ár einmitt lagt sérstaka áherslu á að vekja áhuga og skilning annarra nm. á rekstri farþegaskips á samnorrænum grundvelli. Það er óhætt að segja, að nm. hafi allir sýnt málinu skilning frá upphafi og að málið sé nú komið á það stig, að rétt sé að vinna að raunhæfum till. á grundvelli gaumgæfilegra athugana innan ráðherranefndarinnar.

Í ljósi þess, sem ég hef nú sagt, get ég ekki annað en vikið að klausu í grg. hv. 5. þm. Reykn., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á nýloknu Norðurlandaráðsþingi voru samgöngumálin mjög á dagskrá, og kom fram í máli manna, að þau snertu nær eingöngu löndin þrjú: Danmörku, Svíþjóð og Noreg. En ber ekki að hafa eyríkin með í myndinni og ráða fram úr þeim vanda, sem lega þeirra skapar í samgöngumálum?“

Þessi ummæli tel ég mjög villandi. Af þeim mætti draga þá ályktun, að aldrei væri minnst á samgöngumál okkar Íslendinga í Norðurlandaráði. Slíka ályktun er vitaskuld ekki unnt að draga af umr. á einu aukaþingi Norðurlandaráðs, þar sem mun hafa borið hæst umr. um Eyrarsundsbrúna, en hún mun hafa verið á dagskrá hjá Norðurlandaráði meira eða minna tvo s. l. áratugi. En nú vill svo til, eins og ég sagði áðan, að smíði og rekstur slíks farþegaskips sem hér er til umr. hafa einmitt verið mjög mikið rædd í samgn. Norðurlandaráðs, og hefði ekki verið nema sjálfsagt að veita hv. 5. þm. Reykn. Allar upplýsingar um málið, hefði hann leitað eftir þeim. Ég tel því rétt að rekja nokkuð framvindu þessa máls innan samgn. Norðurlandaráðs, ef það kynni að hjálpa þeirri n., sem fær þetta mál til athugunar, til þess að taka afstöðu til brtt, okkar.

Upphaf málsins má rekja til till., sem núv. hæstv. iðnrh. lagði fram í samgn. Norðurlandaráðs, en hann átti sæti í n. Þetta kom raunar fram í máli hv. 4. þm. Reykn. hér áðan. Till. hæstv. iðnrh. var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta :

„Norðurlandaráð fer þess á leit við norrænu ráðherranefndina, að hún láti kanna, á hvern hátt megi gera samgöngur á milli Íslands, Færeyja, Grænlands og hinna Norðurlandanna sem greiðastar og ódýrastar.“

Þessi till. fékk ítarlega athugun í n., sem tók sér m. a. ferð á hendur til Færeyja og Íslands sumarið 1971 til þess að kynna sér samgöngur á milli landanna og aðstæður allar af eigin raun. Till. var síðan samþ. á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki árið 1972, og samgn. stóð einhuga að henni. Vilji og einhugur n. kemur fram í ítarlegri álitsgerð, en hana geta hv. þm. lesið í heild í þingtíðindum Norðurlandaráðs frá 1972, en þar kemur skýrt fram það álit n., að þrátt fyrir sívaxandi flugsamgöngur verður þörf á reglubundnum skipsferðum milli landanna og sé nauðsynlegt að efla samgöngur á sjó, m. a. með tilliti til ferðamannastraums. Bendir n. á þann möguleika að skipuleggja orlofs- eða skemmtisiglingar, þar sem farþegar gætu búið um borð á viðkomustöðum. Kæmi þá hugsanlegur hótelskortur ekki að sök. Einnig bendir n. á, að ferðalög með skipi gæfu ferðamönnum kost á að hafa bíl með sér, eins og hv. 5. þm. Reykn. drepur einnig á í grg. sinni. N. tók hins vegar ekki afstöðu til rekstrarforms, hvorki í sambandi við skipasamgöngur né annað, sem till. spannar, en telur það vera verkefni ráðherranefndarinnar að finna lausn á því.

Samkv. venju var einu Norðurlandaríkjanna falið að sjá um framkvæmd samþykktarinnar, og kom það í hlut Danmerkur.

Næst komst þetta mál á dagskrá hjá n. á fundi hennar í Stokkhólmi í jan., s. l. Þann fund sótti ég sem varamaður hv. 4, þm. Reykn., Gils Guðmundssonar. Samgrh. Norðurlanda komu á þennan fund n., og notaði ég þá tækifærið til að spyrja samgrh. Danmerkur, hvað þessu máli liði. Í fsp. minni lagði ég áherslu á skipasamgöngur milli landanna og skýrði frá áhuga okkar íslensku fulltrúanna á því, að kannaðar yrðu forsendur fyrir rekstri farþegaskips á samnorrænum grundvelli. Svar ráðh. danska var því miður ekki sérlega uppörvandi fyrir okkur Íslendinga. Hann gerði grein fyrir samgöngum við Grænland og Færeyjar, en sagðist að öðru leyti líta svo á, að réttast væri að vinna að samþykktinni í áföngum. Við höfum þó getað haldið þessu máli vakandi á grundvelli annarrar till., sem liggur fyrir samgn. og fjallar um aukna samvinnu á sviði ferðamála. Ég skal þó ekki teygja lopann með því að rekja umr. um þá till. neitt sérstaklega, en vil aðeins geta þess, að umr. um farþegaskipið hafa tengst umr. um þann vilja n. að beina ferðalögum Norðurlandabúa frekar innan Norðurlandanna en út fyrir þau.

