04.12.1973
Sameinað þing: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

68. mál, farþegaskip milli Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur

Flm. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður, en mér finnst ástæða til að þakka undirtektir undir till., því að ég held, að það sé rétt metið hjá mér, að allir ræðum enn hafi efnislega a. m. k. lýst samstöðu um till., þó að aðeins hafi komið fram smáskoðanamunur, eins og eðlilegt er og gott. Það er eins og forseti sagði hér fyrir fáum dögum, að eðlilegur skoðanamunur hér um hugmyndir er nauðsyn, þó að hann taki nú hvað harðast undir hugmyndina. En það er margra manna mál, að hann sé okkar færastur að sjá, hvað er heppilegast í ferðamálum, enda margreyndur á því sviði.

Það var fróðlegt að heyra, hvað hefur verið rætt á Norðurlöndum um þetta. Ég hafði nokkuð kynnt mér gögn í þessu efni. En ekki hafði ég hugmynd um umr. á fundum, og það, sem ég vitna hér til í grg. og virtist fara eilítið í hinar fínu taugar fyrra flm. brtt., var eingöngu fréttatilkynning frá Norðurlandaráði, enda tek ég fram, að það var á nýloknum Norðurlandaráðsfundi, sem umr. snerust, eins og þm. tók fram, fyrst og fremst um þessa stóru samgönguáætlun milli landanna um brúna eða jarðgöng. En auðvitað hefur þessi mál mjög borið á góma, eins og rakið hefur verið hér áður, og mun halda áfram, því að það kemur í ljós, að okkar sjónarmiðs er mjög vel gætt af fulltrúum okkar þar.

Ég vil aðeins láta það koma skýrt fram, að til eru tvö sjónarmið, og hef ég hér myndir af skipum í þessu tilfelli, aðra af svokölluðu línuskipi, sem þá fellur yfirleitt í flokkinn lúxusskip. Varðandi orðalagið í brtt.: „sem uppfyllir nútímakröfur í slíkum efnum“. Hvað eru nútímakröfur í slíkum efnum? Því miður er þetta dálítið teygjanlegt. Ég geri engan veginn sömu kröfu til þess að ferðast á milli landa í þessu tilfelli með ákveðnu fyrirkomulagi á skipi, hraðskreiðu áætlunarskipi, — ég geri ekki sömu kröfur og falla undir þjónustu við ferðamenn á svokölluðum línuskipum. Ef við nefnum dæmi og heiti á skipum, þá hef ég ferðast með einu skipi nýlegu, reyndar rúmlega ársgömlu, milli Hirtshals og Kristianssands, sem heitir „Buena vista“, spánskt nafn, sem þýðir „Gott útsýni“ á íslensku. Það skip er rúmlega 4 þús. tonn og veitir þægilega og góða þjónustu fyrir venjulegan ferðamann án þess að vera með nokkurn íburð, og eftir að ég fór með þessu skipi fyrir nærri tveimur árum, þá festist sú hugmynd í kollinum á mér, að þetta gæti verið lausnin hjá okkur og við slyppum við siglinguna fyrir Reykjanes með suðurströndinni, sem er tvímælalaust langversta siglingin á leiðinni og tekur um 18 tíma frá Reykjavík í línu, sem mundi skerast í námunda við það, ef siglt er frá Austfjörðum á Færeyjar, þannig að við mundum lengja siglinguna Reykjavík-Færeyjar eða Ísland-Færeyjar um helming, auk þess að skapa okkur verstu siglingaraðstöðuna. Þess vegna valdi ég Austfirði að vel athuguðu ráði, og ég tel alveg óraunhæft að vera með annað í huga, þegar við höfum það fyrir okkur, að hringvegur og betra samgöngukerfi, bæði varðandi flugsamgöngur og bílasamgöngur, verða komin hér á 1976. Þá verðum við bara að meta hlutina ásköp raunhæft og skipuleggja samkv. því. Ég vil einmitt taka undir hugmyndina hjá hv. 6. landsk., að fólkið héðan af þéttbýlissvæðinu mun auðvitað aka austur með suðurströndinni í fyrra skiptið eða öfugt og velja svo aðra hvora leiðina auðvitað til baka. Þetta er skemmtiferð, og þessi viðkoma þessa skips mun vera einu sinni á viku hverri með þessu lagi. Ef við siglum á Reykjavík, þá verða ferðirnar miklu lengri og miklu erfiðari og reksturinn allur annar. Og ég undirstrika það mjög ákveðið, að skipið verður að hafa aðstöðu fyrir austan. Það verður þá að vera í alveg sérstökum tilfellum, ef á að fara að sigla hingað. En hugmyndin um, að skipið taki ferð og ferð norður um til Akureyrar, getur byggst á því, að við siglum frá Noregi til Hirtshals og svo hraðleiðina Aberdeen-Þórshöfn-Akureyri. Það er svipaður tími, sem fer í þá siglingu.

Ég held, að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að við megum ekki fara inn á smíði skips, sem uppfyllir, eins og sett er hér fram „nútímakröfur í slíkum efnum“ sem farþegaskip, því að ég skil það svo, að átt sé við það, sem við köllum línuskip, sem eru miklu dýrara, þó að við förum ekki inn á skip eins og það nýjasta hjá Norðmönnum, ég held, að Svíar séu búnir að selja sín dýru línuskip, jafnvel þó að þau væru ekki nema 6–10 þús. tonn. Við eigum heldur að taka hina útgáfuna, sem Norðmenn, Svíar og Finnar eiga mikið af og sigla á milli Norðurlandanna og Þýskalands. Þau eru einfaldari og þægileg þjónusta. Talið er, að skipið sé yfirleitt 10–15 tíma á milli hafna, þó að í einstaka tilfellum sé um lengri leiðir að ræða. En þetta eru örugg og góð skip, stærðin á þeim frá 3 þús. brúttórúmlestum upp í 6–7 þús. brúttórúmlestir.

Ég vildi láta þetta koma hér skýrt fram, þó að við reynum að vinna að lausn málsins á samnorrænum grundvelli. Ég hef ekkert á móti því að reyna það, því að það verður fjárhagslega erfitt að reka skipið, og fjármögnun þess verður að vera sameiginlegt átak, eða a. m. k. verðum við að fá hjálp í stofnfjárframlagi frá Norðurlöndunum. Við höfum ekki bolmagn til þess öðruvísi. Mér er ekkert meginatriði, að eignaraðildin verði eingöngu á höndum Íslendinga. E. t. v. vilja Færeyingar eiga stóran hlut hér að máli. Ég hugsa, að það sé minni áhugi hjá Svíum eða Dönum, en reikna má með ákveðinni þátttöku Norðmanna, eftir því, sem ég best veit. Það, sem skiptir meginmáli í þessu, er, að þetta skip má ekki koma í stað hótels, eins og fyrri flm. brtt. drap á. Þá er rekstur þess alveg dauðvona. Þá erum við að gera kröfu til mikilvægs útbúnaðar og þjónustu í skipinu. Ég hef rætt við einn þeirra manna, sem unnu að áætlun hjá Eimskip um reksturinn á skipinu, og mér er kunnugt um, að Eimskip hafði reiknað með gífurlegu tapi. M. a. var alltaf hjá þeim hin dýra og mikla þjónusta og að fólk gæti fengið toppþjónustu eins og á fínum hótelum. Ég vil hafa þetta ódýrara, en hreinlegt og gott auðvitað, og ætlast til að fólk viti fyrir fram, að þetta er eins konar ferjuskip, sem á að sigla á milli landanna. En þar sem það siglir um úthafið eins og mörg önnur skip, sem sigla á milli Skandinavíu og Danmerkur og Englands og svo aftur Svíþjóðar og Þýskalands, þá eru gerðar miklar kröfur til þessa skips öryggislega séð og varla minni en hinna stærri skipa. En það munar mjög miklu í ýmiss konar öðrum rekstri. Þess vegna er þessi hugmynd sett fram, því að hún verður ódýrari í rekstri. En ég geri mér grein fyrir því, að fyrstu árin muni verða erfitt að láta enda ná saman, þegar allt er reiknað, arðsemi fjárins og afskriftir. En hvað um það, ég vænti þess, að þetta nái nú fram að ganga, og við eigum ekki að deila í löngu máli um, hvað sé best til að tryggja framgang málsins. Ég held, að við séum í grundvallaratriðum öll sammála um, að skipið verði að koma og það sem fyrst, og ef vettvangur Norðurlandaráðs er sá besti, sem við getum sett málið á til að tryggja því framgang, þá auðvitað vil ég, að það sé gert. En ég tel, að forustan verði að vera örugglega héðan að heiman, því að við eigum mest í húfi, og ég býst við, að Færeyingar mundu standa fast við hlið okkar til að fylgja málinu örugglega eftir.