Ég mun nú víkja að framvindu málsins hér innanlands og samstarfssamningi Norðurlanda um samgöngumál, að svo miklu leyti sem hann skiptir máli í þessu sambandi.

Samstarfssamningur Norðurlanda um samgöngumál gekk í gildi á þessu ári, hinn 1. mars s. l. Menn gera sér miklar vonir um, að samvinna ríkjanna á sviði samgöngumála geti orðið greiðari og auðveldari eftir gildistöku þessa samnings. Með honum er leitast við að skapa festu í vinnubrögðum og koma betra skipulagi á samstarfið og verkefni þau, sem unnið er að. Auk þess hefur verið komið á fót sérstakri deild við skrifstofu ráðherranefndarinnar í Osló, er fjalla skal um samgöngumál. Samkv. 10. gr. samningsins ber ráðherranefndinni að taka ákvarðanir um verkefni, en sérstök embættismannanefnd starfar undir yfirstjórn ráðherranefndarinnar, og henni er ætlað að framkvæma verkefnin eða sjá um framkvæmdir á þeim. Embættismannanefndin á einnig að gera till. um verkefni, sem fallin séu til samstarfs milli tveggja eða fleiri Norðurlandaríkja.

11. gr. samningsins fjallar um stöðu samgn. innan ramma samningsins, og þar segir, að ráðherranefndin skuli veita n. tækifæri til umr. um starfsáætlun, áður en hún sé staðfest. Okkur flm. þessarar brtt, þykir því ekki geta leikið nokkur vafi á því, að nota beri þá aðstöðu og þá möguleika, sem opnast hafa með samningnum, til þess að kanna rækilega alla möguleika, sem til greina kæmu. Áður en samstarfssamningurinn um samgöngumál gekk í gildi, skipaði samgn. sérstaka vinnunefnd til þess að gera úttekt á þeim málum, sem fyrir lágu og leggja fyrir ráðherranefndina eins konar óskalista yfir þau mál, sem n. óskaði eftir, að hefðu forgang. Að beiðni aðalmanns, hv. 4. þm. Reykn., tók ég sæti í þessari vinnunefnd, og á einum fundi hennar lagði ég fram í samráði við aðalmann og samgrn. áætlun fyrir farþega- og vöruflutningaskip, sem gæti annast farþega- og vöruflutninga milli Íslands og annarra Norðurlanda allt árið. Þess má geta, að á þennan óskalista settum við efst þessi tvö mál, sem ég hef þegar gert að umræðuefni, einmitt í því skyni að reyna að hrinda þessu máli í framkvæmd.

Þessi skipaáætlun var komin frá Eimskipafélagi Íslands. En vorið 1972 óskuðu forstjóri Eimskipafélagsins og stjórnarformaður þess eftir fundi með hæstv. iðnrh. vegna þeirrar till., sem hann hafði flutt á sinum tíma, og síðar áttu þessir sömu aðilar fund með hæstv. þáv. samgrh. Munu þeir hafa óskað eftir þessum fundum vegna áhuga Norðurlandaráðs á að efla siglingar milli landanna. Í bréfi, sem þeir rita til hæstv. samgrh., óska þeir eftir, að kannað verði, hvaða vonir Eimskipafélag Íslands geti gert sér um fjárhagslegan stuðning við smíði og rekstur slíks skips, en áætlun þeirra gerir ráð fyrir stærra skipi og fullkomnara en Gullfoss. Í þessari rekstraráætlun er gert ráð fyrir, að skipið haldi uppi stöðugum samgöngum allt árið milli Íslands og hinna Norðurlandanna með viðkomu í Færeyjum og e. t. v. einnig í Bretlandi. Áætlunin er gerð 1972 og sýnir árlegt rekstrartap að upphæð rúmlega 100 millj. Áætlun þessi var send til allra þeirra aðila innan Norðurlandaráðs, sem málið varðar, og ættu því á grundvelli hennar og þeirra till., sem ég hef gert að umtalsefni, að vera nægilegar forsendur fyrir því, að málið sé tekið upp af samgrh.

Nú skal ég ekki dæma um það, hvort unnt yrði að gera út farþegaskip á ódýrari hátt en Eimskipafélag Íslands gerir ráð fyrir, en þó hafði mér virst menn yfirleitt svartsýnir á það, að skip af þessu tagi yrði rekið án verulegs taps. Þó hygg ég, að ef á að vera unnt að reka slíkt skip án taps, þurfi norræn samvinna að koma til, og mér finnst sjálfri ákaflega aðlaðandi sú hugsun, að unnt yrði að reka slíkt skip á sama grundvelli og Norræna húsið er rekið, þ. e. a. s. að skipið sigli milli landanna undir þjóðfánum þeirra allra. Þróunin hefur nú einu sinni orðið sú, að menn ferðast frekar með flugvélum en skipum milli landa. Gegn þessu þarf að finna mótvægi, og er því eðlilegra, að það sé fellt inn í heildarferðaáætlun. Við höfum því ekki talið rétt, bæði af þeim sökum og af öðrum ástæðum einnig, að taka fram sérstaklega hvorki tímamörk né viðkomustaði. Hér hlýtur að þurfa að taka tillit til sjónarmiða, svo sem hvar gistihús séu fyrir hendi og aðstæður til þess að taka á móti ferðamönnum yfirleitt. Þetta höfum við allt viljað skilja eftir opið, til þess að unnt sé að kanna alla möguleika, sem fyrir hendi væru, og finna hagkvæmustu lausnina.